Fjörustígur milli Stokkseyri og Eyrarbakka

Búið er að leggja göngu- og hjólastíg með fjörunni milli Stokkseyri og Eyrarbakka. Efnt var til samkeppni um nafn á stíginn og varð nafnið Fjörustígur hlutskarpastur.

Fyrsta skóflustungan að stígnum var tekin 7. september árið 2012 af Ástu Stefánsdóttur, þáverandi bæjarstjóra. Og nú sjö árum síðar er stígurinn tilbúinn, lokið var við að malbika hann í lok ágúst.

Hann liggur meðfram sjóvarnargarðinum frá Stokkseyri og að brú á Hraunsá, sem var smíðuð fyrir stíginn. Síðan beygir hann inn í land og sneiðir framhjá landi Gamla-Hrauns. Hann liggur um skemmtilegt votlendi þar sem skiptast á mýrar, dælir, flóð og tún. Stígurinn endar á Litla-Hraunsflötum sunnan við Litla-Hraun og tengist þar gatnakerfi Eyrarbakka. Stígurinn er um 3,2 km að lengd.

Eins og oft áður er Openstreetmap.org fyrst með breytingarnar og má sjá stíginn hér í kortavefsjá: Fjörustígurinn milli Eyrarbakka og Stokkseyri

Hann ætti einnig að vera aðgengilegur í öppum sem nota Openstreetmap.

Unnið er að gerð stígs milli Selfoss og strandarinnar þar sem Eyrarbakki og Stokkseyri standa og verða þá allir þéttbýlisstaðir Sveitarfélagsins Árborgar tengdir með malbikuðum stígum. Flatlendið í Flóanum er enda kjörið til hjólreiða.