Barnaheill – Save the Children á Íslandi hófu árlega hjólasöfnun sína í tíunda sinn föstudaginn 19. mars síðastliðinn. Frá upphafi Hjólasöfnunarinnar árið 2012 hafa rúmlega 2.500 börn og ungmenni notið góðs af því að fá hjól úr söfnuninni og er það ekki síst að þakka öflugum sjálfboðaliðum sem lagt hafa hönd á plóg við viðgerðir á hjólum.
Viðgerðir hefjast um miðjan apríl og vantar okkur sjálfboðaliða til að taka þátt í viðgerðum á hjólum á verkstæði söfnunarinnar og því sendum við þetta bréf. Hafir þú tök á að aðstoða okkur væri öll hjálp vel þegin.
Almenningur er hvattur til að gefa reiðhjól til söfnunarinnar og fara með þau á móttökustöðvar Sorpu á höfuðborgarsvæðinu og sjá sjálfboðaliðar um viðgerðir á hjólunum áður en þeim er úthlutað til barna og ungmenna sem að öðrum kosti gefst ekki kostur á að eignast hjól. Hjólasöfnunin er unnin í samstarfi við Æskuna - barnahreyfingu IOGT, Sorpu og ýmsa aðra velunnara.
Markmið hjólasöfnunarinnar er að börn og ungmenni í félagslega eða fjárhagslega erfiðri stöðu eignist reiðhjól. Þannig fá þau tækifæri til að eflast félagslega auk þess sem lýðheilsuleg sjónarmið eru að baki sem efla bæði líkamlegt og andlegt heilsufar. Börnin geta þannig með auknum hætti verið þátttakendur í samfélagi annarra barna.
Fyrirfram þakkir og ósk um góðar viðtökur,
Matthías Freyr Matthíasson, verkefnisstjóri Hjólasöfnunar Barnaheilla
Barnaheill – Save the Children á Íslandi