Aðgerðaráætlun í loftgæðamálum er hið þarfasta plagg og LHM tekur undir meginmarkmið í loftgæðamálum og aðgerðaráætlun í loftgæðamálum. Þá er það til bóta í áætlanagerð að benda á aðrar áætlanir stjórnvalda sem hafa áhrif á loftgæðin. Það er, aðgerð á einu sviði hefur líka áhrif á önnur svið sem falla líka að markmiðum stjórnvalda og slá þar með margar flugur í einu höggi. LHM telur þó að það væri hægt að ganga lengra í að slá fleiri flugur í einu höggi. Gallinn við þessa áætlun eins og aðrar áætlanir stjórnvalda er að þær eru ávallt þröngt sniðnar utan um ákveðin mál og þannig lenda önnur mál eða aðgerðir alltaf utan við áætlanirnar jafnvel þótt þær geti skipt miklu máli og haft víðtæk áhrif á markmiðið sem um er fjallað auk annarra markmiða stjórnvalda sem eru ekki síður mikilvæg. Þannig er litið fram hjá ákveðnum aðgerðum og þau komast ekki á dagskrá stjórnvalda þótt þau geti verið lykilatriði í loftgæðum. Til dæmis myndi minni bílaumferð þýða betri loftgæði en jafnframt hafa mörg önnur jákvæð hliðaráhrif eins og aukin virk hreyfing sem aftur leiðir til bættrar lýðheilsu, minni umferðarhávaða, minna pláss undir umferðarmannvirki, styttri vegalengdir, meiri nærþjónustu, ódýrara húsnæði, ódýrari þjónustu, betri almenningssamgöngur, öruggari gatnaumhverfi, færri slys og færri dauðsföll.