Lesið pistilinn í {japopup type="iframe" content="http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1017577" width="1000" height="600" }Morgunblaðinu Laugardaginn 14. maí, 2005{/japopup}
Víkverji er mikill hjólagarpur og nýtur þess að setja upp fallega hjálminn sinn og hjóla í vinnuna. Hann er einhvern veginn miklu hressari ef hann hreyfir sig aðeins á morgnana.
Undanfarið hefur geðheilsu Víkverja þó verið ógnað. Honum virðist sem verið sé að gera tilraunir til að ráða hann af dögum. Víkverji býr nefnilega vestur í bæ og verður því óþægilega mikið var við framkvæmdir vegna færslu Hringbrautar og eins og svo oft er lítið hugað að hjólreiðamönnum við þær framkvæmdir.
Hjólreiðastígarnir fínu eru bara klipptir í sundur og appelsínugul skilti vísa á gönguleiðir sem eru stórhættulegar hjólreiðafólki. Ótraustvekjandi brýr, grjót og óhugnanlegir kantar geðjast Víkverja lítt þegar hann þvælist um á hjóli. Steypuklumpar birtast á stígunum og aftan við þá kannski stórar holur.
Víkverji þarf því oft að bregða á það ráð að hjóla á götunni. Það fór óneitanlega um hann þegar hann sá bíla rekast saman á gatnamótum Hringbrautar og Snorrabrautar um daginn með þeim afleiðingum að annar skelltist utan í steypuklumpa, sem Víkverji hefur stundum hjólað upp við, og rann meðfram þeim nokkurn spöl. Hefði Víkverji verið röng kona á röngum tíma væri hann ekki á lífi í dag.
Víkverja þykja einnig nýjar gerðir göngugatnamóta einstaklega óheppilegar fyrir hjólreiðafólk. Nú þurfa garpar eins og Víkverji að hægja svo mikið á sér að það liggur við að þeir detti af hjólinu í hvert sinn sem þeir fara yfir götu. Þetta er auðvitað óhæft enda er ein aðalforsenda þess að hjólið sé þægilegur valkostur að maður komist nokkuð hratt yfir. Víkverji veit svo sem að ástæðan fyrir þessu er að gönguljósin eru tvískipt og stundum logar grænt yfir hálfa götuna en rautt yfir hinn helminginn. Svo er þó ekki alltaf og Víkverja þætti vænt um að honum væri treyst til að sjá sjálfur í hvaða tilfellum það er.