Í Fossvogsskóla eru nemendur og starfsfólk hvattir til að hjóla eða ganga í skólann og hafa vel yfir 90% þeirra orðið við því kalli. Á skólalóðinni eru hjólagrindur fyrir um 160 reiðhjól og á góðum degi eru yfir 200 hjól á lóðinni á skólatíma.
Á miðvikudagsmorgnum er svokallað Hjólarí í Fossvogsskóla en Sesselja Traustadóttir hjólagúrú kennir nemendum í 6. og 7. bekk hvernig á að laga hjól, s.s. smyrja, gera við sprungin dekk, bilaða gíra og lausar keðjur. Í útikennslu fara nemendur svo með kennurum gangandi eða hjólandi um nágrenni skólans eða jafnvel lengri ferðir. Áhersla er lögð á að nemendur noti hjálma og er rekinn stöðugur áróður fyrir notkun þeirra. Með samstilltu átaki skólans og foreldra hefur því tekist að skapa hjólamenningu í skólahverfi Fossvogsskóla og er ástæða til að gleðjast yfir því.
Þess má geta að hjólastígur liggur í gegnum Fossvoginn og er hann mikið notaður af hjólreiðafólki.