Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskaði eftir umsögnum um Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018 – 2030 , 1. útgáfu, á samráðsgátt stjórnvalda. LHM skilaði inn umsögn um aðgerðaráætlunina.

Markmiðið með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.
 
Þetta er heildstæð áætlun sem samanstendur af 34 aðgerðum á mörgum sviðum. Megináherslurnar eru tvær:
 
Orkuskipti í samgöngum, með sérstakri áherslu á rafvæðingu í vegasamgöngum.
 
Átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki og markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis.
 
Verkefnastjórn með fulltrúum sjö ráðherra hefur unnið að aðgerðaáætluninni, í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar.
 
Meðal aðgerða er varða orkuskipti má nefna að hvatar til að fjárfesta í ökutækjum sem losa lítinn koltvísýring verða efldir. Ívilnunum fyrir rafbíla og aðra visthæfa bíla verður haldið áfram og þær styrktar. Kolefnisgjald verður áfram hækkað og almenningssamgöngur styrktar í samræmi við samgönguáætlun. Þá er mörkuð sú stefna að nýskráning bíla sem eingöngu ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði ólögmæt og er þar miðað við árið 2030.
 
Ráðist verður í umfangsmikið átak við endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis, stöðvun jarðvegseyðingar og frekari landgræðslu og nýskógrækt til að vinna sérstaklega að markmiði um kolefnishlutleysi. Áhersla er lögð á að fela félagasamtökum hlutverk, bændum og öðrum vörslumönnum lands.
 
Þá eru í aðgerðaáætluninni aðgerðir tengdar úrgangsmálum, landbúnaði, sjávarútvegi, fræðslu og fleira. Áhersla er á nýsköpun vegna loftslagsmála og verður Loftslagssjóður stofnaður til að halda utan um slík verkefni.
 
  Aðgerðaráætlunin auglýst á samráðsgátt stjórnvalda.

  Umsögn LHM.
 
Almennt um aðgerðaráætlunina
 
Landssamtökin eru fylgjandi öflugum aðgerðum í loftslagsmálum og það er margt í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem er jákvætt. Að mati stjórnar LHM vantar þó ýmislegt líka í aðgerðaráætlunina til að hún geti talist fullnægjandi frá sjónarmiði um sjálfbærar samgöngur. Það virðist hafa verið einblínt um of á orkuskipti í samgöngum en of lítið á breytingu á ferðavenjum. Aðgerðaráætlunin virðist í stórum dráttum gera ráð fyrir óbreyttu ástandi nema bara hvað nú skal keyra á rafmagni en ekki jarðefnaeldsneyti. Að mati stjórnar LHM hefði aðgerðaráætlunin þurft að taka mun djarfari skref í átt til breytinga á ferðavenjum en hér er lagt upp með.
 
Þá vantar meiri kostnaðargreiningu inn í þær aðgerðir sem lagt er til. Kostnaður ríkisins er ekki bara bein útgjöld heldur einnig afsal tekna (ívilnun) sem fylgja ýmsum aðgerðum. Afsal tekna þýðir að það þarf að afla sömu tekna í ríkissjóð með öðrum hætti og það er ekki gefið að það leggist með jöfnum eða réttlátum hætti á alla þjóðfélagshópa.
 
Í aðgerðaráætlunina vantar í heild markvissa stefnu stefnu um hlutdeild vistvænna samgöngumáta og breytingu á ferðavenjum. Til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar þarf að koma til breyting á ferðavenjum, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur í þéttbýli á landinu öllu. Ólíklegt er að orkuskipti ein og sér muni duga til. LHM leggur til aðgerð um vistvænar samgöngur í aðgerðaráætlun. Jafnframt er mikilvægt að Alþingi samþykki sérstaka þingsályktun um vistvænar samgöngur þar sem ríkisstjórn er falið að vinna að breytingum á ferðavenjum á landinu og sérstaklega í öllu þéttbýli. Fyrir utan minni útblástur gróðurhúsalofttegunda þýðir breyting í
ferðavenjum minni loftmengun í þéttbýli, betri lýðheilsu borgaranna, aukið umferðaröryggi, bættan bæjarbrag, ódýrari umferðarmannvirki, betra pláss í þéttbýli, aukin gæði umhverfis í þéttbýli, minni fjarvistir frá vinnu, aukin félagsleg samskipti og lengri og betri lífdaga. Allt þetta hefur breyting í ferðavenjum framyfir orkuskipti í samgöngum. Í raun lofa orkuskipti engu nema því sem nafnið ber með sér, orkuskiptum, en við sitjum áfram uppi með allar aðrar neikvæðar afleiðingar einkabílsins fyrir utan útblásturinn frá sprengihreyflunum.