Mótmæli við samninga við leigufyrirtæki með rafhlaupahjól.

Bréfið var sent á Reykjavíkurborg og Garðabæ, Hafnarfjarðarbæ, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesbæ, Reykjanesbæ og Akureyrarbæ. Einnig var það sent á Vegagerðina, Faxaflóahafnir og Háskóla Íslands.

Bréf til Reykjavíkur

Efni bŕefsins:

Mótmæli:

Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) vilja koma á framfæri mótmælum samtakanna við samninga Reykjavíkurborgar við leigufyrirtæki með rafhlaupahjól, m.a. sérstaklega Hopp og ZOLO. LHM almennt hvetur eindregið til þess að slíkir samningar verði ekki gerðir, framlengdir eða endurnýjaðir að óbreyttum forsendum.

Samantekt:

Reynslan af fyrirkomulagi með stöðvalausar hjólaleigur síðan 2019, þegar tilraunir með slíkt hófust á höfuðborgarsvæðinu, sýna svo ekki verður um villst að miklir vankantar eru á fyrirkomulaginu. Umgengni um leigurafhlaupahjól og notkun þeirra er almennt óboðleg frá mörgum sjónarhornum en frá sjónarhóli LHM er það fyrst og fremst vandamál að rafhlaupahjól eru skilin eftir á hjólastígum og öðrum algengum hjólaleiðum með mjög varhugaverðum hætti m.a. í andstöðu við 1. mgr. 28. gr. umferðarlaga og 1. mgr. 29. gr. sömu laga, sbr. og 6. mgr. 42. gr. Þetta eru regluleg og ítrekuð tilfelli og kerfisbundið ástand. LHM mælist til þess að samningar við hjólaleigur verði ekki gerðir, framlengdir eða endurnýjaðir nema að forsendur breytist mjög mikið til að taka á þessu vandamáli með skýrum hætti og staðföstum aðgerðum. LHM óskar eftir samtali við sveitarfélagið um þetta vandamál sem og hvaða kröfur þarf að gera ef framhald verður á.

Staða:

Hinn 16. október sl. sendi LHM fyrirspurn til nokkurra stærstu sveitarfélaga landsins og bað um upplýsingar um samninga sveitarfélaganna við leigufyrirtæki með rafhlaupahjól, sérstaklega samninga við Hopp og ZOLO. Þessir samningar reyndust mjög keimlíkir; helstu atriði sem komu fram í þessari könnun og eru eftirtektarverð:

  • Garðabær: Samningur við OSS rann út í desember 2022, samningur við Hopp rann út í janúar 2023, enginn samningur er við ZOLO.
  • Kópavogur: Enginn samningur var við OSS, samningur við Hopp rann út í maí 2023, drög liggja fyrir að samningi við ZOLO en samningur var ekki kláraður. Samtöl eru í gangi með hvaða hætti framvindan geti orðið; umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogsbæjar samþykkti á fundi sínum 21. nóvember sl.

23101080 - Hindranir vegna illa lagðra rafhlaupahjóla

Á 168. fundi umhverfis- og samgöngunefndar 17. október var óskað umsagnar umhverfissviðs vegna viðbragða við rafhlaupahjólum sem er lagt á óábyrgan hátt í bæjarlandi að lokinni notkun. Umsögn umhverfissviðs lögð fram.

Umhverfis- og samgöngunefnd leggur til að umhverfissvið hefji samtal við rafhlaupahjólaleigur í samræmi við tillögur ræddar á fundinum.

  • Reykjavík: Almennt eru gerðir 2 ára samhljóða samningar við leigurnar. Ekki fengust upplýsingar um stöðu samninga við OSS og ZOLO. Samningur við Hopp, sem var gerður 2021 til tveggja ára, var núna á haustmánuðum 2023 endurnýjaður fram á vor 2024 (þ.e.a.s. líklegast um u.þ.b. 6 mánuði, þó það væri ekki gefið upp nákvæmlega, en ekki um 2 ár).

Það eru því ekki samningar í gildi við OSS, Hopp og ZOLO í nokkrum sveitarfélögum en leigurnar eru engu að síður með starfsemi í þeim sveitarfélögum. Rafhlaupahjól þeirra eru skilin eftir á landi þeirra sveitarfélaga án leyfa eða samninga.

Saga:

Reykjavíkurborg var fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að hefja tilraunir með stöðvalausar hjólaleigur haustið 2019. Önnur sveitarfélög bættust svo við, seinast Mosfellsbær sumarið 2023.

Reykjavíkurborg var ekki fyrst borga í Evrópu til að hefja slíkar tilraunir, líklegast var það París, sem hóf slíkar tilraunir árið 2018, en París var síðan fyrsta höfuðborgin í Evrópu til að banna stöðvalausar hjólaleigur í ágúst sl. eftir 5 ára slæma reynslu. Sjá t.d. https://www.theguardian.com/world/2023/aug/31/rented-e-scooters-cleared-from-paris-streets-on-eve-of-ban.

Reynslan á Íslandi hefur ekkert verið betri.

Undirrituðum fulltrúa LHM var persónulega nóg boðið haustið 2021, þegar þessi tilraun hafði staðið yfir í 2 ár, og stofnaði Facebook-hópinn „Verst lagða rafskútan“ (https://www.facebook.com/groups/verstlagdarafskutan/) til að halda utan um myndasafn af illa lögðum rafskútum, einkum á hjólaleiðum. Sá hópur hefur síðan þróast í að einnig birta leiðbeiningar um hvernig eigi að leggja rafskútum vel, búa til sjónræna einkunnagjöf fyrir lagningu rafskúta, og framkvæma talningar; allt í ólaunaðri sjálfboðavinnu og án fjárframlaga – sá hópur er því einungis smá sýn á toppinn á ísjakanum sem þetta vandamál er.

Talningar sem hópurinn hefur gert gefur til kynna að þegar verst lætur séu rafhlaupahjól fyrir vegfarendum með varhugaverðum hætti á 200 metra fresti á algengum hjólaleiðum og að 68-71% af rafskútum sem finna má á eða við algengar hjólaleiðir sé illa lagt. Ítrekaðar ábendingar hafa verið sendar sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu í þessa veru.

Sveitarfélagið, sem veghaldari, gæti aldrei látið það líðast að 30 kg steinhnullungum væri ítrekað og kerfisbundið dreift á hjólaleiðir eða að þykkir trjádrumbar 125 cm að lengd væru reglulega skildir eftir tilviljanakennt á hjólaleiðum. Á sama hátt á ekki að líða það að rafhlaupahjól (sem eru þetta þung og stór) séu sífellt skilin eftir á algengum hjólaleiðum með varhugaverðum hætti sem getur og hefur valdið slysum. Þetta eru ekki einstök afmörkuð tilfelli, það er reglulegt og ítrekað mynstur hérna á ferðinni sem krefst aðgerða veghaldara.

Mögulegar lausnir:

LHM vill benda á að það eru stórt séð þrjár heildarlausnir á þessu vandamáli og að fyrirfram megi ekki útiloka neina þeirra:

  1. Að hætta alfarið þessari tilraun með hjólaleigur.
  2. Að breyta þessari tilraun í tilraun með hjólaleigur með fyrirfram ákveðnar stöðvar þar sem einungis má skila hjólum í sérstaklega afmörkuð og til þess gerð stæði. Það gæti t.d. verið afmarkað í einu bílastæði.
  3. Að halda áfram þessari tilraun með stöðvalausar hjólaleigur en herða mjög mikið kröfurnar.

Nokkrar tillögur:

LHM mælist til þess að ef haldið verður áfram með þessa tilraun með stöðvalausar hjólaleigur að þá sé nauðsynlegt að alfarið verði komið í veg fyrir þá hegðun að rafhlaupahjól séu skilin eftir á hjólaleiðum. Hjólaleiðir eru ekki rafskútustæði. Athugið að með „hjólaleiðum“ á LHM við hjólastíga, hjólagötur, stofnleiðir hjólreiða, svokallaða blandaða stíga, stofnstíga, og aðrar algengar hjólaleiðir.

Leigurnar yrðu að vera með víðtæk bannsvæði á öllum hjólaleiðum. Þessi bannsvæði yrðu að vera samræmd milli leiganna. Framfylgja þyrfti þessu banni nákvæmlega. Ennfremur telur LHM að setja yrði að setja lágmarkskröfur um laust pláss á öðrum tegundum stíga og staða þegar rafhlaupahjóli hefur verið lagt.

Einnig yrði að koma í veg fyrir að rafhlaupahjólum sé lagt innan við 5 metra frá gangbrautum og öðrum gönguþverunum, eða innan við 5 metra frá vegamótum, stígamótum og vega-/stígamótum, eða í undirgöngum eða innan við 5 metra frá munna undirganga og/eða rampa að undirgöngum, og á brúm eða innan við 5 metra frá brúarendum. 

Leigurnar yrðu að sýna frumkvæði í því að greina sjálfkrafa ef rafhlaupahjól er skilið eftir á bannsvæði og sækja innan tilskilins þröngs tímaramma frá greiningu, þó það sé ekki endilega tilkynnt af vegfaranda.

Almennt þyrfti að útlista 1. mgr. 28. gr., 1. mgr. 29. gr., og 6. mgr. 42. gr. umferðarlaga í þessu heildarsamhengi þannig að leigurnar og notendur þeirra hafi mjög skýr viðmið. Þessi viðmið þyrftu helst að vera með þeim hætti að hugbúnaður gæti framfylgt þeim í flestum tilfellum.

Koma yrði upp kerfi þar sem gangandi og hjólandi vegfarendur geti tilkynnt til sveitarfélagsins, sem veghaldara, með mjög einföldum og straumlínulöguðum hætti um illa lögð rafhlaupahjól (og önnur brot á verklagsreglum/samningum). Í framhaldi af tilkynningu yrði að taka við einfalt og hratt ferli þar sem tilkynnt rafhlaupahjól væri fjarlægt. Sá tímarammi sem sveitarfélagið gæfi sér og sem leigurnar hefðu til að laga hvert brot, í samræmi við gæðahandbók um rekstur hjólastíga og -leiða, yrði að vera mjög skammur og mælast í mínútum en ekki klukkustundum, hvað þá dögum. Halda yrði utan um frávik þegar rafhlaupahjól er ekki sótt tilhlýðilega skjótt. Ekki má ætlast til þess að almennir vegfarendur, sem eru ekki viðskiptavinir leiganna, þurfi að sækja app hverrar leigu fyrir sig til að tilkynna illa lögð rafhlaupahjól þeirra, en einnig þarf að vera til yfirlit og tölfræði um illa lögð rafhlaupahjól og tilkynningar geta því ekki verið í ruglingslegri blöndu af ábendingum til sveitarfélagsins sem veghaldara, apptilkynningum í mismunandi öppum til leiganna, tölvupósti og Facebook Messenger skilaboðum og öðru spjalli hér og þar, og öðrum leiðum.

Leigurafhlauphjól yrðu að hafa glit og ljósabúnað langt umfram þess sem krafist er í reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla. Núverandi reglugerð skrifuð út frá reiðhjólum en ekki rafhlaupahjólum og uppfærsla á henni, sem dagaði upp, er einnig eingöngu frá sjónarhóli reiðhjóla. Hún er líka skrifuð m.v. reiðhjól sem er í notkun en ekki út frá rafhlaupahjóli sem er skilið eftir eins og hráviði á stíg. Þessi reglugerð er því úrelt og ónothæft plagg sem hefur tæknilegt formlegt gildi en nákvæmlega ekkert praktískt gildi til að styðjast við.

Leigurafhlauphjól yrðu að lágmarki að greina ef þau detta og þá kveikja viðvörunarljós. En til viðbótar ættu leigurafhlauphjól einnig að kveikja viðvörunarljós þegar þau eru tilkynnt og helst ættu leigurafhlauphjól sem eru skilin eftir innan bannsvæðis sjálfkrafa að kveikja viðvörunarljós án sérstakrar tilkynningar. Færa má rök fyrir því að öll leigurafhlaupahjól ættu að vera með (hægpúlsandi) appelsínugul viðvörunarljós sem væru alltaf kveikt, allan sólarhringinn árið um kring, þegar þau eru ekki í notkun.

Ofangreindur listi er engan veginn tæmandi, þetta eru einungis nokkrar tillögur. T.d. er einkum ekki tekið á afslætti eða sektum, sem væru frekari leiðir til að hafa áhrif á hegðun notanda. Einnig er ekki rætt um hugsanlega taktík að setja upp fjölda vel merktra stæða fyrir rafhlaupahjól og reyna að beina notendum til að nota þau stæði (t.d. með afslætti), án þess að gera stæðanotkun að skyldu.

Lokaorð:

Með allt ofangreint í huga óskar LHM því eftir samtali við sveitarfélagið um þau vandamál sem leigurafhlaupahjól hafa skapað, sérstaklega illa lögð rafhlaupahjól, ásamt því að ítreka að félagið leggst gegn því að núverandi samningar verði framlengdir eða endurnýjaðir. Fulltrúar LHM geta mætt á fund með sveitarfélaginu hvort sem er á skrifstofu þess eða í gegnum fjarfundarbúnað eða samtalinu má halda áfram í tölvupósti.

LHM leggur á það áherslu að það er nauðsynlegt að sveitarfélögin á Íslandi, sérstaklega sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, séu samstíga í þessum málum. Viðskiptavinir leiganna skilja ekki og fara ekki eftir núverandi reglum og því nauðsynlegt að breytingar, hertar reglur og mjög hertar aðgerðir, séu samræmdar. Allra helst, ef þess er nokkur kostur, ættu sveitarfélögin að vera samferða í þessum viðræðum við leigurnar. LHM veit til þess að allavega Kópavogsbær og Reykjavíkurborg eru í viðræðum við leigurnar.

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.