Frumvarpið: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/154/468/?ltg=154&mnr=468
Landssamtök hjólreiðamanna leggja til að hugtakinu hreinorkubíleigenda í 13. gr. frumvarpsins verði skipt út fyrir hugtakinu hreinorkuökutækjaeigenda, svo lögin nái einnig yfir reiðhjól og önnur sambærileg ökutæki. Það er að segja að ákvæðið verði:
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. teljast styrkir til hreinorkuökutækjaeigenda úr Orkusjóði, sbr. lög nr. 76/2020, á tímabilinu 1. janúar 2024 til og með 31. desember 2024 ekki til tekna hjá mönnum að uppfylltum skilyrðum laganna.
Greinargerð:
Reiðhjól og rafmagnsreiðhjól ásamt ýmsum öðrum smáfarartækjum í skilningi umferðarlaga hafa notið ívilnunar með lækkun eða niðurfellingu á virðisaukaskatti á svipaðan hátt og rafmagnsbílar síðastliðin ár. Íslensk stjórnvöld ætla að halda áfram að styðja þjóðfélagið til orkuskipta í samgöngum og þá er það réttlætismál að eigendur fararskjóta, sem skapa sömu samgöngur en með brotabroti af menguninni, njóti samskonar styrkja og rafbílaeigendur.
Við notkun menga þessi ökutæki mun minna en hreinorkubílar og minni mengun fylgir framleiðslu þeirra en fylgir framleiðslu hreinorkubíla. Hreinorkubílar eru um 100 sinnum þyngri og krefjast samsvarandi meiri orku við námugröft, efnisvinnslu, framleiðslu og flutning. Í notkun valda þeir umfangsmikilli mengun með örplasti sem verður til við slit á hjólbörðum og mengun af svifryki frá dekkjasliti og sliti á malbiki. Reiðhjól og rafmagnsreiðhjól og önnur svo kölluð smáfarartæki valda aðeins agnarögn af þeirri mengun sem fylgir bílum af þessari þyngd, vélarstærð og ökuhraða sbr. samanburð með umhverfismat í töflu hér að neðan.
Í væntanlegri reglugerð um Orkusjóð þarf hugsanlega að skýra verklag og upphæðir sem koma til greina sem styrkir fyrir mismunandi flokka hreinorkuökutækja. LHM vill mjög gjarnan hafa tækifæri til að gera umsögn um þau drög.
Tafla 1. Samanburður á hreinorkuökutækjum. Hlutfallsleg áhrif á heilsu notenda, umferðaröryggi annarra vegfarenda og mengun.
Ökutæki |
Þyngd (kg) |
Afl (KW) |
Hraði (km/klst) |
Áhrif á heilsu notenda |
Hætta fyrir aðra í umferð |
Mengun |
Hreinorkubílar |
2000 |
100-300 |
90 |
(-) |
(- - -) |
(- - -) |
Reiðhjól |
15 |
0,2 |
20 |
(+++) |
(0) |
(0) |
RafmagnsR. |
25 |
0,25 |
25 |
(++) |
(0) |
(-)2 |
Smáfarartæki |
25 |
0,25 |
25 (- 70) |
(+) |
(-)1 |
(-)2 |
VÆGI ÁHRIFA SKÝRING
Jákvæð áhrif (+) á viðkomandi umhverfisþátt.
Engin eða óveruleg áhrif (o) á viðkomandi umhverfisþátt.
Neikvæð áhrif (-) á viðkomandi umhverfisþátt.
(1) Áhrif fyrst og fremst vegna mikils ökuhraða á óleyfilega breyttum tækjum.
(2) Áhrif vegna framleiðslu og förgun rafhlaðna.