Sérstaðan við þetta hjól, er að það er öllum aðgengilegt og opið til notkunar. Það fer ekki á eitt ákveðið hjúkrunarheimili, heldur getur almenningur fengið það lánað til að hjóla með vini og vandamenn, sem ekki hjóla lengur fyrir eigin afli. Hjólin eru með rafmagnsstuðningi, svo það er auðveldara að hjóla þeim en mörgum dettur í hug við fyrstu sýn.
Anna Birna Jensdóttir formaður Thorvaldsensfélagsins mun afhenda hjólið sem Sesselja Traustadóttir frá Hjólað óháð aldri mun veita viðtöku.
Nú eru komin 10 hjól á jafnmörg hjúkrunarheimili um allt land. Þetta er 11. hjólið sem gefið er til notkunar í Hjólað óháð aldri. Síðast var hjól afhent á Húsavík fyrir Hvamm við upphaf aðventunnar – sem þykir heldur óvanalegur tími til hjólreiða á þeim slóðum.
Thorvaldsensfélagið var stofnað 19. nóvember 1875 og er því 141 árs um þessar mundir. Félagið hefur frá fyrstu tíð starfað í þeim anda að styðja við og hafa frumkvæði að góðum samfélagsverkefnum. Sjá nánar á heimasíðu félagsins: http://thorvaldsens.is/
Hjólað óháð aldri varð til í Kaupmannahöfn fyrir 3 árum. Fyrstu hjólin komu til Íslands fyrir rúmu ári síðan og hafa nú þegar 10 hjúkrunarheimili eignast hjól fyrir íbúa, vini, aðstandendur og starfsmenn. Hugmyndin með hjólunum er að rjúfa einangrun íbúa hjúkrunarheimila og skapa tækifæri til samveru og notalegra ferðalaga um nærsamfélag íbúanna. Hjólafærni á Íslandi hefur hlúð að innleiðingu Hjólað óháð aldri á Íslandi í samstarfi við starfsmenn og velunnarar hjúkrunarheimila um allt land.
www.hoa.is, www.hjolafaerni.is
https://www.facebook.com/Hjólað-óháð-aldri
Mynd af hjólinu sem afhent var í Hvammi á Húsavík föstudaginn 2. des sl. Það er sjálfur bæjarstjóri Húsavíkur, Kristján Þór Magnússon – einnig sveitarstjóri Norðurþings, sem hjólaði fyrsta hringinn um bæinn með íbúa af Hvammi, Viðar Vagnsson frá Hriflu og Dýrleif Andrésdóttir frá Leirhöfn.