Reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð

Landssamtök hjólreiðamanna og Íslenski fjallahjólaklúbburinn gerðu athugasemd við reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð. Sjá nánar.   Hjólreiðafólki er nú heimilt að hjóla á göngu- og reiðstígum en það getur verið geðþóttaákvörðun landvarða að banna hjólreiðar.  

REGLUGERÐ

um Vatnajökulsþjóðgarð.


I. KAFLI

Friðlýsing Vatnajökulsþjóðgarðs. Almenn ákvæði.

1. gr.

Friðlýsing Vatnajökulsþjóðgarðs.

Svæði það sem afmarkað er í 3. gr. og viðauka I er með reglugerð þessari friðlýst sem þjóðgarður, sbr. 1. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Friðlýsingin tekur gildi við setningu reglugerðar þessarar. Innan Vatnajökulsþjóðgarðs eru auk lands í opinberri eigu landsvæði þar sem liggur fyrir samþykki landeigenda og sveitarstjórnar fyrir friðlýsingu.

Vatnajökulsþjóðgarður er ríkisstofnun og fer umhverfisráðherra með yfirstjórn mála er varða þjóðgarðinn. Sérstök stjórn skipuð af ráðherra til fjögurra ára í senn fer með stjórn stofnunarinnar og hefur umsjón með rekstri þjóðgarðsins. Framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs annast daglegan rekstur og umsýslu í umboði stjórnar samkvæmt erindisbréfi. Vatnajökulsþjóðgarði er skipt upp í fjögur rekstrarsvæði, sbr. 6. gr., og á hverju þeirra starfar svæðisráð, sbr. 7. og 8. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð.

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmiðið með friðlýsingu Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans sem þjóðgarðs er að vernda náttúru svæðisins, s.s. landslag, lífríki og jarðmyndanir, og menningarminjar þess. Auk þess að gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru svæðisins, menningar þess og sögu. Í þjóðgarðinum skal veita fræðslu um náttúru og náttúruvernd, sögu, mannlíf og menningarminjar svæðisins og stuðla að rannsóknum til að efla þekkingu á þessum þáttum.

Þessi landnýting er til þess falinn að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins og ber því enn fremur að líta á Vatnajökulsþjóðgarð sem mikilvæga aðgerð til eflingar byggðar á svæðinu.

3. gr.

Mörk þjóðgarðsins.

Mörk þjóðgarðsins eru tilgreind í töluliðum 1-3 hér á eftir sbr. kort í viðauka 1 með reglugerð þessari. Öll hnit eru í Ísnet93. Þar sem mörk eru dregin eftir jökuljaðri er miðað við stöðu hans 1. júlí 1998:

1. Dregin er lína úr punkti í jaðri Austurtungnajökuls þar sem Lambatungnaá rennur undan jökli, eftir jökuljaðri að austanverðum landamerkjum Flateyjar á Mýrum þar sem þau koma í jökuljaðar. Þaðan eftir landamerkjunum að punkti 200 m ofan raflínu sem liggur þvert yfir land Flateyjar. Þaðan meðfram raflínunni, 200 m ofan hennar, að landamerkjum Flateyjar og Skálafells. Þaðan í Hánípu og síðan eftir línu sem dregin er milli Hánípu og Snjófells að jökuljaðri. Eftir jökuljaðri að Kolgrímu og eftir vesturbakka Kolgrímu að punkti M (hnit E661187 m, N421142 m). Þó skulu þjóðgarðsmörk dregin 100 m norðan námu sem er yst á Hjallanesi neðst við Kolgrímu þannig að náman verði utan þjóðgarðsmarka. Frá punkti M upp að klettum ofan hjalla er fylgja neðsta klettabelti að Kistugili (lína sem dregin er milli eftirfarandi hnitpunkta: E660861 m, N421038 m; E660607 m, N420765 m; E660537 m, N420949 m). Þaðan upp með Kistugili að austanverðu að punkti N (hnit E660542 m, N420933 m) og þaðan í vörðu í punkti O (hnit E660508 m, N421238 m) að vörðu í punkti P (hnit E660012 m, N421441 m) við fjallshlíðina. Þaðan beina línu að jökuljaðri gegnum punkt R (hnit E659813 m, N422084 m). Þaðan eftir jökuljaðri að landamerkjum Svínafells og Skaftafells II í jaðri Svínafellsjökuls, þaðan eftir framlengdri þeirri landamerkjalínu á Svínafellsjökli að skurðpunkti við stefnulínu sem dregin er úr merki við Gömlutún og um fremstu nöf Hafrafells, þaðan eftir þeirri línu um fremstu nöf Hafrafells og í merkið við Gömlutún, þaðan að mörkum Austur- og Vestur-Skaftafellssýslna á Skeiðarársandi við þjóðveg 1. Þaðan er dregin lína í norður eftir sýslumörkum í jaðar Skeiðarárjökuls, þaðan eftir jökuljaðri að skurðpunkti línu sem dregin er beint frá jökuljaðri í tind Varmárfells (664 m á korti Herforingjaráðs frá 1938) um efsta tind Blængs (833 m á sama korti), eftir þeirri línu í tind Varmárfells, þaðan í tind Hnútu, þaðan í tind á Úlfarsdalsskerjum (738 m á sama korti), þaðan í beina línu í jökuljaðar um Tröllhamar (tindur 731 m á sama korti). Þaðan eftir jaðri Tungnaárjökuls að mörkum Skaftárhrepps og Ásahrepps þar sem Tungnaá rennur undan Tungnaárjökli. Eftir Tungnaá í punkt A (hnit E537750 m, N423116 m) austan Jökulheima. Þaðan beina línu í punkt B (hnit E523446 m, N416683 m) sem er á 815 m háum kolli syðst í Ljósufjöllum. Þaðan beina línu í punkt C (hnit E519371 m, N415861 m) sem er á sveitarfélagamörkum milli Svartakambs og Þveröldu. Þaðan beina línu í Þveröldu við Austurbotn Þórisvatns, þaðan í sömu stefnu í punkt D (hnit E511087 m, N424643 m). Þaðan beina línu í Hvannagil (hnit E518743 m, N431517 m). Eftir Hvannagili og síðan Köldukvísl að punkti E (hnit E537575 m, N447537 m) sem er sunnan Syðri-Hágöngu. Þaðan beina línu að Hraunbúa (hnit E541737 m, N443929 m), þá til austurs í punkt F (hnit E545382 m, N448350 m) og þaðan beina línu í Skerðing (hnit E546539 m, N455644 m), Krosshnjúka (hnit E544529 m, N461447 m) og Fjórðungakvísl (hnit E541782 m, N474087 m). Þaðan í punkt G (hnit E543077 m, N476013 m) og eftir línu sem dregin er úr punkti G milli eftirfarandi punkta: H (hnit E544473 m, N476816 m), I (hnit E544528 m, N476661 m), J (hnit E545448 m, N475961 m) og K (hnit E546621 m, N475790 m). Þaðan eftir vegslóð norðan Tungnafellsjökuls og austur Dyngjufjallaleið (hnit birt í töflu 1, í viðauka 4) að punkti L (hnit E582902 m, N504084 m) á sveitarfélagamörkum Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Þaðan beina línu í suður eftir sveitarfélagamörkunum að jökuljaðri. Eftir jökuljaðri að austurmörkum friðlandsins í Kringilsárrana, sbr. auglýsingu nr. 181/2003, þar sem Jökulkvísl rennur undan jökli. Þaðan eftir austurmörkum friðlandsins að punkti S (hnit E650403 m, N477828 m) austan Hálslóns. Þaðan eftir línu sem liggur 1 km frá og meðfram austurbakka Hálslóns (625 m hæðarlína) að Kárahnjúkavegi, þaðan í austur eftir línu sem liggur 200 m sunnan við og meðfram Kárahnjúkavegi að Hraunaveituvegi vestan Jökulsár í Fljótsdal. Þaðan eftir línu sem liggur 200 m vestan við og meðfram Hraunaveituvegi og vegslóða að Eyjabakkavaði. Þaðan beina línu í punkt (hnit E671027 m, N477861 m) 1 km sunnan við Kelduárlón og þaðan beina línu í Háukletta. Úr Háuklettum beina línu í Marköldu um innsta Geldingarfell eftir sýslumörkum Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu í upphafspunkt í jökuljaðri. Ærfjall að jökuljaðri umhverfis fjallið telst ekki innan marka þjóðgarðsins.

2. Frá Dettifossi að sunnan og austan, beina stefnu vestur í hátind Eilífs. Frá Eilífi til norðurs í Lönguhlíð og ræður hlíðin merkjum út á móts við syðsta og vestasta horn Langavatnshöfða. Þaðan beina línu í Botnslæk við suðurbotn Ásbyrgis, þá með efri brún bjarga Ásbyrgis að vestan að punkti X (hnit E612803 m, N615930 m). Þaðan í punkt Y (hnit E613224 m, N615889 m) í vesturbrún Eyjunnar og síðan þvert yfir Eyjuna í beina stefnu á punkt Z (hnit E613844 m, N616016 m) að austurbrún Eyjunnar og þaðan með björgum út að þjóðvegi. Í austurátt með þjóðvegi austur fyrir eldri Ásbyrgisveg og með honum að skógræktargirðingu og austur á björg Ásbyrgis. Þaðan með björgum svo sem þau taka, norður að þjóðvegi og með honum að Jökulsá. Austurmörk þjóðgarðsins fylgja miðlínu Jökulsár á Fjöllum.

3. Farvegur Jökulsár á Fjöllum innan jarðanna Hólssels, Víðidals og Möðrudals. Að vestan fylgja mörk miðlínu Jökulsár á Fjöllum. Að austan fylgja mörk bakka Jökulsár. Nánar tiltekið telst farvegur Jökulsár á Fjöllum innan þjóðgarðsmarka milli eftirfarandi skurðpunkta:

a. Hólssel; Að norðan ráðast mörk af skurðpunkti Jökulsár og línu sem dregin er úr Syðra-Norðmelsfjalli beint vestur í Jökulsá. Að sunnan ráðast mörk af Ytri-Vatnsleysu.

b. Víðidals og Möðrudals; Að norðan ráðast mörk af Skarðsá og að sunnan af Arnardalsárósi.

4. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda eftirfarandi:

(1) Alþjóðlegar viðmiðanir um þjóðgarða og friðlýst svæði eru ákveðnir flokkar og viðmið fyrir friðlýst svæði (Guidelines for Protected Area Management Categories) – Alþjóðanáttúruverndarsambandið (International Union for Conservation of Nature – IUCN) 1994.

(2) Hópferð á hestum er ferð þar sem fleiri en 20 hestar eru í för.

(3) Líffræðileg fjölbreytni er fjölbreytni tegunda lífvera, fjölbreytni innan tegunda og fjölbreytni þeirra vistkerfa sem tegundirnar eru hluti af.

(4) Sjálfbær ferðaþjónusta mætir þörfum ferðamanna og heimamanna en stuðlar um leið að verndun og auknum markaðstækifærum til framtíðar. Þetta felur í sér að auðlindum er stjórnað með þeim hætti að efnahagslegum, félagslegum og fagurfræðilegum þörfum er fullnægt, á sama tíma og viðhaldið er menningu, nauðsynlegum vistfræðilegum ferlum, líffræðilegri fjölbreytni og nauðsynlegum lífsskilyrðum.

(5) Sjálfbær landnýting er landnýting sem nýtir tiltekna lífræna auðlind þannig að ekki sé gengið á höfuðstól hennar, þ.e. nýting innan þeirra marka að auðlindin nær að endurnýja sig.

(6) Skilgreindir áningarstaðir eru áningarstaðir hestamanna, sbr. 14. gr., sem skilgreindir eru í verndaráætlun og sýndir á útgefnum kortum þjóðgarðsins en ekki endilega merktir á vettvangi.

(7) Skilgreind göngu-, hjólreiða- eða reiðleið er leið sem er skilgreind í verndaráætlun og sýnd á útgefnum kortum þjóðgarðsins en ekki endilega merkt á vettvangi.

(8) Varúðarsjónarmið eru sjónarmið sem stjórnun, ákvarðanataka og áætlunargerð í einstökum tilvikum byggir á. Þau miða að því að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmda og athafna manna á land, lífríki, líffræðilega fjölbreytni, jarðveg, plöntur, trjágróður, gróðurþekju, landslag, landslagsheildir, jarðmyndanir, menningarminjar,vatn, þ.m.t. grunnvatn, vatnasvið, straumstefnu vatns, magn og gæði eða aðra þætti náttúrunnar og aðrar náttúrlegar aðstæður í þjóðgarðinum, sbr. viðmið í einstökum ákvæðum reglugerðarinnar. Varúðarsjónarmiðum er heimilt að beita jafnvel þótt ekki liggi fyrir vísindaleg fullvissa um hugsanlegar afleiðingar framkvæmda, aðgerða eða aðgerðaleysis eða óljóst er hvernig samhengi orsaka og afleiðinga er háttað.

(9) Vegur er varanlegur vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar, sem notað er til almennrar umferðar.

(10) Verndaráætlun er áætlun sem gerð er fyrir Vatnajökulsþjóðgarð í samræmi við ákvæði 12. og 13. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Í verndaráætlun skal gerð grein fyrir markmiðum verndar á einstökum svæðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs, einstökum verndaraðgerðum, landnýtingu og mannvirkjagerð, vegum, reiðstígum, göngubrúm og helstu gönguleiðum, umferðarrétti almennings, aðgengi ferðamanna að svæðinu og veiðum. Í verndaráætlun verður einnig gerð grein fyrir reiðhjóla- og reiðleiðum, auk mengunarvarna og fleiri þátta.

(11) Verndarflokkur er skilgreindur friðlýsingarflokkur ásamt viðmiðum fyrir þjóðgarða og friðlýst svæði samkvæmt Alþjóðlegum viðmiðunum um þjóðgarða og friðlýst svæði.

(12) Vélknúið ökutæki er ökutæki búið aflvél til að knýja það áfram.

5. gr.

Verndarstig og alþjóðasamningar um verndun.

Verndarflokkar einstakra svæða eða landslagsheilda innan þjóðgarðsins skulu endurspegla markmið friðlýsingarinnar, aðra landnýtingu á viðkomandi svæði og vera í samræmi við Alþjóðlegar viðmiðanir um þjóðgarða og friðlýst svæði.

Við gerð verndaráætlunar og framkvæmd reglugerðar þessarar skal taka mið af ákvæðum eftirfarandi samninga og síðari breytingum þeirra:

(1) Samnings um verndun menningar- og náttúruarfleiðar heims, sbr. auglýsingu nr. 42/1995 í C-deild Stjórnartíðinda.

(2) Samþykktar um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf, sbr. auglýsingu nr. 1/1978 í C-deild Stjórnartíðinda.

(3) Samnings um líffræðilega fjölbreytni, sbr. auglýsingu nr. 11/1995 í C-deild Stjórnartíðinda.

(4) Samnings um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða Evrópu, sbr. auglýsingu nr. 17/1993 í C-deild Stjórnartíðinda.

6. gr.

Rekstrarsvæði þjóðgarðsins.

Vatnajökulsþjóðgarður skiptist í fjögur rekstrarsvæði og á hverju þeirra starfar svæðisráð skipað af umhverfisráðherra til fjögurra ára í senn. Rekstrarsvæðin eru: (1) Norðursvæði, (2) Austursvæði , (3) Suðursvæði og (4) Vestursvæði. Mörk rekstrarsvæðanna eru sýnd á korti sem birt er í viðauka II við reglugerð þessa.

Hvert rekstrarsvæði er sjálfstæð rekstrareining sem rekin er á ábyrgð viðkomandi þjóðgarðsvarðar. Á þeim rekstrarsvæðum þar sem eru tvær meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins er heimilt að ráða tvo þjóðgarðsverði. Stjórn ákveður skiptingu verka og ábyrgðar milli þjóðgarðsvarða á sama rekstrarsvæði í samráði við svæðisráð og skal skiptingin koma fram í erindisbréfi þjóðgarðsvarða.

7. gr.

Verndaráætlun og réttaráhrif hennar.

Verndaráætlun skal unnin fyrir Vatnajökulsþjóðgarð í samræmi við ákvæði 12. og 13. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Þar skal gerð grein fyrir markmiðum verndar á einstökum svæðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs, einstökum verndaraðgerðum, landnýtingu og mannvirkjagerð, vegum, reiðstígum, göngubrúm og helstu gönguleiðum, umferðarrétti almennings, aðgengi ferðamanna að svæðinu og veiðum. Í verndaráætlun verður einnig gerð grein fyrir reiðhjóla- og reiðleiðum, auk mengunarvarna og fleiri þátta.

Svæðisráðin, hvert á sínu svæði, skulu vinna tillögu að verndaráætlun í samráði við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Við gerð verndaráætlunar skal svæðisráð hafa samráð við eigendur lands innan þjóðgarðs á viðkomandi svæði, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila á svæðinu.

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fer yfir tillögur svæðisráða og vinnur á grundvelli þeirra tillögu sína að verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Stjórn skal gæta þess að verndaráætlun samræmist ákvæðum laga og reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð. Stjórn getur gert breytingar á tillögum svæðisráða. Tillaga stjórnar að verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð skal unnin í samráði við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Tillagan skal auglýst opinberlega og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir áður en endanleg tillaga er send ráðherra. Frestur til að gera athugasemdir við tillögu að verndaráætlun skal a.m.k. vera sex vikur frá birtingu auglýsingar.

Tillaga stjórnar að verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð skal send umhverfisráðherra til staðfestingar. Umhverfisráðherra getur gert breytingar á verndaráætlun telji hann hana eða einstaka hluta hennar fara í bága við lög um Vatnajökulsþjóðgarð, reglugerð þessa eða verndarmarkmið þjóðgarðsins. Þegar umhverfisráðherra hefur staðfest verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð skal hún auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og tekur hún gildi við birtingu.

Heimilt er að gera breytingar á verndaráætlun og fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum 2.–4. mgr. Stjórn þjóðgarðsins getur lagt til breytingar á verndaráætlun án þess að um það berist tillaga frá viðkomandi svæðisráði. Í þeim tilvikum skal ávallt leita umsagnar svæðisráðs áður en tillagan er send umhverfisráðherra. Verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð skal endurskoðuð eigi sjaldnar en á 10 ára fresti.

Sveitarstjórnir eru bundnar af efni verndaráætlunar við gerð skipulagsáætlana fyrir landsvæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs.

Mannvirkjagerð, stíga- og slóðagerð og hvers konar efnistaka innan Vatnajökulsþjóðgarðs er einungis heimil ef gert er ráð fyrir henni í verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn. Í verndaráætlun er heimilt að setja skilyrði um hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að framkvæmdir raski ekki að óþörfu náttúru, s.s. lífríki, jarðmyndunum, vatnafari eða landslagi, eða menningarminjum, í Vatnajökulsþjóðgarði. Ekki þarf sérstakt leyfi stjórnar þjóðgarðsins samkvæmt reglugerð þessari fyrir þeim framkvæmdum sem er gert ráð fyrir í verndaráætlun. Viðkomandi þjóðgarðsvörður hefur eftirlit með því að við framkvæmdir séu virt ákvæði laga um Vatnajökulsþjóðgarð, reglugerðar þessara og verndaráætlunar og að farið sé að þeim skilyrðum sem viðkomandi framkvæmd voru sett í verndaráætlun. Að öðru leyti gilda ákvæði náttúruverndarlaga um framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði.

II. KAFLI

Umferð og dvöl í þjóðgarðinum.

8. gr.

Opnunartími og þjónusta þjóðgarðsins.

Vatnajökulsþjóðgarður er opinn allt árið og fara gestir um hann á eigin ábyrgð.

Auðvelda skal almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra eða menningarminjar spillist.

Í Vatnajökulsþjóðgarði eru starfræktar meginstarfsstöðvar þar sem veittar eru upplýsingar og þjónusta. Meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins eru á eftirfarandi stöðum:

(1) Ásbyrgi;

(2) Mývatnssveit;

(3) Skriðuklaustri;

(4) Höfn í Hornafirði;

(5) Skaftafelli;

(6) Kirkjubæjarklaustri.

Markmið með rekstri meginstarfsstöðva er að þar verði unnt að veita almenningi upplýsingar og fræðslu um náttúru svæðisins, s.s. landslag, lífríki og jarðmyndanir, og náttúruvernd, sögu þess, mannlíf og menningarminjar ásamt þjónustu eins og þörf krefur. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs tekur ákvörðun um fyrirkomulag rekstrar meginstarfsstöðva og annarra upplýsinga- og þjónustustöðva í þjóðgarðinum og í nágrenni hans.

9. gr.

Réttindi og skyldur gesta.

Almenningi er heimil för um Vatnajökulsþjóðgarð og dvöl þar í lögmætum tilgangi eins og nánar er mælt fyrir um í reglugerð þessari. Öllum er skylt að ganga vel um náttúru þjóðgarðsins og menningarminjar og sýna ýtrustu varúð og tillitssemi svo að náttúru, menningarminjum og mannvirkjum þjóðgarðsins verði ekki spillt. Óheimilt er að urða eða brenna sorp innan þjóðgarðsins.

Gestum þjóðgarðsins er skylt að hlíta fyrirmælum þjóðgarðsvarða og annarra starfsmanna þjóðgarðsins um umgengni og háttsemi í þjóðgarðinum og kynna sér reglur þær sem gilda í þjóðgarðinum og er að finna á vefsetri garðsins og á starfsstöðvum hans.

10. gr.

Tjöldun.

Gestum þjóðgarðsins ber að nota skipulögð tjaldsvæði innan hans fyrir tjöld, tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi og húsbíla. Fjarri skipulögðum tjaldsvæðum er fólki sem ferðast fótgangandi með allan farangur sinn þó heimilt að tjalda hefðbundnum göngutjöldum til einnar nætur. Hópar göngumanna þar sem eru 10 tjöld eða fleiri þurfa þó leyfi þjóðgarðsvarðar. Ef jörð er snævi þakin eða frosin er heimilt að tjalda í þjóðgarðinum þótt tjaldsvæði hafi ekki verið sérstaklega afmörkuð eða merkt. Við tjöldun utan skipulagðra tjaldsvæða skal þess gætt að ekki sé valdið skemmdum á vettvangi og jafnframt skal taka allt sorp og úrgang til byggða.

Stjórn er heimilt í samráði við viðkomandi svæðisráð að setja sérreglur um tjöldun á einstökum svæðum, þ.m.t. að banna hana með öllu. Skulu slíkar reglur kynntar á vefsetri garðsins og á starfsstöðvum hans.

Í Esjufjöllum er á auðri jörð, eins og verið hefur, einungis heimilt að tjalda við Tjaldmýri í Skálabjörgum.

11. gr.

Gæludýr.

Gæludýr er einungis heimilt að vera með innan þjóðgarðsins að þau séu í tryggri vörslu umráðamanna sinna. Gæta skal þess að gæludýr valdi ekki truflun á lífríki þjóðgarðsins, skemmdum á náttúru og menningarminjum eða valdi gestum ónæði.

12. gr.

Meðferð elds.

Óheimilt er að kveikja opinn eld á víðavangi í þjóðgarðinum. Heimilt er að kveikja varðeld á sérstaklega til þess gerðum og merktum eldstæðum enda hafi gestir komið með eldivið með sér. Óheimilt er að afla eldiviðar innan marka þjóðgarðsins.

Þegar eldunartæki eru notuð skal viðhafa sérstaka aðgát á grónu landi og annars staðar þar sem eldur getur valdið skaða. Stjórn er heimilt í samráði við viðkomandi svæðisráð að setja reglur sem banna notkun eldunartækja á sérstaklega viðkvæmum stöðum í þjóðgarðinum, tímabundið eða til frambúðar. Slíkar reglur skulu auglýstar á vefsetri þjóðgarðsins og á starfsstöðvum hans.

13. gr.

Umferð gangandi vegfarenda o.fl.

Gestum þjóðgarðsins er heimilt að fara gangandi, á skíðum, skautum, snjóþrúgum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um þjóðgarðinn. Þar sem eru merktar leiðir ber gestum að fylgja þeim eða að fara að fyrirmælum þjóðgarðsvarða.

14. gr.

Umferð á hestum.

Umferð hesta um þjóðgarðinn er heimil á skilgreindum eða merktum reiðleiðum. Heimilt er að slá upp aðhöldum eða næturhólfum á skilgreindum áningarstöðum. Leyfi þjóðgarðsvarðar þarf fyrir hópferð á hestum um þjóðgarðinn og getur hann sett skilyrði um ferðamáta í samræmi við ákvæði verndaráætlunar til að tryggja að ekki verði spjöll á náttúru og menningarminjum þjóðgarðsins.

Á ferð um hálendi þjóðgarðsins og önnur lítt gróin svæði skulu hestamenn hafa tiltækt nægjanlegt fóður fyrir hross sín. Óheimilt er að beita hestum innan þjóðgarðsins, sbr. þó 1. mgr.

15. gr.

Hjólreiðar.

Umferð reiðhjóla er heimil á vegum, bílastæðum og merktum reiðhjólaleiðum í þjóðgarðinum. Umferð reiðhjóla á göngustígum er heimil þar sem ekki gilda sérstök bönn við reiðhjólaumferð, enda sé full aðgát gagnvart göngufólki viðhöfð. Þjóðgarðsverðir geta bannað umferð reiðhjóla á göngustígum og reiðleiðum þar sem umferð er mikil eða þar sem gróðurlendi getur hlotið skaða af. Undanþágur 2. mgr. 16. gr. og 17. gr. frá banni við akstri vélknúinna ökutækja utan vega vegna tiltekinna starfa eiga einnig við um umferð á reiðhjólum.

16. gr.

Akstur vélknúinna ökutækja.

Akstur vélknúinna ökutækja utan vega í þjóðgarðinum er bannaður. Akstur vélknúinna ökutækja er einungis heimill á til þess gerðum vegum í samræmi við verndaráætlun og í samræmi við merkingar enda séu vegir ekki ófærir vegna aurbleytu né lokaðir samkvæmt ákvörðun Vegagerðarinnar eða þjóðgarðsvarðar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að aka á vélknúnum ökutækjum og vélsleðum innan þjóðgarðsins svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin og þess gætt að ekki sé valdið skemmdum á vettvangi. Þetta gildir þó ekki í Jökulsárgljúfrum og í Skaftafelli sbr. afmörkun á korti í viðauka I. Heimilt er að fara um Vatnajökul á vélknúnum ökutækjum nema á leiðum sem merktar hafa verið til annarra nota, sbr. 3. mgr.

Eftirfarandi svæði á Vatnajökli eru lokuð fyrir umferð vélknúinna ökutækja nema að fengnu leyfi viðkomandi þjóðgarðsvarðar. Öll hnit eru í ISN93:

(1) Hvannadalshnúkur, allt árið, innan ramma sem afmarkast af hnitunum (ISN93) E612950 m, N392450 m; E614190 m, N392450 m; E614190 m, N391580 m; E612950 m, N391580 m.

(2) Öræfajökull, frá 20. apríl til 15. september, sunnan línu sem dregin er milli hnitpunktanna (ISN93) E609570 m, N392483 m og E620811 m, N392483 m.

(3) Kverkfjöll, frá 15. júní til 15. september, norðan línu sem dregin er milli hnitpunktanna (ISN93) E609800 m, N466255 m og E613690 m, N461603 m.

Framangreind svæði sem tilgreind eru í 3. mgr. eru afmörkuð á korti í viðauka I með reglugerð þessari.

17. gr.

Akstur utan vega vegna tiltekinna starfa.

Á þeim svæðum sem tilgreind eru í viðauka III, sbr. einnig 26. gr., er heimilt vegna starfa við landbúnað að aka utan vega á ræktuðu landi. Einnig er þar heimilt í sama skyni að aka utan vega á landi sem sérstaklega er nýtt sem landbúnaðarland ef ekki hljótast af því náttúruspjöll.

Á öðru landi en greinir í 1. mgr., á þeim svæðum sem tilgreind eru í viðauka III, sbr. einnig 26. gr., er heimilt ef nauðsyn krefur að aka vélknúnum ökutækjum utan vega vegna starfa við landgræðslu og heftingu landbrots, línulagnir, vegalagnir og lagningu annarra veitukerfa, björgunar- og löggæslustörf, rannsóknir, landmælingar og landbúnað enda sé ekki unnt að framkvæma viðkomandi störf á annan hátt.

Í verndaráætlun skal setja sérstök skilyrði um akstur sem kann að verða nauðsynlegur vegna mannvirkjagerðar utan þeirra svæða sem tilgreind eru í viðauka III.

Sérstök aðgát skal höfð við akstur utan vega samkvæmt þessari grein til þess að draga úr hættu á náttúruspjöllum. Hafa skal fullnægjandi útbúnað til slíks aksturs. Við framangreindar athafnir skal leita leiða til að flytja efni og annað sem til þarf á þann hátt að ekki sé þörf á akstri utan vega.

18. gr.

Starfsemi innan þjóðgarðsins.

Allar rannsóknir á náttúrufari og menningarminjum í þjóðgarðinum sem ekki eru á vegum þjóðgarðsyfirvalda eða hluti af framkvæmd samþykktrar verndaráætlunar sem og öll kvikmyndagerð, auglýsingagerð og önnur slík starfsemi er háð leyfi viðkomandi þjóðgarðsvarðar.

Ferðaþjónusta með aðstöðu innan þjóðgarðsins skal skipulögð á grundvelli sjálfbærrar ferðaþjónustu.

19. gr.

Meðferð skotvopna.

Öll meðferð skotvopna er bönnuð í þjóðgarðinum nema hún sé heimil samkvæmt 26., 28., 29. eða 30. gr.

III. KAFLI

Almennar verndarreglur.

20. gr.

Bann við spjöllum og raski.

Innan Vatnajökulsþjóðgarðs er óheimilt að valda spjöllum eða raski á náttúrunni, s.s. á lífríki, jarðmyndunum eða landslagi, menningarminjum og mannvirkjum.

Nánar er í 1. mgr. átt við lífríki, líffræðilega fjölbreytni, jarðveg, plöntur, trjágróður, gróðurþekju, landslag, landslagsheildir, jarðmyndanir, vatn, þ.m.t. grunnvatn, vatnasvið, straumstefnu vatns, vatnshæð, magn og gæði, eða aðra þætti náttúrunnar.

21. gr.

Vernd líffræðilegrar fjölbreytni.

Í þjóðgarðinum skal lögð áhersla á vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Þar sem nýting einstakra tegunda er heimil skal tryggja að hún sé í samræmi við samþykkta verndaráætlun. Hafi vistkerfi eða búsvæði laskast eða rýrnað svo að áhrif hefur á líffræðilega fjölbreytni skal gera framkvæmdaáætlun um úrbætur og endurheimt vistkerfa sé það talið mögulegt. Áætlunin skal vera hluti af verndaráætlun fyrir viðkomandi svæði, endurspegla verndarmarkmið þjóðgarðsins og verndarflokk viðkomandi svæðis.

Þjóðgarðsvörður ber ábyrgð á að koma áætlun samkvæmt 1. mgr. til framkvæmda og hefur eftirlit með þeim aðgerðum sem eru nauðsynlegar.

22. gr.

Breyting á lífríki.

Óheimilt er að rækta eða dreifa útlendum plöntu- og trjátegundum, svo og fræjum þessara tegunda í þjóðgarðinum. Útlendar plöntutegundir eru þær sem falla undir skilgreiningu í reglugerð nr. 583/2000 um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda.

Óheimilt er að flytja inn í þjóðgarðinn eða dreifa þar útlendum dýrategundum, þ.m.t. skordýrum.

23. gr.

Áletranir á náttúrumyndanir og menningarminjar.

Hvers konar áletranir á náttúrumyndanir eða menningarminjar í þjóðgarðinum eru bannaðar.

24. gr.

Endurheimt landgæða, lífríkis, jarðmyndana og landsvæða.

Aðgerðir sem miða að því að verja og/eða endurheimta landgæði, lífríki, jarðmyndanir og landsvæði, menningarminjar og mannvirki svo sem vegna ágangs manna, dýra eða plantna eða vegna náttúruhamfara, ágangs vatns og sjávar, jarðvegseyðingar eða annarrar röskunar af völdum manna eða náttúru eru heimilar innan þjóðgarðsins.

Aðgerðir samkvæmt 1. mgr. skulu samrýmast verndarmarkmiðum þjóðgarðsins, skilgreindum verndarflokki fyrir viðkomandi svæði, viðkomandi verndaráætlun og ákvæðum reglugerðar þessarar.

Þar til verndaráætlun hefur tekið gildi veitir stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leyfi fyrir aðgerðum samkvæmt 1. mgr. Áður en ákvörðun er tekin skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar og annarra sérfræðistofnana eins og nauðsynlegt er hverju sinni. Einnig skal leita umsagnar landeigenda eða ábúenda, ef ákvörðun varðar svæði innan þjóðgarðsins sem er í einkaeign eða í ábúð, og viðkomandi svæðisráðs.

Til grundvallar ákvörðun samkvæmt 3. mgr. skal stjórn leggja verndarmarkmið þjóðgarðsins, skilgreindan verndarflokk fyrir viðkomandi svæði, svo og varúðarsjónarmið. Heimilt er að binda leyfi skilyrðum sem lúta að því hvernig framkvæmdum og eftirliti skuli háttað til að tryggja að framkvæmdir raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum eða landslagi.

Ákvörðun stjórnar samkvæmt 3. mgr. skal kynna á vefsetri þjóðgarðsins og með öðrum áberandi hætti og skal geta þeirra forsendna sem lagðar voru til grundvallar, helstu atriða í rökstuðningi og skilyrða ef við á. Jafnframt skal geta kæruréttar, kæruleiðar og kærufrests.

Viðkomandi þjóðgarðsvörður hefur eftirlit með því að farið sé að skilyrðum ákvarðana stjórnar.

25. gr.

Mengunarvarnir.

Í verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs skal gera grein fyrir sérstökum mengunarvörnum sem nauðsynlegar kunna að reynast til þess að ná og viðhalda markmiðum þjóðgarðsins. Til grundvallar skal hafa verndarmarkmið þjóðgarðsins, skilgreindan verndarflokk fyrir viðkomandi svæði, svo og varúðarsjónarmið.

Að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðir settar samkvæmt þeim um mengunarvarnir í þjóðgarðinum.

IV. KAFLI

Ákvæði um framkvæmdir og landnýtingu.

26. gr.

Hefðbundin landnýting.

Hefðbundin landnýting, svo sem búfjárbeit, fuglaveiði, hreindýraveiði og veiði í ám og vötnum, er rétthöfum heimil á þeim svæðum sem afmörkuð eru í viðauka III enda séu uppfyllt ákvæði þeirra laga sem um nýtinguna fjalla. Annars staðar í þjóðgarðinum er slík nýting óheimil.

Landnýting innan þjóðgarðsins skal vera sjálfbær, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð.

Á svæðum sem afmörkuð eru til hefðbundinnar landnýtingar í viðauka III helst hefðbundinn réttur bænda til smölunar sauðfjár á hestum svo sem verið hefur. Um akstur utan vega á þeim svæðum gildir 17. gr.

27. gr.

Veiðar í ám og vötnum.

Veiðar í ám og vötnum eru einungis heimilar í Vatnajökulsþjóðgarði á þeim svæðum sem falla undir 26. gr., sbr. viðauka III.

28. gr.

Fugla- og hreindýraveiðar.

Veiðar á fuglum og hreindýrum innan Vatnajökulsþjóðgarðs eru einungis heimilar á þeim svæðum sem falla undir 26. gr., sbr. viðauka III. Um veiðarnar gilda ákvæði laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og reglugerða sem á þeim byggja.

Um akstur leiðsögumanna við hreindýraveiðar gildir reglugerð nr. 528/2005 eins og henni var breytt með reglugerð nr. 497/2007.

29. gr.

Veiðar á mink.

Minkaveiðar eru heimilar í Vatnajökulsþjóðgarði og um þær gilda lög nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og reglugerð nr. 437/1995 um refa- og minkaveiðar með síðari breytingum.

30. gr.

Veiðar á ref.

Refaveiðar eru, eins og verið hefur, óheimilar á eftirtöldum svæðum: Í Skaftafelli, í Jökulsárgljúfrum og í Esjufjöllum, eins og þau eru afmörkuð á korti í viðauka I.

Um veiðar á ref fer að öðru leyti samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og reglugerð nr. 437/1995 um refa- og minkaveiðar með síðari breytingum.

31. gr.

Mannvirkjagerð, efnistaka o.þ.h.

Mannvirkjagerð, vega-, stíga- og slóðagerð og hvers konar efnistaka innan marka þjóðgarðsins er einungis heimil ef gert er ráð fyrir henni í verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn.

Framkvæmdir samkvæmt 1. mgr. skulu samrýmast verndarmarkmiðum þjóðgarðsins, skilgreindum verndarflokki á viðkomandi framkvæmdasvæði, samþykktri verndaráætlun og ákvæðum reglugerðar þessarar. Gera skal deiliskipulag fyrir allar framkvæmdir innan þjóðgarðsins.

Í verndaráætlun er heimilt að setja skilyrði um hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að framkvæmdir raski ekki að óþörfu náttúru svæðisins, s.s. landslagi, lífríki og jarðmyndunum, eða menningarminjum.

Þar til verndaráætlun hefur tekið gildi getur stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs að höfðu samráði við viðkomandi sveitarstjórn veitt leyfi fyrir framkvæmdum sem falla undir 1. mgr. Áður en slík ákvörðun er tekin skal leita umsagnar viðkomandi þjóðgarðsvarðar og svæðisráðs auk Umhverfisstofnunar og annarra sérfræðistofnana eins og nauðsynlegt er hverju sinni. Einnig skal leita umsagnar landeigenda og ábúenda ef ákvörðun varðar svæði innan þjóðgarðsins sem er í einkaeign eða í ábúð og viðkomandi svæðisráðs.

Við ákvörðun samkvæmt 4. mgr. skal stjórn leggja til grundvallar verndarmarkmið þjóðgarðsins, skilgreindan verndarflokk fyrir viðkomandi svæði, svo og varúðarsjónarmið. Heimilt er að binda leyfi skilyrðum sem lúta að því hvernig framkvæmdum og eftirliti með þeim skuli háttað til að tryggja að framkvæmdir raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum eða landslagi.

Ákvörðun stjórnar samkvæmt 4. mgr. skal kynna á vefsetri þjóðgarðsins og með öðrum áberandi hætti og skal geta þeirra forsendna sem lagðar voru til grundvallar, helstu atriða í rökstuðningi og skilyrða ef við á. Jafnframt skal geta kæruréttar, kæruleiðar og kærufrests.

Viðkomandi þjóðgarðsvörður hefur eftirlit með því að við framkvæmdir séu virt ákvæði laga, reglugerðar og verndaráætlunar um Vatnajökulsþjóðgarð og að farið sé að þeim skilyrðum sem viðkomandi framkvæmd voru sett í verndaráætlun eða í leyfi stjórnar.

Að öðru leyti gilda ákvæði náttúruverndarlaga um framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði.

V. KAFLI

Sérstakar verndaraðgerðir.

32. gr.

Lokun þjóðgarðsins eða einstakra svæða hans
til verndar náttúru og/eða lífi manna.

Liggi landsvæði undir skemmdum og talið er nauðsynlegt að grípa til tafarlausra aðgerða getur viðkomandi þjóðgarðsvörður tekið ákvörðun um tímabundna lokun afmarkaðs svæðis fyrir umferð vélknúinna ökutækja. Ákvörðun þjóðgarðsvarðar um tímabundna lokun svæðis skal birt í B-deild Stjórnartíðinda og með öðrum áberandi hætti í dagblöðum og á vefsíðu þjóðgarðsins. Geta skal rökstuðnings, marka þess svæðis sem hefur verið lokað og þess tíma sem lokunin varir.

Heimilt er þjóðgarðsverði að loka þjóðgarðinum eða einstökum svæðum hans fyrirvaralaust ef hann telur að dvöl manna eða umferð geti spillt náttúru, s.s. lífríki, jarðmyndunum eða landslagi. Undir þetta fellur m.a. lokun svæðis á burðartíma hreindýra eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Slíkar ákvarðanir ásamt skýringum skal kynna á staðnum eftir því sem unnt er og á vefsetri þjóðgarðsins án tafar og kynna á næsta fundi svæðisráðs og stjórnar.

Þjóðgarðsverði er heimilt að loka þjóðgarðinum eða einstökum svæðum hans fyrirvaralaust ef hættuástand skapast í þjóðgarðinum vegna náttúruvár.

33. gr.

Brottrekstur úr þjóðgarðinum.

Þjóðgarðsverði eða öðrum starfsmönnum þjóðgarðsins er heimilt að vísa úr þjóðgarðinum hverjum þeim sem brýtur ákvæði laga um Vatnajökulsþjóðgarð og reglugerðar þessarar og skulu slík brot kærð til lögreglu ef efni þykja til.

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

34. gr.

Stjórnsýsluákvarðanir og kæruheimild.

Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar eru kæranlegar til umhverfisráðherra. Úrskurður ráðherra er endanlegur úrskurður á stjórnsýslustigi.

Kærurétt samkvæmt þessari grein eiga þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og umhverfisverndarsamtök og útivistarsamtök sem varnarþing eiga á Íslandi, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Umhverfisverndarsamtök teljast samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök samkvæmt 2. og 3. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.

35. gr.

Dagsektir.

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs getur tekið ákvörðun um að beita dagsektum er renna í ríkissjóð, allt að 500.000 kr. á dag, til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð og reglugerð þessari eða láta af atferli sem er ólögmætt.

36. gr.

Refsiábyrgð.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 22. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð.

37. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 7., 15. og 20. gr. laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð og tekur þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi eftirtaldar reglugerðir: Reglugerð nr. 879/2004 um Skaftafellsþjóðgarð, með síðari breytingum sbr. reglugerð nr. 367/2005 og reglugerð nr. 359/1993 um þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum, með síðari breytingum sbr. reglugerðir nr. 285/2001 og 929/2005. Enn fremur fellur úr gildi auglýsing nr. 188/1978 um friðland í Esjufjöllum.

Umhverfisráðuneytinu, 7. júní 2008.

Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Ingibjörg Halldórsdóttir.

 

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.