Umsagnarnefnd Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) hefur skoðað kynningu á drögum að samgöngu- og þróunarás Garðabæjar (Þróunarsvæði A og Hafnarfjarðarvegur) - Rammahluti aðalskipulags og deiliskipulagsáætlanir.
Innan skipulagssvæðisins er Hafnarfjarðarvegur ásamt tengingum við Arnarnesveg, Vífilsstaðaveg og Álftanesveg. Beggja vegna Hafnarfjarðarvegar eru íbúðarhverfi og vestan Hafnarfjarðarvegar er Lyngássvæðið, þar sem iðnaður og þjónusta hefur á undanförnum árum vikið að hluta til fyrir nýrri íbúðarbyggð. Austan Hafnarfjarðarvegar er m.a. miðsvæði Garðabæjar og íþrótta- og skólasvæði. Stutt er í útivistarsvæði við Arnarnesvog og bæjargarð við Hraunsholtslæk.
Viðfangsefni skipulagsvinnunnar er m.a. að skilgreina nánar legu Borgarlínu og staðsetningu Borgarlínustöðva eftir Hafnarfjarðarvegi, fyrirkomulag þess hluta Hafnarfjarðarvegar sem fer í stokk, og uppbyggingu og þéttleika í nýjum bæjarkjarna og nálægum uppbyggingarsvæðum.
Umsögn LHM snýr fyrst og fremst að því að á áhrifasvæðum Borgarlínu rísi byggð sem getur orðið hvati til breyttra ferðavenja og boðið upp á líflegt og fjölbreytt umhverfi.