Kynning á deiliskipulagslýsingu Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ

Nýverið auglýsti Mosfellsbær til kynningar deiliskipulagslýsingu, skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010: Fyrir gerð deiliskipulags yfir Vesturlandsveg og veghelgunarsvæði frá gatnamótum við Skarhólabraut að gatnamótum við Reykjaveg.

Lengd skipulagssvæðis er tæplega 2,5 km. Megin viðfangsefni við deiliskipulagsgerðina er m.a. að afmarka nýja legu Vesturlandsvegar (tvær akreinar í sitthvora átt með miðeyju) og núverandi tengingar. Skilgreina ný undirgöng, veghelgunarsvæði fyrir möguleg mislæg gatnamót, göngu-, hjóla- og reiðstíga með fram Vesturlandsvegi og tengsl deiliskipulags við nærliggjandi svæði.
 
Í deiliskipulagslýsingu kemur lögum samkvæmt fram hvaða áherslur sveitarstjórn hefur við skipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, s.s. um kynningu og samráð gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.
 
 
LHM var einn umsagnaraðila og sendi inn eftirfarandi umsögn um verkefnið:

Á þessu stigi vilja Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) benda á eftirtalin atriði:
 
  1. Umhverfismat tvöföldunar Vesturlandsvegar mun vera orðið eldra en 10 ára og þarf líklega að taka afstöðu til þess hvort að það þurfi að endurskoða umhverfismatið. Í lýsingu skipulagsverkefnisins kemur ekkert fram um að umhverfismat hafi verið gert fyrir þessa tvöföldun og væri eðlilegt að þess væri getið. Ekki kemur heldur fram að framkvæmdin hafi verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar núna eða hvaða afgreiðslu það hefur þá fengið hjá Skipulagsstofnun. LHM leggur því til að gerð verði grein fyrir afdrifum umhverfismats í lýsingunni.
  2. Umferðarspá sú sem stuðst er við hefur ekki gengið eftir og er umferð mun minni en spáð var. Eðlilegt er að endurskoða umferðarspánna og taka fleiri samgöngumáta inn í hana. Hvað ferðast margir akandi í bílum og hve margir með almenningssamgöngum eða gangandi eða hjólandi eftir þeirri leið sem Vesturlandsvegur þjónar á þessum kafla? Vegagerðin skal í starfsemi sinni stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum. Þá skal stofnunin stuðla að því að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið. Stofnunin þarf að hafa upplýsingar um samgöngur, það er flutning fólks og vöru en ekki bara upplýsingar um fjölda bíla til að rækja hlutverk sitt.  LHM leggur því til að umferðarspáin verði uppfærð og að allar samgöngur verði teknar inní spánna og upplýsinga aflað um ferðir fólks óháð samgöngumátum.
  3. Benda má á að það eru til fleiri leiðir til að bregðast við aukinni umferð bíla heldur en bara að breikka vegi.  Í þessu sambandi má velta fyrir sér hvort að Mosfellsbær og Vegagerðin hafi skoðað aðrar aðgerðir sem gætu náð sömu markmiðum um umferðarflæði og umferðaröryggi. Til dæmis væri hægt að skoða hverjir eiga leið um Vesturlandsveginn og meta hvort hægt sé að draga úr umferð með öðrum aðgerðum. Augljósar aðgerðir sem gætu orðið til að draga úr umferð er t.d. að hvetja til breyttra ferðavenja barna en líklegt er að margar ferðir tengist ferðum úr og í skólum og íþróttastarfi. Þá væri hægt að hvetja til breyttra ferðavenja hjá öllum stofnunum bæjarins með því að taka upp samgöngusamninga og samgöngugreiðslur til þeirra sem koma með vistvænum hætti á vinnustað en heimilt er að greiða 7.500 kr. skattlaust á mánuði til þeirra sem skrifa undir samgöngusamning á vinnustað. Einnig gæti það verið vænlegt til árangurs að setja samþykkt um bílastæði samkvæmt 83. gr. umferðarlaga og taka upp gjaldskyldu á bílastæðum Mosfellsbæjar en það gæti dregið mikið úr styttri ferðum t.d. þær sem eru 1 km eða styttri. LHM leggur til að það verði skoðað og metið hverjar ferðavenjur eru á þessum stað í Mosfellsbæ og hvaða aðrar aðgerðir gætu skilað breyttum ferðavenjum og náð þannig markmiði um að bæta umferðarflæði og auka umferðaröryggi.
  4. LHM gerðu á sínum tíma athugasemdir við aðalskipulag Mosfellsbæjar og bentu á að eðlilegt væri að gera ráð fyrir aðalstíg sunnan Vesturlandsvegar frá undirgöngum við Skálatún og að undirgöngum við Varmá. Þetta náði ekki fram að ganga í aðalskipulaginu en samtökin benda eigi að síður á að stígur í þessari legu kemur í beinu framhaldi af stígum sem fyrir eru og skapar eðlilega, beina, greiða og auðrataða leið í gegnum bæinn. Hann styrkir jafnframt samgöngur hjólandi og gangandi innan bæjarins austan við Vesturlandsveg. Til greina kemur að leysa samgöngur gangandi og hjólandi sunnan Vesturlandsvegar með stíg sunnan við Lágafell.  Hæðarlega er hærri sunnan Lágafells en leiðin mundi liggja í mjög fallegu umhverfi og væri fjær umferð. LHM leggur til að möguleiki á stíg sunnan Vesturlandsvegar sem lægi norðan eða sunnan við Lágafell verði skoðaður í deiliskipulaginu. 
  5. LHM telja það mjög mikilvægt að leið hjólandi meðfram Vesturlandsvegi verði sem öruggust og að áhrif umferðar á Vesturlandsvegi á umferð á stofnstígum verði sem minnst. Gæta þarf sérstaklega að þverunum hjólandi og gangandi yfir þvergötur s.s. Skarhólabraut, Langatanga, Þverholt, Reykjaveg og Álafossveg. Tryggja þarf hjólandi beina og greiða leið yfir þessa vegi án hættulegra hindrana s.s. eins og hliða, grjóthnullunga og annars sem er sett á miðja stíga. Gera þarf ráð fyrir góðri lýsingu og fullnægjandi sýn við þveranir. Þar sem umferð er mikil gæti þurft að gera ráð fyrir umferðarljósum í framtíðinni. Huga þarf að hljóðvist á stígum og draga úr hávaða frá umferð eins og kostur er. Mikið er af kaldavermslum úr bergi í Mosfellsbæ og tryggja þarf að stígar séu með réttu kennisniði og að þeir seú ræstir og að vatn flæði ekki yfir stíga og frjósi að vetrarlagi.
með bestu kveðju
Árni Davíðsson
formaður LHM