Svona rúllar E.T.

Fyrir sex árum fór Emil Tumi Víglundsson á sitt fyrsta fjallahjólanámskeið í Nauthólsvík. Nú í dag hugsar hann um hjól allan daginn; vinnur í Erninum og undirbýr sig af kappi fyrir hjólreiðakeppnina á Ólympíuleikum æskunnar sem fara fram í lok mánaðarins.

Hvenær kviknaði hjólaáhuginn?

Fyrir tveimur árum þá vissi ég ekki hvað götuhjólreiðar voru en þá kom pabbi heim með bókina um Lance Armstrong. Sem algjör óviti spurði ég hvort hún væri um gaurinn sem fór til tunglsins en pabbi sagði mér að lesa bókina áður en ég myndi segja eitthvað meira (Hér á Emil Tumi við hjólreiðakappann sigursæla en ekki tunglfarann Neil Armstrong). Eftir að hafa lesið bókina var ekki aftur snúið. Ég varð alveg heillaður af íþróttinni og fór að setja mér markmið og æfa af krafti. Á sumrin vinn ég bara í Erninum og hjóla allan daginn. Þannig að í staðinn fyrir að vera með vinum mínum á sumrin er ég mest með þrítugum gaurum.

Hvert hjólaðir þú síðast?

Ég hjólaði frá Reykjavík til Hvolsvallar en það eru 110 kílómetrar. Þar gekk mér mjög vel og náði fimmta sæti í heildarflokki. Ég hjólaði vegalengdina á 3 klukkutímum og 28 mínútum. Þeir sem unnu mig eru strákar sem fóru á Smáþjóðaleikana fyrir Íslands hönd og þeir eru enn sem komið er alla vega betri en ég og ég er því mest að keppast við Íslandsmeistarann í kvennaflokki.

Og hvert ertu að fara?

Ég er sumsé að fara út á Ólympíuleika æskunnar sem haldnir verða í Tyrklandi. Ég legg af stað héðan 20. júlí og á að keppa mína fyrstu keppni 25. júlí en þá fer fram 9 kílómetra tímataka. Ég keppi líka í 70 kílómetra götuhjólreiðakeppni og síðan í 30 kílómetra hringakeppni þar sem þú ert úr leik ef þú ert hringaður. Það er mikið af góðum hjólreiðaköppum sem hafa unnið þessa keppni sem eru nú orðnir atvinnumenn og get ég nefnt sem dæmi Mark Cavendish sem er að keppa í Tour de France núna. Þetta er líka spennandi verkefni af því að ég veit ekki alveg 100% hvað ég er að fara út í þar sem ég er fyrsta ungmennið frá Íslandi sem keppir í hjólreiðum á þessu móti.

Er ekkert erfitt að æfa bara með fólki sem er töluvert eldra en þú?

Ég held ég hafi grætt mikið á því að æfa alltaf með stóru strákunum. Með þeim gat ég ekkert gefist upp, mér var bara sagt að þegja og halda áfram þannig það hefur bara styrkt mig að æfa með betra fólki.

Af hverju ertu svona ótrúlega góður að hjóla?

Ég legg hart að mér og stefni að því sem ég vil. Ég stefni að því að verða betri en allir aðrir. Ég stefni að því að vera kominn á meðal þeirra bestu á Íslandi á næstu tveimur árum.

Er mikil fórn sem fylgir þessu?

Hjá mér er fórnin töluverð en hún þarf ekki að vera það. En hjá mér er hjólið númer eitt, tvö og þrjú. Ég á sem betur fer góða vini sem nenna að hanga með mér í þau fáu skipti sem ég læt sjá mig. Annars ætti ég örugglega enga vini (hlær).

Kanntu að sleppa höndum?

Já, auðvitað. Ég þarf líka að gera það af og til svo að ég geti rétt úr bakinu og eins til að ná mér í mat aftan á bakið.

Er stefnan sett á atvinnumennskuna?

Ég stefni klárlega á hæsta markmið en það er spurning hvort það rætist. Ég stefni á að taka þátt í einhverri stórri keppni og atvinnumannaferill er draumur. Ég er byrjaður að fá smá kostun frá Erninum en það er vonandi bara byrjunin. Það er gott að fara í svona keppnir eins og Ólympíuleika æskunnar til að stórir aðilar sjái þig og vilji bjóðast til að borga undir þig búnað og dagpeninga. Þá gæti ég starfað að fullu við það sem mér finnst skemmtilegast.

Hver er fyrirmyndin í hjólaíþróttinni?

Lance Armstrong er og verður alltaf stór fyrirmynd en í augnablikinu held ég mikið upp á Andy Schleck sem er ungur hjólakappi frá Lúxemborg. Það er mjög hollt að eiga ungar fyrirmyndir þá hefur maður stærri drauma.

Hefur þú stundað aðrar íþróttir?

Á veturna spila ég körfubolta af og til með Ármanni. Ég fæ að mæta í keppnir og mæta á æfingar af og til af því ég er svo upptekinn í hinu.

Fylgir þessu mikil kvenhylli?

Ég er lítið að tala um þetta. Stelpurnar vita samt eflaust af þessu en ég veit ekki hversu aðlaðandi þröngi spandex-gallinn er. En ég á alveg nóg af vinkonum svo ég þarf ekkert að örvænta að minnsta kosti.

Hver eru þín framtíðarmarkmið?

Markmiðið mitt núna er að komast í íþróttaskóla í Danmörku þar sem ég læri allt en hjólreiðar eru aðalatriðið. Helgi Halldórsson, snjóbrettakappi, gerði þetta og það reyndist honum mjög vel. Ég myndi þá alltaf vera að keppa og ég myndi bara græða á því.

EMIL TUMI VÍGLUNDSSON

Starf: Örninn.
Skóli: Réttarholtsskóli.
Aldur: 19.09.96 – Lance á afmæli 18.
Hjól: Trek Madone.
Áhugamál: Íþróttir yfir höfuð og bílar.
Hjúskaparstaða: Á lausu.
Uppáhaldsteiknimyndakarakter: E.T. – skammstöfunin mín og minn maður.
Tónlist: Kings of Leon.

BIKE SPECIAL

Bombay Bicycle Club eða Bye Bye Bicycle? BBC.
Hvað eru mörg hjól í Beijing samkvæmt Katie Melua? Syngur hún ekki „there are 5 million bicycles in Beijing?“ Ég segi 5 milljónir.
Hjólaatriðið úr Napoleon Dynamite eða úr E.T.? E.T. allan daginn.


Umfjöllun í Monitor 14 júlí 2011: http://www.mbl.is/monitorblod/M2011-07-14.pdf

Nýtt frá LHM

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.