Innflutningur reiðhjóla hefur verið tiltölulega stöðugur á árabilinu 1999 til október 2010, sbr. 1. mynd. Innflutt reiðhjól hafa að meðaltali verið 19.721 á þessu tímabili. Minnstur var innflutningurinn árið 2002 um 12.783 stk. en mestur árið 2008 um 28.034 stk. Þar munar ríflega helming eða um 119% á mesta og minnsta innflutningi. Það er greinileg hagsveifla í þessum innflutningi þó hún sé hvergi nærri eins öfgafull og í bílainnfluttningi. Bílainfluttningur hrundi sem kunnugt er niður í 1/10 af innflutningi fyrir hrun (2. mynd). Þannig var innflutningur reiðhjóla langmestur í þenslunni og nær hámarki rétt fyrir hrun 2008 (1. mynd). Innflutningur nú er sambærilegur og fyrir þenslu tímabilið. Væntanlega bætast ekki mörg reiðhjól við eftir október 2010 því reiðhjól eru mest flutt inn á vorin fyrir sumarið.
1. mynd. Innflutningur reiðhjóla á árunum 1999 til október 2010.
2. mynd. Innflutningur fólksbíla á árunum 1999 til 2010.
Meðalþyngd innfluttra reiðhjóla á þessu tímabili var um 14,8 kg. (3. mynd) og lítill breytileiki í þeim tölum (hæst 15,98 kg. árið 2005). Athygli vekur að meðalþyngd reiðhjóla er minnst árið 2008 (12,99 kg) sem bendir til þess að fleiri létt hjól hafa verið flutt inn þá. Létt hjól eru að jafnaði dýrari og því ætti meðalverð reiðhjóla að hafa verið hærra það árið en svo virðist ekki vera ef 4. mynd er skoðuð en þar sést að árið 2008 er meðalverð reiðhjóla ekki mikið hærra. Á þessum tíma var gengið líka að falla sem ætti að leiða til hærra meðalverðs. Sennilega endurspeglar þetta einhverja breytingu í innflutningnum sem þó leiðir ekki til hærra meðalverðs, t.d. að ákveðnar léttari gerðir hjóla hafi verið algengari þetta árið.
3. mynd. Meðalþyngd innfluttra reiðhjóla á árunum 1999 til október 2010.
Á 4. mynd er sýnt meðalverð innfluttra reiðhjóla með flutningskostnaði, Cif. verð svo kallað. Meðalverð fyrir þetta árabil var 9.946 kr./stk. Á myndinni sést greinilega áhrif gengis krónunnar á innflutningsverðið. Þrátt fyrir nokkra verðbólgu allan tímann er innflutningsverðið furðu stöðugt þessi ár. Lækkar meira að segja þegar gengi krónunnar hækkar í byrjun þennslunnar frá 2003 til 2005 og verður lægst árið 2005 (6,311 kr./stk.), hækkar síðan örlítið eftir því sem gengið gefur eftir árin 2006 til 2008 og tvöfaldast síðan í hruninu árin 2009 og 2010. Árið 2010 er það hæst í krónum talið 20.052 kr./stk. Hugsanlega er tvöföldun á verði eftir hrun ekki bara vegna áhrifa gengis krónunnar. Samsetning innflutningsins getur líka haft áhrif. Er verið að flytja inn fleiri dýrari og vandaðri fullorðinshjól heldur en áður? Við vitum að hjólreiðar hafa aukist (meira um það síðar) og að meira virðist vera um vönduð götuhjól til samgangna (með 622 mm gjarðir) í umferð. Áhugi á keppnishjólreiðum og þríþraut virðist líka vera vaxandi en þar eru notuð létt og dýr hjól.
4. mynd. Meðalverð innfluttra reiðhjóla á árunum 1999 til október 2010.
Endanlegt verð í búð er þó ekki bara innflutningsverð. Ofan á það leggst í flestum tilfellum um 10% tollur því um 90% af reiðhjólum koma frá löndum utan EB, sem Ísland hefur ekki gert fríverslunarsamning við. Megnið kemur frá Kína en hluti frá Taívan. Þau hjól sem koma frá Evrópu og nokkrum löndum til viðbótar bera ekki þennan toll. Síðan leggst á virðisaukaskattur sem var lengi vel 24,5% en er núna orðin 25,5%. Að síðustu kemur svo álagning verslunar til viðbótar.
LHM hefur í nýlegri umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis óskað eftir því að tollar á reiðhjólum og varahlutum í þau verði felldur niður til samræmis við tolla og vörugjöld við innflutning á eyðslugrönnum bílum. Kostnaður ríkisins við það miðað við óbreyttan innflutning gæti verið á milli 30 og 40 milljónir króna á ári en sparnaður neytenda gæti numið um 60 til 80 milljónum króna, eftir því hvaða álagningarprósenta er reiknuð fyrir verslun.
{jathumbnail off}