Fundur vegna endurbyggingar Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar

LHM fundaði með fulltrúum Vegagerðarinnar þann 29. nóvember 2018 vegna vegna fyrirhugaðrar endurbyggingar Suðurlandsvegar milli Hveragerði og Selfoss og svo Vesturlandsvegi um Kjalarnes.

2018/11/29

Fundur Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur í fundarherbergi hönnunardeildar Vegagerðarinnar.

Mættir
Árni Davíðsson LHM
Sesselja Traustadóttir Hjólafærni
Hallbjörn Reynir Hallbjörnsson Vr.
Guðmundur Valur Guðmundsson Vr.
Erna Bára Hreinsdóttir Vr.
Katrín Halldórsdóttir Vr.
 
Dagskrá:
Boða til fundar með Landssamtökum hjólreiðamanna sem hafa óskað eftir samráði vegna fyrirhugaðrar endurbyggingar Suðurlandsvegar milli Hveragerði og Selfoss og svo Vesturlandsvegi um Kjalarnes.
Tillaga að dagskrá:
1. Inngangur (GVG, LHM)
2. Kynning á fyrirhuguðum framkvæmdum við Suðurlandveg mtt. hjólreiða (Hallbjörn)
3. Umræður
4. Vesturlandsvegur, deiliskipulag á Kjalarnesi og hjólreiðar(Erna Bára)
5. Umræður
Guðmundur Valur
Suðurlandsvegur frá Hveragerði til Selfoss
Á Suðurlandsvegi er gert ráð fyrir tengibraut sem mun liggja samsíða Suðurlandsvegi frá Hveragerði að Selfoss alla leið. Hjólandi (og gangandi) munu geta farið á milli á hjólarein sem er sitthvoru megin akbrautar á tengiveginum alla leið. Tengivegurinn er til þess að gera beinn en þó með tveimur lykkjum og T gatnamótum á leiðinni vegna lóðamála eða skipulags viðkomandi sveitarfélaga. Ein undirgöng eru undir Suðurlandsveg.
 
Þversnið tengivegar, akbrautin er 6 m á breidd með hjólarein sem er 1,5 m breið utanvið. Hámarkshraði verður 70 km/klst og ÁDU er áætluð 300 bílar á dag. Hjólareinin verður byggð samkvæmt leiðbeiningum um gerð hjólamannvirkja frá SSH (og Vr.). Leyfilegt er að hafa hjólarein við 70 km hraða þegar umferð er svona lítil á dag. Kosturinn við hjólarein er að hún verður snjóhreinsuð með sama snjóhreinsitæki og akbrautin og þarf ekki að senda sérstakt tæki til að ryðja snjó. Gera má ráð fyrir að umferð geti verið hleypt á tengiveginn þegar Suðurlandsbraut lokast t.d. vegna umferðarslyss.
 
Suðurlandsvegur verður 1+2 vegur með 1,5 m breiðum vegöxlum. Gert var ráð fyrir að það væri hægt að banna hjólandi umferð á Suðurlandsvegi þegar tengibrautin væri tilbúin en ákvörðun hefur ekki verið tekin. LHM telur of snemmt að taka ákvörðun um það. Áhersla LHM er á að hjólaleiðir verði vel merktar og umferð hjólandi beint með merkingum á hjólaleiðirnar en LHM er á móti því að leggja áherslu á bann. 
 
Árið 2019 verður byrjað á 2 km kafla við Hveragerði. Byggð verður tengibraut sem verður síðan notaður sem Suðurlandsvegur meðan Suðurlandsvegur verður breikkaður. Sá kafli tengibrautar verður ekki tengdur Hveragerði fyrsta kastið. Gert er ráð fyrir að öll framkvæmdin geti tekið 4-5 ár.
 
Fulltrúum LHM líst vel á framkomnar tillögur um hjólarein með tengivegi. LHM leggur áherslu á:
 1. LHM fái forhönnun tengivegar til umsagnar.
 2. Að hönnun leiðar verði miðuð við samgöngur og að þeir verði beinir og greiðir og allar hættur lágmarkaðar.
 3. Framkvæmdatími verði sem stystur og að leiðin verði opnuð sem fyrst.
 4. Að við framkvæmdir við Suðurlandsveg verði reynt að valda sem minnstri truflun á umferð um tengiveg.
 5. Hjólaleiðin verði vel merkt með leiðamerkjum og hjólandi beint inn á leiðina í Hveragerði og á Selfossi.
 6. Að viðunandi hjólaleiðir verði skipulagðar, að þessari hjólaleið, innan sveitarfélaganna sem liggja að framkvæmdinni, Hveragerði, Ölfusi og Selfossi.
 7. Fylgst verði með umferð á tengiveginum, hún talin og hraðamæld. Gripið verði til ráðstafana til að tryggja að ökumenn virði hámarkshraða, t.d. með hraðamyndavélum (með hlutlægri ábyrgð eiganda ökutækja).
 8. Gerðar verði ráðstafanir til að draga úr vindi meðfram leiðinni t.d. með trjá- og runnarækt meðfram veginum.
 9. Teljari verði á leiðinni sem telji hjólandi (og gangandi) umferð.
 10. Ef tengibraut verður notuð sem varavegur fyrir Suðurlandsveg verði gerðar ráðstafanir til að tryggja öryggi og að ökumenn haldi sig innan hámarkshraða.

 

Vesturlandsvegur frá Leirvogsá að Hvalfjarðarvegi
 
Á Vesturlandsvegi var ráðist í gerð deiliskipulags árið 2018. Í því er gert ráð fyrir lagningu hjólaleiðar frá Leirvogsá að Hvalfjarðarvegi í tengslum við breikkun Vesturlandsvegar í 1+2 veg. Hjólaleiðin er ýmist hjólarein meðfram tengivegi sem verður lagður að hluta meðfram Vesturlandsvegi, hjóla- og göngustígur sem tengir milli tengivega og stígar/reinar í Grundarhverfi á Kjalarnesi. Leiðin liggur frá gömlu brúnni yfir Leirvogsá austan við Vesturlandsveg og austan megin Vesturlandsvegar á stíg framhjá Mógilsá þar sem hún sker námusvæðið í brekku upp á brúnina þar sem stígurinn sameinast tengiveg meðfram Vesturlandsvegi. Hjólaleiðin virðist síðan (að mestu?) liggja sem hjólarein meðfram tengivegi austan Vesturlandsvegar að Grundarhverfi. Frá Grundarhverfi liggur síðan tengivegur áfram austan Vesturlandsvegar framhjá Arnarhamri þar sem við tekur stígur sem liggur að Hvalfjarðarvegi.
 
Hjólaleiðin verður byggð samkvæmt leiðbeiningum um gerð hjólamannvirkja frá SSH (og Vr.) fyrir hjólarein og hjólastíg.
Þversnið tengivegar verður 1,5 m hjólarein, 6 m breið akbraut og 1,5 m breið hjólarein eins og við Suðurlandsveg.
Vesturlandsvegur verður 1+2 vegur með 1,5 m breiðum vegöxlum. Gert var ráð fyrir að það væri hægt að banna hjólandi umferð á Vesturlandsvegi þegar tengibrautir og stígar væru tilbúnir en ákvörðun hefur ekki verið tekin. LHM telur of snemmt að taka ákvörðun um það. Áhersla LHM er á að hjólaleiðir verði vel merktar og umferð hjólandi beint með merkingum á hjólaleiðirnar en LHM er á móti því að leggja áherslu á bann.
 
Vesturlandsvegur er skemmra á veg komin og er ólíklegt að verkið byrji árið 2019 en hugsanlega verður byrjað á tengivegi 2019.
 

Fulltrúum LHM líst þokkalega á framkomnar tillögur um hjólarein með tengivegi og stígum. LHM leggur áherslu á:

 1. LHM fái forhönnun tengivega og stíga til umsagnar.
 2. Að hönnun stíga verði miðuð við samgöngur og að þeir verði beinir og greiðir og allar hættur lágmarkaðar.
 3. Framkvæmdatími verði sem stystur og að leiðin verði opnuð sem fyrst. 
 4. Að við framkvæmdir við Vesturlandsveg verði reynt að valda sem minnstri truflun á umferð um tengivegi og stíga.
 5. Hjólaleiðin verði vel merkt með leiðamerkjum og hjólandi beint inn á leiðina í Mosfellsbæ og á Kjalarnesi.
 6. Að viðunandi hjólaleiðir verði skipulagðar, að þessari hjólaleið frá Mosfellsbæ.
 7. Að athugað verði hvort til greina komi að hafa hjólaleið/stíg frá Leirvogstungu um göngubrú á Leirvogsá (í einkaeigu) vestan Vesturlandsvegar, sem mundi tengjast undirgöngum við Leirvogstungumela. (Esjumela)
 8. Fylgst verði með umferð á tengiveginum, hún talin og hraðamæld. Gripið verði til ráðstafana til að tryggja að ökumenn virði hámarkshraða, t.d. með hraðamyndavélum (með hlutlægri ábyrgð eiganda ökutækja).
 9. Gerðar verði ráðstafanir til að draga úr vindi meðfram leiðinni t.d. með trjá- og runnarækt meðfram leiðinni.
 10. Teljari verði á leiðinni sem telji hjólandi (og gangandi) umferð.
 11. Ef tengivegir verður notaðir sem varavegir fyrir Vesturlandsveg verði gerðar ráðstafanir til að tryggja öryggi og að ökumenn haldi sig innan hámarkshraða.
 
 Fundargerðin sem LHM ritaði og sendi Vegagerðinni.