Vegagerðin og Reykjavíkurborg, skipulagsgátt:
https://skipulagsgatt.is/issues/627
https://skipulagsgatt.is/issues/622
Ólík áhrif brúa og ganga á virka ferðamáta.
Brú og göng hafa mismunandi áhrif á virka ferðamáta. Óljóst er og vandséð hvernig ná eigi fram jöfnu aðgengi virkra ferðamáta ef göng verða fyrir valinu. Þennan þátt þarf að skoða vel í umhverfismati og verklýsingu og uppfylla 1. markmiðið með Sundabraut, að bæta samgöngur, fyrir alla ferðamáta (akandi, almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi) á norðurhluta höfuðborgarsvæðisins með auknu öryggi og hagræði.
Áhrif Sundabrautar á byggðamynstur og dreifingu byggðar og áhrif þess á ferðavenjur og umferð.
Í verklýsingu aðalskipulags og matsáætlun umhverfismats og endurskoðun félags- og hagfræðilegrar greiningar Sundabrautar þarf að taka tillit til líklegra áhrifa af Sundabraut á breytt byggðamynstur og dreifingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi og hvaða þýðingu það hefur fyrir umferð um Sundabraut. Skoða þarf áhrif þess á önnur markmið stjórnvalda og borgarinnar s.s. í loftslagsmálum, kolefnishlutleysi og breyttar ferðavenjur. Gæti Sundabraut jafnvel unnið gegn 2. markmiði brautarinnar, að auka samfélags- og umhverfislegan ábata með minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfaranda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu og innan þess. Ef leiðin styttist en fleiri aka lengra þýðir það minni eða meiri akstur?
Ólíklegt hlýtur að teljast að Sundabraut minnki umferð eins og var niðurstaða upphaflegu félags og hagfræðilegu greiningarinnar. Mun líklegra er að Sundabraut ýti undir dreifingu byggðar frá höfuðborgarsvæðinu og að fleira fólk mun aka mun lengra en ef það myndi búa innan höfuðborgarsvæðisins í nánd við almenningssamgöngur eða geta hjólað eða gengið sinna ferða. Verða umferðatafir kannski algengar á Sundabraut ef brautin ýtir undir dreifingu byggðar um Vesturland og uppbyggingu á samgönguásnum sem Sundabraut mun þjóna? Það er í Grafarvogi, á Geldinganesi, Álfsnesi, Kjalarnesi, Kjós, Akranesi, Hvalfjarðarsveit, Borgarnesi o.s.frv. Ef svo reynist þarf að huga að mótvægisaðgerðum með öflugum almenningssamgöngum á þessari leið sem gæti tekið kúfinn að einhverju leyti í þessari umferð. Þar þarf að huga að greiðfærni almenningssamgangna frá fyrsta degi því Sundabraut getur verið orðin teppt vegna mikillar umferðar eftir 20 ár.
Í félags og hagfræðilegu greiningunni þarf líka að rýna áætluð tímagjöld mismunandi ferðamáta upp á nýtt en það er sérkennilegt að tími vegfarenda á ferð skuli vera metin ólíkt í greiningunni.
Endurskipulagning hafnarstarfsemi.
Skoða þarf möguleikann á að endurskipuleggja hafnarstarfsemi til að gera brú að betri kosti. Til dæmis með því að færa alla uppskipunar- og útskipunarstarfsemi norður fyrir brúnna. Það ætti að gera mögulegt að hafa lágbrú frá Holtavegi yfir Kleppsvík í um 25 m hæð til að tryggja seglskútuumferð og umferð dýpkunarskipa og pramma undir brú. Hafnsækin starfsemi gæti áfram verið sunnan við brú en þjónustuð frá bryggjum norðan með greiðri umferð farartækja hafnarinnar undir brúnna.
Lega stofnbrautar um Gufunes-sorphauga.
Það virðist ekki eiga að skoða möguleikann á að leggja stofnbrautina í gegnum hauginn með því að grafa leið í gegnum hann með vegg eða mön til beggja hliða. Þetta gæti verið valkostur sem vert er að skoða. Með lægri legu vegar í landi er líklegt að hljóðvist batni. Þá opnast möguleiki á betri hreinsun frá haugnum s.s. með söfnun og hreinsun sigvatns sem nú endar óhreinsað í Kleppsvík og söfnun metans og nýtingu. Hreinsa mætti upp þau spilliefni sem yrðu í vegstæðinu.
Hjólreiðaáætlun
Á bls. 16 í verklýsingu aðalskipulags er sýnd tengsl við aðra áætlanagerð . Á hjólreiðaáætlun borgarinnar líka heima á lista yfir þessar áætlanir sem helst verður litið til?