Reykjavík 9. mars 2015
Endurskoðun hjólreiðaáætlunar – athugasemdir LHM.
Hér á eftir fara athugasemdir Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) við endurskoðun hjólreiðaáætlunar Reykjavíkurborgar.
Núverandi hjólreiðaáætlun – hvað hefur tekist vel?
Landssamtökin lýsa yfir ánægju með fyrirhugaða endurskoðun hjólreiðaáætlunar. Að mörgu leyti tókst mjög vel til með fyrstu hjólreiðaáætlun borgarinnar og hún hefur átt mikinn þátt í að vekja hjólandi samgöngur til vegs og virðingar. Af því sem vel hefur tekist til viljum við m.a. nefna eftirtalin atriði, sem alls ekki er tæmandi upptalning:
1. Borgin hefur verið dugleg að leggja stíga og margt verið ágætlega gert þar. Til dæmis Fossvogsstígur frá Ægissíðu inn í Elliðaárdal, stígur meðfram Suðurlandsbraut, stígur meðfram Sæbraut, Borgartúnið, Hverfisgatan, brýrnar yfir Elliðaárnar og stígurinn úr Mjódd í Lindir í Kópavogi. Einnig margar minni framkvæmdir sem of langt mál væri að telja upp.
2. Hjólreiðaáætlunin og almennur vilji borgarinnar til að gera vel í þessum málum.
3. Leiðbeiningar borgarinnar um hönnun fyrir reiðhjól, mjög mikilvægt og vel unnið.
4. Borgin hefur oft sýnt góðan vilja til samráðs og óskað eftir athugasemdum og umsögnum LHM.
5. Nokkrar stofnanir borgarinnar sýna mikinn áhuga og frumkvæði í samgöngumálum almennt og í hjólreiðamálum sérstaklega.
6. Borgin hefur bætt talningar og tölfræði yfir samgöngumáta.
7. Margar hugmyndir hafa komið fram um gerð hjólastíga hjá borginni og virðist þannig vera lifandi áhugi hjá mörgum stjórnmálamönnum og starfsmönnum að halda áfram.
8. Betri Reykjavík og beint fjármögnunarlýðræði í Betri Hverfi.
9. Nýtt aðalskipulag markar leiðina áfram og styður vel við hjólreiðaáætlun og hefur metnaðarfull markmið.
10. Snjóruðningur batnaði mikið í fyrra og í ár m.v. veturinn þar á undan.
11. Kynningarefni borgarinnar um hjólreiðar hefur miðað að því að sýna hjólreiðar sem hversdagslegan ferðamáta, frekar en stunduð í sérfatnaði og með sérbúnað.
Endurskoðuð hjólreiðaáætlun –Hvað má gera betur?
Við teljum að nokkur atriði sem beint tengjast hjólreiðaáætlun megi gera betur og ætti hugsanlega að skerpa á þeim atriðum í endurskoðaðri hjólreiðaáætlun. Einnig eru nokkur atriði sem snerta vinnubrögð innan borgarinnar og við framkvæmdir sem þyrfti að laga eða halda betur utanum.
Hugmyndafræði, samfella í vinnu og tengiliðum.
1. Hjólreiðaáætlunin hefur virkað hálft í hvoru munaðarlaus frá því að Pálmi Freyr sleppti af henni hendinni. Æskilegt er að hafa einn aðila í borgarkerfinu sem virkilega heldur utanum hana og framkvæmd hennar og reynir að tryggja að markmiðum hennar sé náð og reynir að fá alla í borgarkerfinu til að ganga í takt.
Tillaga: Búa til stöðu „Cycling Czar“ eins og í N.Y og fleiri borgum, það er vista hjólreiðaáætlunina hjá einum (eða fleiri) starfsmönnum sem hafa það hlutverk að halda utanum hjólreiðaáætlunina, hrinda henni í framkvæmd, fá hin ólíku kerfi borgarinnar til að ganga í takt og sjá til þess að mannvirki séu hönnuð samkvæmt leiðbeiningum borgarinnar. Gefa starfsmanninum nægan tíma til að sinna þessu hlutverki. Helst að hann starfi 100% að þessu. Annar kostur er að teymi innan borgarinnar hafi þetta hlutverk.
2. Borgin hefur verið dugleg í að leggja fé í stíga með tilstyrk Vegagerðarinnar en það vantar að einhver hluti af þessu fé (t.d. 1%) fari í “mjúku” málin eins og hvatningar til hjólandi (t.d. ljós, bjöllur, endurskin á ökkla o.fl.), leiðbeininga-, kynningar- og fræðsluefnis, P.R. vinnu o.fl., o.fl.
3. Æskilegt er að komið verði á föstu samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu innan vébanda SSH til að samræma stígamálin og samgöngumál gangandi og hjólandi.
4. Samgönguvika og aðrir viðburðir eru e.t.v. ekki nægilega sýnilegir meðal almennra viðburða á vegum borgarinnar. Þær virðast snúast mest um listviðburði.
Tillaga: Hafa betri og öflugari samskipti út af viðburðum sem snerta samgöngur.
5. Leggja áherslu á það að hjólreiðamenn séu a.m.k. tveir hópar eða kannski fjórir skilgreindir hópar, og að fólk geti tilheyrt þessum hópum eftir aðstæðum: Þau sem hjóla stundum á götum og vegum, og þau sem aldrei eða nánast aldrei hætta sér út á þá. Það mætti tala um: A. Ung börn, gamalmenni og annað fólk sem er óöruggt eða viðkvæmt + plús venjulegu fólki sem ekki treystir sér út á götum, eða sem stundum kýs að vera ekki á götu. B. Fólk sem hjólar til samgangna og “bjargar sér”, nema mögulega á stofnbrautum á háannatíma. C. Ferðafólk - sem geta verið mismunandi smeykir og ratvísir. D. Keppnis- og íþróttafólk sem fer mjög hratt yfir.
6. Hafa formlegt samstarf við LHM og gera eins og Klaus Bondam , fyrrum umhverfisborgarstjóri Kaupmannahafnar benti á, að gefa sum verkefni til LHM, ásamt fjármagni. Eða auglýsa til umsóknar, með tveggja ára ramma eða álíka. Dæmi : Gæðaeftirlit á hjólaleiðum. Borga fyrir ráðgjafastörf og að halda hjólatengda atburði, svo sem ráðstefnur eða kennslu í viðhaldi reiðhjóla og samgönguhjólreiðar.
7. LHM óskar eftir því að fá að koma með sín sjónarmið eða umsagnir við flestar framkvæmdir sem borgin fer í og varðar hjólandi umferð.
8. Ábendingakerfi borgarinnar „Borgarlandið“ gefur ekki kost á almennilegri endurgjöf eða upplýsingagjöf til þess sem tilkynnir um hvernig ábendingu hans reiðir af. Það væri betra að hafa opið ábendingarkerfi sem gerir þeim sem tilkynnir og öllum almenningi kost á að fylgjast með afdrifum og úrvinnslu ábendinga. Það má t.d. benda á SeeClickFix kerfið sem hefur þessa eiginleika en það geta önnur sveitarfélög líka notað.
9. Betri Reykjavík og Betri hverfi eru góð skref til aukins íbúalýðræðis en það mætti bæta úrvinnslu og endurgjöf til íbúa um afdrif tillagna þeirra. Þá væri eðlilegt að góðar tillögur sem rúmast ekki innan takmarkaðs fjárhags væru teknar til skoðunar og settar í framkvæmd síðar með fé af fjárhagsáætlun borgarinnar.
10. Nú er í gangi vinnu um að koma á fót hjólaleigukerfi. Þetta er vandasamt verk og gott að ræða útfærslur, möguleika og áskoranir við marga aðila, ekki síst LHM, og erlenda sérfræðinga. Það er sennilega flest óákveðið um útfærslu, en hjólreiðaáætlunin ætti kannski að innihalda nokkrar línur um þessi áform.
Hjólreiðar á verksviði allra - Cycling in all policies.
11. Mikil munur er á stofnunum borgarinnar í samgöngumálum. Borgin ætti að taka frumkvæðið og gefa öllum stofnunum færi á að gera samgöngusamninga og borga samgöngustyrki. Gera þyrfti kannanir á samgöngum starfsmanna á hverjum vinnustað og gera þetta að virkum þætti í umhverfismálum á hverjum vinnustað borgarinnar. Ætti að vera umhverfisstjóri/samgöngustjóri á hverjum vinnustað?
12. Bæta þarf samstarf við menntasvið borgarinnar og gera skoðanakönnun í hverjum skóla á samgöngum skólabarna og kennara.
13. Styðja betur við endurbætur í rammanum sem ríkið er með, lög, reglugerðir, samgönguáætlun. Ætti borgin að óska eftir aðild að Fagráði um samgöngur? Hvernig talar borgin einum rómi út á við með málflutningi sem styður markmið Hjólreiðaáætlunar. Eru verkferlar við umsagnir borgarinnar?
14. Efla uppbyggilegan málflutning, ekki síst gagnvart fjölmiðlum, til að útskýra enn betur þá vegferð sem flestar borgir virðast vera í, þar sem hjólreiðar eru mikilvæg lausn í samgönguskipulagi framtíðarinnar.
15. Innan stjórnsýslu bæði borgar, annarra sveitarfélaga og hjá ríkinu er mikill þekking á lausnum sem miða að bílaumferð sem ferðamáta, en skortur er eðlilega á þekkingu um hjólreiðar. Ætti borgin að styðja fjárhagslega við einhverskonar þekkingarsetur um hjólreiðar, mögulega tengt ReykjavíkurAkademíunni eða álíka?
Tillögur um aðgerðir
16. Nauðsynlegt er að hanna og setja upp vegvísakerfi við stígakerfi borgarinnar og alls höfuðborgarsvæðisins sem vísar mönnum leið með svipuðum hætti og vegvísar við vegi. Í Hjólreiðaáætlun ætti að koma fram hvernig slíku vegvísakerfi verði komið upp. Það þarf að hanna og setja upp í samvinnu við Vegagerðina og nágrannasveitarfélög. Búa þarf til nöfn á stíga sem ekki tengjast götum og gefa öllum stígum númer samkvæmt kerfi.
17. Hafa „græna bylgju“ á umferðarljósum þar sem eru komin umferðarljós fyrir reiðhjól, t.d. miðað við 16 km hraða.
18. Það væri gott að fá sjálfvirk umferðarstýrð umferðarljós á stíga með mikilli umferð með skynjara fyrir reiðhjól á gangbrautir yfir götur þar sem ýta þarf á hnapp til að fá grænt göngu/hjólaljós.
19. Annað þessu skylt er að gefa upp tímann fram að næsta græna ljósi, t.d. með niðurtalningu. Oft vita menn ekki hvort ljós koma sjálfkrafa eða hvort hnappur virkar. Mikilvægt er að notendur fái endurgjöf og skynji hvernig ljós virkar. Þetta kæmi sér einnig mjög vel fyrir gangandi vegfarendur og ekki síst fyrir ferðamenn.
20. Þá er viða um borgina umferðarstýrð umferðarljós á götum sem skynja illa eða alls ekki umferð reiðhjóla. Brýn þörf er á að laga þetta allstaðar til að auka öryggi og fækka tilvikum þar sem hjólað er yfir á rauðu ljósi.
21. LHM mælist til þess að fundinn verði betri og öruggari leið til að þvera stofnbrautir til að komast hjá tvískiptum þverunum gangandi og hjólandi yfir stofnbrautir með grindabúri á milli aksturstefna. Þetta er óþægilegt fyrir notendur, erfitt eða útilokað í snjóruðningi og talsvert hættulegt með mörgum 90 gráðu beygjum. Hjólandi umferð á að komast yfir akbraut í einni atrennu og leiðin á að vera án hindrana og beygja. Lausnir á þessu hljóta að vera til og ætti að leita t.d. til Hollands eftir þeim.
22. Viða um borgina eru hindranir á stígum sem skapa hættu og samkvæmt nýlegri úttekt Vegagerðarinnar hafa þær valdið ófáum slysum. Þetta eru t.d. gráir grjóthnullungar og gráar málmslár sem sjást illa t.d. í myrkri eða þegar snjóar yfir. Finna þyrfti aðrar leiðir til að stöðva óæskilega umferð, við sættum okkur betur við stöku bíl en slysagildrur. En að lágmarki ættu slíkar hindranir alltaf að vera vel sýnilegar í áberandi litum, upplýstar og með endurskini til að draga úr slysahættu. Rétt væri að staðla þær lausnir sem eru notaðar og nota frekar polla með ljósi og málaða með sýnileika-málningu.
23. Fá lit eða upphækkanir á þveranir á afreinar af stofnbrautum sem skera hjóla/göngustíga eins og af Kringlumýrarbraut/Engjavegur/Sigtún.
24. Það er enn erfitt að hjóla um miðbæinn nema brjóta lög. Oft er hjólað á móti einstefnu. Til að liðka fyrir væri gott að fá inn að hægt sé að leyfa hjólreiðar gegn einstefnu (liður 13).
Bætt framkvæmd
25. Í hönnun og lagningu nýrra stíga er ekki alltaf farið eftir leiðbeiningum borgarinnar um hönnun fyrir reiðhjól. Dæmi er um að útfærslan eða framkvæmdin sé hættuleg fyrir hjólandi og gangandi umferð. Í sumum tilfellum er varla hægt að komast hjá því vegna aðstæðna og samskipti við aðra umferð en í öðrum virðist um hugsunarleysi að ræða, ranga hönnun, illa framkvæmt, lélegt eftirlit og/eða ekki nógu góða öryggisrýni.
Tillaga: Gera þarf öryggisrýni á nýjum framkvæmdum til að: a) tryggja að farið sé eftir leiðbeiningum um hönnun og b) tryggja að útfærsla hönnunar sé eins örugg og hægt er miðað við aðstæður.
26. Á eldri stígum þarf að gera öryggisúttekt til að finna galla á hönnun og skort á viðhaldi þeirra. Meta þarf niðurstöður öryggisúttekta og gera áætlun um úrbætur. Flokka ætti úrbætur í flokkanna meiriháttar aðgerð, minniháttar aðgerð og viðhald. Meiriháttar aðgerðir ættu að koma í framkvæmdaáætlun vegna Hjólreiðaáætlunar og vera metnar og forgangsraðað. Minniháttar aðgerðir ættu í flestum tilvikum að vera metnar og forgangsraðað innan árs eða tveggja ára og vera lagaðar af fjárhagsáætlun ársins. Viðhald er eitthvað sem hverfisstöðvar geta gengið í eftir verkefnalista. Mikilvægt er að viðhaldsverkefni eins og trjáklippingar fari í gagnagrunn eða verkefnalista sem ekki gleymist, því margt af viðhaldinu þarf að framkvæma árlega eða á einhverra ára fresti.
27. Það kemur fyrir að verktakar og framkvæmdaaðilar vinna ekki verk eins og til er ætlast og koma fram gallar á framkvæmd stuttu eftir að þeim lýkur. Til dæmis að kennisnið stígs sé ekki eins og til er ætlast, frostlyfting skemmir stíg á fyrsta vetri, skil á nýju eða viðgerðu malbiki við eldra malbik sé óslétt o.fl.
Tillaga: Þekking verktaka og starfsmanna þarf að vera nóg til að framkvæma verk. Eftirlit með framkvæmdum þarf að tryggja að farið sé eftir hönnun og verk sé unnið eins og til er ætlast. E.t.v. þarf að útbúa leiðbeiningar fyrir eftirlitsaðila borgarinnar til að bæta eftirlit.
28. Við framkvæmd verka þarf að tryggja viðunandi hjálieiðir og að merkingar, öryggi og þægindi gangandi og hjólandi sé í lagi þegar framkvæmdir við götur og hús fara fram. Nú í mars 2015 er eitt slæmt dæmi og eitt betra að sjá á Hverfisgötu af þessu tagi.
29. Það má bæta utanumhald, öflun gagna og miðlun upplýsinga hjá borginni um tölfræði yfir samgöngumáta. Nú er komin einn hjólateljari og talið er á sniðum 4 sinnum á ári og gerð er skoðanakönnun á haustmánuðum (sem ætti að vera í oktober). Þar koma væntanlega inn gagnlegar upplýsingar en það þarf að miðla niðurstöðum meira og betur en nú er gert. Árstíðasveiflan í fjölda hjólandi er vel þekkt. Ferðavenjukönnun var gerð 2002, 2011 og 2014. Þær hafa smásaman verið að nálgast rétta árstímann en æskilegt er að gera Fvk. í sept/okt til að umferð alllra hópa hjólandi komi með. Þegar þær eru gerðar um miðjan vetur eru nær öll börn hætt að hjóla en fvk. nær niður í 6 ára aldur.
30. Skjól er mikilvægt fyrir hjólandi og gangandi umferð. Skjól er almennt þokkalegt í gróinni og þéttri byggð en mun minna í nýrri hverfum og úthverfum. Í Hjólreiðaáætlun væri hægt að fjalla um þennan þátt og borgin gæti látið gera áætlun um skjólmyndun með gróðursetningum.
Viðhald og þjónusta
31. Skemmdir eru bæði á stígum og sumum götum sem mikið er hjólað á (Laugavegur við Hlemm t.d., og fleiri stöðum þar sem þung umferð skemmir malbikið). Ný hjólreiðaáætlun ætti að stuðla að betri viðhaldi á þessu sviði.
32. Vetrarviðhald. Bæta þarf þjónustu á aðalleiðum þannig að snjó sé rutt þegar þörf er á, þá einnig seinnipart dags og bæta þarf vinnubrögð við moksturinn. Það eru t.d. enn brögð að því að tæki hossast vegna of mikils hraða og skilja eftir sig kamba af snjó. Þá þarf að laga ákveðna stíga sem erfitt er að ryðja vegna þess að þeir eru ósléttir eða vegna krapaelgs af völdum þess að þeir liggja neðar enn landið í kring (rangt kennisnið). Til framtíðar þarf að meta hvaða aðferðir gefast best til að ryðja stíga og hvort eða hvenær hálkuvörn sé æskileg.
Virðingarfyllst
f.h. stjórnar LHM
Árni Davíðsson
formaður umsagnarnefndar.
PDF Endurskoðun hjólreiðaáætlunar – athugasemdir LHM