Tillögurnar á skipulagsgátt: https://skipulagsgatt.is/issues/214
Lega stíga
LHM vilja benda á að gera þarf betur grein fyrir legu stíga í sveitarfélaginu. Merking stíga á uppdráttunum er ógreinileg og erfitt að sjá hvar mismunandi gerðir stíga liggja um sveitarfélagið, göngustígar, hjólastígar, útivistarstígar og reiðleiðir. Lykill á uppdrætti ber ekki saman við merkingu stíga á uppdráttum og í einhverjum tilvikum vantar merkingu lykils. Bæta þarf framsetninguna á uppdráttum þannig að auðvelt sé að átta sig á legu mismunandi gerða af stígum.
LHM bendir á að nauðsynlegt er að stígar liggi meðfram helstu þjóðvegum, eða í sömu legu og þeir, í gegnum sveitarfélagið að sveitarfélagamörkum. Slíkur stígur er merktur meðfram Vesturlandsvegi að Reykjavík á Álfsnesi, annar er sýndur samsíða Suðurlandsvegi á línuvegi norðan við Suðurlandsveg að sveitarfélagamörkum við Ölfus en stíg vantar meðfram Þingvallavegi frá Seljabrekku (eða Gljúfrasteini en þéttbýlisuppdrætti og heildaruppdrætti ber ekki saman) að sveitarfélagamörkum að Reykjavík við Stardal.
Í þéttbýlinu virðist vanta að merkja hjólastíga meðfram Borgarlínunni, meðfram vegi frá Lágafelli að Skarhólabraut, meðfram vegi frá Teigi að Lágafelli og meðfram vegi frá Gerplustræti/Vefarastræti að mynni Skammadals.
LHM áskilur sér að koma með frekari ábendingar við legu stíga á seinni stigum þegar búið er að gera uppdrætti greinilegri.
Samgöngumiðað skipulag
LHM leggur áherslu á að hægt sé að sinna öllum þörfum daglegs lífs í þéttbýli með því að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur. Í kaflanum um samgöngumiðað skipulag myndum við vilja sjá tekið á því í Mosfellsbæ að hægt sé að versla í matinn, sækja alla daglega þjónustu, fara með sorp í endurvinnslu og sækja leikskóla, skóla og íþróttir í nærumhverfi fólks þannig að hægt sé að ganga eða hjóla eftir öruggum leiðum.
Bíla og hjólastæðaviðmið
LHM er mjög hlynnt því að gert verði samgöngumat og er æskilegt að það nái til alls sveitarfélagsins en ekki bara þróunarsvæða og áhrifasvæða Borgarlínu. LHM er sömuleiðis hlynnt því að gerð verði hjólreiðaáætlun fyrir Mosfellsbæ. Í samgöngumati ætti að taka tillit til áhrifa ókeypis bílastæða á ferðavenjur. Mosfellsbær ætti líka að skoða kosti þess að setja sér samþykkt með reglum um notkun stöðureita í sveitarfélaginu samkvæmt 86. grein umferðarlaga.