Hægt er að skrá sig á vefnum www.hjolafaerni.is
Sjá frétt um Bláfjallaferðirnar á vef Sesselju og viðtal í Fréttablaðinu 3. mars 2010:
"Ætlarðu að skella þér með?" er það fyrsta sem Sesselja segir fjörlega við rígfullorðinn blaðamanninn þegar hann forvitnast um hjólaferðirnar í Bláfjöll. "Ég býð öllum unglingadeildum grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu að hjóla með 800 nemendur í fjöllin í maí og byrjun júní. Það var opnað fyrir bókanir í dag og strax eru komnir 200 á skrá," heldur hún áfram kampakát. Það er þó ekki eintóm léttúð á bak við ákvörðun hennar því með henni kveðst hún vilja efla vitund ungs fólks um sjálfbæra, umhverfisvæna, heilsubætandi og ánægjulega ferðamennsku. "Þetta er líka hvati til að velja önnur farartæki en einkabílinn," bendir hún á.
Sesselja hefur verið að kenna hjólreiðar. Í fyrravetur var hún með þróunarverkefni í Álftamýrarskóla sem hét Hjólafærni, hjólum og verum klár í umferðinni. Hún kveðst hafa sagt kennarastöðunni lausri að minnsta kosti þetta árið til að vinna því brautargengi að hjólreiðar fengju meiri vigt í samfélaginu. "Krakkar hafa svolítið tileinkað sér að hætta að hjóla um tólf ára aldurinn. Þeir þykjast frekar halda kúlinu með því að labba sem er illskiljanlegt því hjólreiðar eru bæði töff og skemmtilegar."
Sesselja kveðst senda gátlista í skólana sem nemendur taka með sér heim og fylla þar út sannar upplýsingar um ástand reiðhjólanna. Hún mun síðan koma í skólana áður en lagt er af stað og skoða hjól og hjálma. Hún segir fyrirhugaða leið liggja að mestu um stíga, meðal annars um Heiðmörkina og aðeins verði hjólað um Suðurlandsveg á eins og hálfs kílómetra kafla. "Við erum að tala um óbyggðaferð en samt komumst við þangað að miklu leyti á malbiki. Þó þurfum við aðeins að klöngrast og á einum stað að teyma hjólin." En hversu marga ætlar hún að fara með í einu? Ég geri ráð fyrir að fara með 80 í einu og skipti þeim upp í fjóra hópa svo ég hef fleiri fullorðna með mér, enda er þetta samstarfsverkefni fleiri aðila, meðal annars Breiðabliks og við ætlum að gista í Breiðabliksskálanum."
Fyrstu ferðirnar eru auglýstar fyrstu mánudagana í maí. "Ég stefni á að fara tvær ferðir í viku allan maí og fyrstu vikuna í júní, nema þegar uppstigningardagur kemur inn í," lýsir Sesselja sem kveðst hafa tekið út lífeyrissparnaðinn sinn til að helga sig meðal annars þessu verkefni. "Ég hafði engan áhuga á að það yrði stolið meira frá mér," segir hún. "Heldur vildi ég verja þessum aurum á einhvern heilbrigðan hátt."