Kynningarfundur um framkvæmdirnar verður haldinn fimmtudaginn 6. júní kl. 14.00 í Borgartúni 12 – 14, 7. hæð. Þeir sem vilja kynna sér málið nánar eru eindregið hvattir til að mæta. Til að takmarka áhrif framkvæmda á umferð verður þeim áfangaskipt og verður sú verkáætlun kynnt á fundinum.
Aðskildir hjólastígar með einstefnu verða lagðir beggja vegna götunnar milli Katrínartúns (Höfðatúns) og Sóltúns. Vestan Katrínartúns verður lagður hjólastígur sunnan götunnar. Núverandi gangstéttar verða endurnýjaðar og einnig verður ný gangstétt lögð sunnan götunnar þar sem hana vantar. Eftir breytingar verða því samfelldar gönguleiðir beggja vegna götunnar.
Með framkvæmdunum verður bætt öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Gróðursvæði verður komið fyrir milli götunnar og hjólastíga. Skipt verður um ljósastaura í götunni. Fjórum miðeyjum verður bætt við til að auðvelda gangandi vegfarendum að fara yfir götuna.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við verkið hefjist í lok júní og verður stefnt að verklokum 1. nóvember. Áætlaður heildarkostnaður við endurgerð Borgartúns frá Snorrabraut að Sóltúni er 230 milljónir króna.
Ítarefni:
Myndasýning af væntanlegum framkvæmdum – Skoða yfirlitsmyndir og myndir fyrir og eftir breytingu.
Nánar á upplýsingasíðu í Framkvæmdasjá >>> Hjólastígar í Borgartúni milli Snorrabrautar og Sóltúns
Breytingar á Borgartúni boðnar út um helgina
Frétt 06.06.2013
Verklegar framkvæmdir við endurgerð Borgartúns verða boðnar út um helgina og framkvæmdir hefjast í lok mánaðar. Þetta var meðal þess sem fram kom á vel sóttum kynningarfundi sem haldinn var í dag fyrir íbúa og hagsmunaaðila. Margir fundargesta lýstu ánægju með framkvæmdirnar, en jafnframt komu fram áhyggjur af bílastæðavanda. Þá hvöttu þeir til að stæðum fyrir hjól yrði fjölgað.
Ámundi Brynjólfsson, skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds hjá Umhverfis- og skipulagssviði, kynnti fyrirhugaðar framkvæmdir og fór yfir verkáætlun. Hann sagði að bílastæðum fækkaði í heildina mjög lítið. Flest bílastæði eru inn á lóðum fyrirtækja og aðeins væri gengið á stæði við götu, en það er gert til að rýma fyrir hjólreiðum, betri gönguleiðum og fegurri ásýnd götunnar. Biðstöðum Strætó verður fjölgað og það ætti að virka hvetjandi til að nýta þá kosti.
Eftir breytingar verða hjólastígar beggja vegna Borgartúns og yfir Snorrabraut þar sem gatan verður þrengd í eina akrein í hvora átt á stuttum kafla verður hjólastígurinn á upphækkun. Núverandi gangstéttar verða endurnýjaðar og einnig verður ný gangstétt lögð sunnan götunnar þar sem hana vantar. Eftir breytingar verða því samfelldar gönguleiðir beggja vegna götunnar. Með framkvæmdunum verður bætt öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Gróðursvæði verður komið fyrir milli götunnar og hjólastíga. Skipt verður um ljósastaura í götunni.
Á kynningarfundinum var eins og áður segir farið yfir verkáætlun framkvæmdanna. Áætlað er að þær hefjist í lok þessa mánaðar og verði lokið fyrir 10. nóvember. Áfangaskipting verksins kemur fram í kynningu sem sýnd var á fundinum. Skoða kynningarmyndir og verkáætlun
Tengt efni:
Tengd frétt: Borgartúni breytt í sumar
Tengdar upplýsingar: Framkvæmdasjá: Endurnýjun Borgartúns
Skoða kynningarmyndir og verkáætlun