Rúnar Theódórsson er mikill hjólreiðamaður og lifir og hrærist í þeim heimi. Rúnar hefur hjólað víða og keppt töluvert bæði í fjallahjólreiðum og svokölluðu downhill eða bruni. Einnig hefur Rúnar hjólað um hálendi Íslands og er leiðsögumaður fyrir Fjallaleiðsögumenn sem fara með hópa erlendra ferðamanna í fjallahjólatúra yfir Fimmvörðuháls og hluta af Laugaveginum. Rúnar segir Ísland mjög hentugt fyrir slíkar hjólreiðar, hér sé jú mikil víðátta og slóðar út um allt.
Aðstæður til að stunda slíkar hjólreiðar séu því hentugar og ekki skemmi útsýnið fyrir þó vissulega sé misjafnt hversu mikið hjólreiðafólk nái að horfa í kringum sig á fullri ferð. Rúnar á sína stærstu ferð fyrir höndum nú í haust en þá mun hann keppa í Trans-Provencefjallahjólakeppninni í frönsku Ölpunum.
Hækkun að meðaltali 1500 m
„Ég hef farið nokkrum sinnum á svæði sem er á landamærum Sviss og Frakklands sunnan við Genfarvatnið. Þar er skíðasvæði þar sem fólk fær að nota lyfturnar og hjóla svo niður. Þá er tekinn 100 km hringur á einum degi en ekki í kapp við tímann. Keppnin í haust er alveg syðst í Frakklandi og endar niðri í Mónakó. Farnir eru 320 km á sjö dögum að meðaltali um 50 á dag. Hækkunin er að meðaltali upp á 1.500 metra á dag. Á hverjum degi eru hjólaðir nokkrir slóðar en á morgnana er byrjað á að keyra fólk upp í ákveðna hæð og síðan er hjólað niður. Í keppninni er ekki alltaf hjólað á tíma en í henni eru 26 sérleiðir og þrjár til fjórar leiðir tímamældar á dag. Þá skiptir tæknin við það að fara niður einna mestu þó úthaldið sé auðvitað líka nauðsynlegt,“ segir Rúnar.
Hjólað með meisturum
Þetta er fjórða árið sem keppnin er haldin og er Rúnar fyrsti Íslendingurinn sem tekur þátt. Fleiri Íslendingar sóttu um en aðeins eru 70 þátttakendur í keppninni og af þeim eru 14 atvinnumenn. Töluvert af Bretum og Bandaríkjamönnum taka þátt og meðal þeirra eru stór nöfn í hjólreiðaheiminum meðal annars fyrrverandi fjallahjólameistari frá Bandaríkjunum og Kanada. Rúnar sótti um pláss með tveggja blaðsíðna umsókn og komst inn. Hann telur að þar hafi vegið þungt að hann varð Íslandsmeistari í downhill árið 2005. Stífar æfingar eru nú framundan hjá Rúnari sem segist vera mjög spenntur fyrir keppninni. „Ég held áfram að ganga upp brekkur með hjólið á bakinu og hjóla síðan niður eins og ég hef verið að gera. Síðan styrki ég mig líka með því að lyfta. Dags daglega hjóla ég töluvert og þarf að hjóla nokkra tíma í viku samkvæmt æfingaprógramminu,“ segir Rúnar. Rúnar á og rekur Hjólameistarann í Kópavogi þar sem hann selur og gerir við hjól. Hann segir hjólreiðar verða sífellt vinsælli og þá sérstaklega með hækkandi bensínverði. Í vondu vetrarveðri líkt og verið hefur hægist nokkuð um en um leið og jörð verði auð fari fólk aftur af stað á hjólunum af fullum krafti.
HJÓLAKEPPNI
Mikið ferðalag framundan
Leiðin í Trans-Provencehjólakeppninni liggur frá norðvestri til suðausturs, frá Durance- dalnum til Alpanna og niður á strönd. Keppnin hefst í Alpaþorpinu Rochebrune og síðan liggur leiðin eftir Ölpunum, meðal annars um Haut-Verdon og vatnasvæðið milli Rhône og Var. Endað er í Monte- Carlo og hjólað í gegnum heimabæ fyrrverandi atvinnumannsins í fjallahjólreiðum Nicolas Vouilloz. Á leiðinni eru ótal slóðar og leiðir, alls 320 km og samtals 9.500 metra hækkun. Hjólreiðafólkið tekst því á við mikla aflraun í þessari keppni sem fram fer í september og verður spennandi að fylgjast með hvernig fulltrúa Íslands mun ganga í Ölpunum.
Myndatextar:
Hjólaferð Hjólað í Skaftafelli, Kristínartindar í baksýn.
Leiðbeiningar Í Trans-Provence liggur leiðin um frönsku Alpana.
Hjólagarpur Rúnar Theódórsson hefur hjólað víða um landið og mun hjóla í frönsku Ölpunum í haust.