Einfaldara líf með því að hjóla

frettabladid-120218-LUmhverfisverkfræðingurinn Ólafur Árnason hjólar til og frá vinnu, sama hvernig viðrar. Hann sagði Hólmfríði Helgu Sigurðardóttur frá því hvað rekur hann áfram í því líferni: Að vera umhverfisvænn, stunda holla hreyfingu og spara. Hann notar bílinn bara þegar nauðsyn krefur og segir fyrirkomulagið hafa einfaldað líf fjölskyldunnar allrar. Hann segir Reykjavíkurborg standa sig vel í að halda stígakerfinu opnu og telur að hjólreiðar geti skipt verulegu máli í að draga úr mengun frá umferð í Reykjavík.

„Það er bara engin ástæða til að vera með tvo bíla. Ég er enginn extremisti,“ segir Ólafur Árnason, sviðsstjóri hjá verkfræðistofunni EFLU.

„Það er bara engin ástæða til að vera með tvo bíla. Ég er enginn extremisti," segir Ólafur Árnason, sviðsstjóri hjá verkfræðistofunni EFLU. Hann hjólar til og frá vinnu á hverjum degi, sumar, vetur, vor og haust, og notar fjölskyldubílinn bara þegar nauðsyn krefur. Hann býr ásamt konu sinni og þremur börnum í Laugardalnum en vinnur á Höfðabakka. Því tekur ferðin til vinnu hálftíma á hjólinu, fimm mínútum skemur eða betur, eftir því hvernig viðrar.

Ólafur segir fyrirkomulagið einfalda líf fjölskyldunnar, frá því þau voru saman um einn bíl. „Þetta hefur gert það að verkum að við höfum skorið verulega niður í kostnaði og þetta eykur svigrúmið hjá okkur báðum," segir hann.

 

Borgin stendur sig vel

Ólafi þykir Reykjavíkurborg standa sig vel í að halda stígakerfinu opnu. „Mér finnst þau sýna metnað í að gera það. Höfðabakkahverfið er ekki vel staðsett með tilliti til aðahjólreiðastíga, en þau ná samt að halda þessu í horfinu. Ég lendi í mesta lagi í vandræðum á leið upp Bíldshöfðann, ef færðin er slæm. Þá lauma ég mér með umferðinni, þó mér sé illa við það, eða ber hjólið yfir verstu skaflana. Svo held ég bara áfram.“


Stuðningur skiptir máli

Þónokkrir af vinnufélögum Ólafs hjóla líka til vinnu nær daglega. Ólafur telur að samgöngustefna EFLU spili þar inn í. „Við getum geymt hjólin okkar inni og erum með frábæra snyrtiaðstöðu, svo ég get tekið vel á því á leiðinni og komist svo í sturtu og mætt ferskur í vinnuna. Mér finnst það skipta mjög miklu máli.“ Þá eru reglulega haldin námskeið um hjólamál. Þar að auki eru þrjú reiðhjól á staðnum sem starfsmenn geta nýtt sér, auk visthæfra bíla til að komast á fundi á vinnutíma. Allt virkar þetta mjög hvetjandi á starfsmenn.


Vitundarvakning að verða

En hvað skyldi helst drífa Ólaf áfram í þessu líferni? „Það er þrennt: Góð og holl hreyfing, sparnaður og umhverfisvernd.“ Hann telur að það sé að verða vitundarvakning hjá almenningi þegar kemur að umhverfisvernd og vistvænum samgöngum. „Ef borgin heldur áfram að bera virðingu fyrir þessu samgöngukerfi er ég sannfærður um að hjólreiðar muni skipta verulegu máli í að draga úr mengun frá umferð hér í borginni.“

Uppruni: Fréttablaðið 18. febrúar 2012

Nýtt frá LHM

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.