Vinalegar vikulegar hjólaferðir um bæinn

Frá byrjun maí og fram á haust er hefð fyrir því hjá Fjallahjólaklúbbnum að bjóða almenning í vinalegar vikulegar hjólaferðir um bæinn á þriðjudagskvöldum.

Við hittumst við aðalinnganginn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum kl.19:30 á hverjum þriðjudegi frá byrjun maí og hjólum saman, ýmist eftir stígum, hjólabrautum eða samnýtum rólegar hverfisgötur með öðrum farartækjum., lærum að þekkja stígakerfið, kynnumst þeim fjölmörgu hjólabrautum sem hafa verið lagðir á undanförnum árum og gert hjólreiðafólki auðveldara að fara um höfuðborgarsvæðið með öruggum hætti. Allir velkomnir, þarf ekki að vera félagsmaður í Fjallahjólaklúbbnum til að taka þátt í þriðjudagskvöldferðunum.

Skipulagið er með þeim hætti að veður, vindátt, færni og óskir þátttakenda ráða því hvert er hjólað hverju sinni. Þriðja þriðjudag í mánuði er lengri ferð, þá má búast við að allt kvöldið fari í túrinn; í Hafnarfjörð, upp í Heiðmörk, út í Viðey, kannski kíkt í kaffi á Bessastöðum eða óvænt óvissuferð. Stundum er farið á kaffihús, við höfum farið í sjósund, endað í ísbúð eða á hamborgarabúllu. Bara allt eftir því hvernig stemmingin er hverju sinni. Þessar ferðir henta öllum, byrjendum, görpum og börnum niður í 10 ára í fylgd foreldra eða forráðamanna. Þá hafa yngri börn komið með á tengihjólum eða þar til gerðum barnastólum. Er ekki tími til kominn að dusta rykið af reiðhjólinu sem er búið að standa allt of lengi úti í bílskúr og koma með okkur eitthvert kvöldið?

Sjá nánar á heimasíðu Fjallahjólaklúbbsins: Hjólað um höfuðborgarsvæðið og á Facebook viðburðinum: Þriðjudagskvöldferð