Ljós í skóinn

santaLandssamtök hjólreiðamanna vilja benda jólasveininum á að skynsamlegt er að gefa ljós á reiðhjól og endurskin í skóinn til ungra hjólreiðamanna.
Ljós eru sömuleiðis góð jólagjöf handa öllum hjólreiðamönnum.

Ljós er nauðsynlegur skyldubúnaður(1) á reiðhjólum og þau eru mikilvæg til að hjólreiðamaðurinn sé sýnilegur í myrkri. Þau gera honum líka kleift að sjá gangandi vegfarendur með endurskin á stígum. Ljósið á að vera hvítt eða gult að framan og rautt að aftan. Ljós gefa mismikla lýsingu og eru á mismunandi verði og hægt er að fá ljós sem ekki nota rafhlöður og þurfa lítið viðhald.


Endurskin er líka mikilvægur skyldubúnaður. Endurskinsmerkin eiga að vera að framan og aftan og í teinum og á fótstigum. Rannsóknir sýna að það endurskin sem er neðarlega og á hreyfingu sést að jafnaði fyrst og best.

Ljósin eru virk lýsing sem eru ekki háð því að bílljós falli á hjólreiðamann til að hann sé sýnilegur. Flest slys milli bíls og hjóls verða þegar hjólreiðamaður fer yfir götu af stíg eða gangstétt og þá falla bílljós kannski ekki á hjólreiðamann fyrr en það er um seinan. Við þessar aðstæður geta ljósin bjargað. Þótt þessi slys séu ekki mörg koma börn við sögu í hluta þeirra. Það er því mikilvægt að börn eins og aðrir á hjólum hafi ljós þegar dimmt er.

Kannanir sýna að síðustu ár hefur hjólreiðamönnum fjölgað mikið í borginni og með tilkomu nagladekkja hjóla nú margir allan veturinn. Skólabörnum sem hjóla í skólann hefur líka fjölgað mikið í mörgum skólum. Þetta er mjög gott fyrir þá sem hjóla og fyrir samfélagið allt því þetta þýðir minni umferð, minni mengun, bætt heilsa og minni slysahætta af bílaumferð. Umferð verður greiðari fyrir þá sem áfram eru á bíl og minni þörf á umferðarmannvirkjum. Þetta sýnir að fjárfesting í samgöngumannvirkjum og innviðum fyrir hjólandi og gangandi er góður valkostur fyrir samfélagið í samgöngumálum.


1. Reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla, nr. 57/1994: http://tiny.cc/viaij

 

 


Fréttatilkynning frá Landssamtökum hjólreiðamanna (LHM) 16. desember 2010

 

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.