Byrjað er að hreinsa helstu hjólastíga í Reykjavík, en hægt var að byrja fyrr en áætlun sagði til um vegna góðrar tíðar. „Við hreinsum sandinn af helstu stofnstígunum hjólaleiða fyrst og er það von okkar að það náist fyrir páska,“ segir Björn Ingvarsson, deildarstjóri þjónustumiðstöðvar borgarlandsins.
Eftir páska verður farið á fullt að hreinsa stofnbrautir gatna og gönguleiða, en í heildina er gert ráð fyrir að hreinsun í Reykjavík taki átta vikur, en það fer þó eftir veðri.
Hægt er að nálgast verkáætlun vorhreinsunar á vefsíðunni reykjavik.is/hreinsun.
Menn hafa líka orðið varir við að Kópavogur er byrjaður hreinsun en ekki hefur verið birt frétt um það á heimasíðu bæjarins ennþá. Ekki er vitað um stöðuna í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.