Ívilnanir vegna vistvænna ökutækja

LHM gerðu umsögn um frumvarpið á samráðsgáttinni og einnig þegar málið var lagt fram á Alþingi.

Í upphafi árs sendi LHM bréf á ríkistjórnina sem e.t.v. var upphaf þessa máls hvað varðar reiðhjólin. Þar var farið fram á það við ríkistjórnina að hún hlutaðist til um að breyta lögum og reglum þannig að reiðhjól og rafmagnsreiðhjól nytu ekki minni ívilnunar en rafmagnsbílar á hverjum tíma.

Frumvarpið varð að lögum frá Alþingi og tók ákvæði um ívilnanir fyrir reiðhjól og rafmagnsreiðhjól gildi um áramótin. Frá og með 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023 er skattaðila heimilt að undanþiggja frá skattskyldri veltu virðisaukskatt á reiðhjólum upp að 200.000 kr. og rafmagnsreiðhjólum að 400.000 kr. út úr búð. Við innflutning mega tollayfirvöld fella niður virðisaukaskatt af reiðhjólum að hámarki 48.000 kr. og af rafmagnsreiðjólum að hámarki 96.000 kr. 

Segja má að þessu baráttumáli LHM hafi lokið með fullnaðarsigri að sinni og að reiðhjól og rafmagnsreiðhjól njóti nú ívilnana að sama marki og rafmagnsbílar.

Því miður náðist ekki fram tillaga LHU um að ívilnun væri hærri fyrir nytjahjól og hjól fyrir hreyfihamlaða. Að mati LHM þarf líka að koma til sérstakra ívilnana fyrir svo kölluð nytjahjól eða hlaðhjól en það eru sérstök reiðhjól sem eru ætluð til flutnings á vörum, fólki og börnum. Þá þarf líka að huga að sérstökum ívilnunum fyrir hjól sem eru ætluð hreyfihömluðum en þau virðast ekki njóta styrkja frá Sjúkratryggingum, sem er mjög bagalegt, því þau henta vel til samgangna og til að bæta líðan og virkni þeirra sem eiga við slíka fötlun að stríða. Bæði nytjahjól og hjól fyrir hreyfihamlaða eru til fótstiginn og líka með stuðningi af rafmagnsvél. Þessi hjól eru mun dýrari en hefðbundin reiðhjól og kosta oft frá um 600 þús (fótknúin) til um 1,5 milljón (með hjálparvél). Hluti af vandanum að þessu leyti er gölluð tollflokkun sem LHM hefur áður bent á. Tollflokkunin er alþjóðleg en það breytir því ekki að hún er meingölluð og skilur ekki vel á milli mismunandi gerða reiðhjóla og bífhjóla.


Bréf LHM til ríkisstjórnar Íslands. 

Frumvarpið á samráðsgátt stjórnvalda. 

Umsögn LHM um frumvarpið á samráðsgáttinni. 

Frumvarpið á vef Alþingis. 

Umsögn LHM um frumvarpið á vef Alþingis. 

Frumvarpið orðið að lögum á vef Alþingis. 


Orðalag í 1. gr. laga. 154/2019 sem heimilar niðurfellingu virðisaukaskatts af reiðhjólum og rafmagnsreiðhjólum. 
 
Við innflutning og skattskylda sölu nýs rafmagns- eða vetnisbifhjóls, létts bifhjóls sem knúið er rafmagni eða reiðhjóls er heimilt á tímabilinu 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023 að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki eins og nánar er kveðið á um í ákvæði þessu. Ákvæðið skal jafnframt gilda um niðurfellingu virðisaukaskatts við innflutning og fyrstu sölu notaðs rafmagns- eða vetnisbifhjóls enda sé ökutækið þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu.
 
     Tollyfirvöldum er heimilt við tollafgreiðslu að fella niður virðisaukaskatt:
1. Af rafmagns- eða vetnisbifhjóli að hámarki 1.440.000 kr. frá 1. janúar til og með 30. júní 2020 og að hámarki 1.560.000 kr. frá 1. júlí 2020 til og með 31. desember 2023. Bifhjólið skal skráð sem bifhjól í ökutækjaskrá, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, vera eingöngu knúið rafmagni eða vetni og falla undir vöruliði 8703, 8704 eða 8711 í tollskrá.
2. Af léttu bifhjóli eða reiðhjóli sem knúið er rafmagni að hámarki 96.000 kr. Létt bifhjól eða reiðhjól skal falla undir b-lið 28. tölul. eða b-lið 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, og vörulið 8711 í tollskrá. Létt bifhjól skal vera skráð sem létt bifhjól í ökutækjaskrá, sbr. 28. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019.
3. Af reiðhjóli með stig- eða sveifarbúnaði og öðrum tegundum reiðhjóla að hámarki 48.000 kr. Reiðhjól skal falla undir a- eða c-lið 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, og vöruliði 8711 eða 8712 í tollskrá.
 
     Við skattskylda sölu bifhjóls, létts bifhjóls og reiðhjóls er skattaðila heimilt að undanþiggja frá skattskyldri veltu:
1. Af rafmagns- eða vetnisbifhjóli að hámarki 6.000.000 kr. frá 1. janúar til og með 30. júní 2020 og að hámarki 6.500.000 kr. frá 1. júlí 2020 til og með 31. desember 2023. Bifhjólið skal skráð sem bifhjól í ökutækjaskrá, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, vera eingöngu knúið rafmagni eða vetni og falla undir vöruliði 8703, 8704 eða 8711 í tollskrá.
2. Af léttu bifhjóli eða reiðhjóli sem knúið er rafmagni að hámarki 400.000 kr. Létt bifhjól eða reiðhjól skal falla undir b-lið 28. tölul. eða b-lið 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, og vörulið 8711 í tollskrá. Létt bifhjól skal vera skráð sem létt bifhjól í ökutækjaskrá, sbr. 28. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019.
3. Af reiðhjóli með stig- eða sveifarbúnaði og öðrum tegundum reiðhjóla að hámarki 200.000 kr. Reiðhjól skal falla undir a- eða c-lið 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, og vöruliði 8711 eða 8712 í tollskrá.

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.