Guðlaugur Þór, láttu gott af þér leiða.

Grein eftir Magnús Bergsson sem birtist í Morgunblaðinu 11. mars 2006

Guðlaugur Þór, láttu gott af þér leiða

Nú eru liðnir fjórir mánuðir frá því að Umhverfisþingi lauk. Þar lofaði Guðlaugur Þór í pallborðsumræðum að taka til skoðunar þingsályktunartillögu Kolbrúnar Halldórsdóttur sem miðar að því að koma hjólreiðabrautum í vegalög.
Hér er á ferðinni mál sem á ekki á nokkurn hátt að teljast flokkspólitískt. Í raun hefði Samgönguráðuneytið átt að taka það upp hjá sjálfu sér fyrir mörgum árum með hliðsjón af almennu umferðaröryggi og þeim breytingum sem orðið hafa í samgöngumálum þjóðarinnar.

Sagt er að Íslendingar séu 30 árum á eftir öðrum þjóðum í ýmsum efnum. Það á svo sannarlega við þegar kemur að samgöngum. Það er ekki til það Samgönguráðuneyti í nágrannalöndum okkar sem ekki lítur á hjólreiðar og hjólreiðabrautir sem hluta af fjölbreyttu samgöngukerfi nútíma samfélags. Er það ekki síst í ljósi þess að síðastliðin 10-30 ár hafa ráðamenn í vestrænum löndum áttað sig á því að einkabílavæðing almennings á sér enga framtíð.

Því miður hefur það verið svo, þegar fyrrnefnd þingsályktunartillaga hefur verið rædd á Alþingi, að stjórnarmeirihlutinn hefur ekki sýnt málinu áhuga, heldur þvert á móti, borið fyrir sig kostnaðarauka ef tillagan fengi brautargengi. Það bendir því til þess að þingmenn hafi ekki kynnt sér málið. Í raun felur tillagan í sér að endurskoða nokkra úrelta þætti í umferðar- og vegalögum sem varða umferð í þéttbýli.

Þeir sem ekki hafa áhuga á hjólreiðum munu eflaust halda að hér sé mál í uppsiglingu í líkingu við það þegar hestamenn komu reiðvegum í vegalög. En svo er alls ekki. Hér er ekki verið að tala um hjólreiðabrautir meðfram öllum vegum landsins eða upp um fjöll og firnindi. Hér er fyrst og fremst verið að ræða frekara val um samgöngur í þéttbýli og ekki síst að koma böndum á þá óreiðu sem nú ríkir í umferðar-og skipulagsmálum í þéttbýli vegna úreltrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Sem dæmi er Reykjavíkurborg nú þegar búinn að leggja fyrstu aðgreindu hjólreiðabraut landsins án þess að þeim hafi verið fundin staður í umferða- eða vegalögum. Hjólreiðabrautir munu fyrr en síðar þurfa meira og minna að samtvinnast akbrautum. Það er því með eindæmum ef Samgönguráðuneytið ætlar að hunsa hjólreiðar eins og það hefur gert fram til þessa. Hönnuðir umferðarmannvirkja eru þegar farnir að leiða hugann að hjólreiðabrautum en eiga í erfiðleikum með að vinna verkið þar sem allar verklagsreglur vantar hér á landi. Þeir hafa því þurft að leita til vinnureglna annarra landa til að móta gerð þeirra. Það er hins vegar ekki alls kostar heppilegt þar sem íslensk umferðarmenning er á allt öðru stigi en í nágrannalöndum okkar.

Hvers vegna Samgönguráðuneytið skilur ekki og lokar augunum fyrir mikilvægi hjólreiða þvert á það sem gerst hefur í nágrannalöndum okkar er ráðgáta. Vera má að hér sé bara á ferð áhuga- og þekkingarleysi þar sem ekki er um vélknúna umferð að ræða. Þó að mikill hluti umferðar í þéttbýli séu reiðhjól og gangandi fólk er lítið tillit tekið til þess í samgöngu- eða umferðaröryggisáætlana. Enda hefur aldrei verið haft samband við hagsmunaaðila við gerð þess háttar áætlana. Það hlýtur að teljast hagur Samgönguráðuneytisins að ganga svo frá málum að samspil allrar umferðar gangi greiðlega.

 

Hagkvæmur samgöngukostur

Í ört vaxandi borgarsamfélagi er ákaflega mikilvægt að almenningur eigi kost á vistvænum samgöngum með hollum hætti. Það er því ekki aðeins Samgönguráðuneytið sem ætti að sýna hjólreiðum áhuga heldur einnig Umhverfis- og Heilbrigðisráðuneytið. Fram að þessu hafa yfirvöld einblínt á vélknúnar samgöngur, sem oftar en ekki hafa bitnað á öðrum samgöngum. Sérstakar afmarkaðar hjólreiðabrautir myndu ekki einungis auka öryggi hjólreiðamanna, heldur líka gangandi vegfarenda þar sem hjólreiðar og umferð gangandi fólks á ekki samleið eftir sömu brautum. Þá er einnig ljóst að rýmra verður um bíla á akbrautum ef ökumenn kjósa að fara ferða sinna á hjóli. Greiðar og öruggar hjólreiðabrautir munu stuðla að aukinni notkun reiðhjóla sem samgöngutækis. Þær munu draga úr hávaða- og loftmengun, bæta lýðheilsu, minnka umferðartafir á álagstímum og auka lífsgæði borgarbúa.

Vandamál vegna stefnuleysis stjórnvalda í samgöngumálum verða sífellt alvarlegri. Það hefur liklega ekki farið fram hjá neinum að loftmengun frá bílaumferð er orðin allt of mikil. Hávaðamengun er eitt helsta umkvörtunarefni borgarbúa. Offita og hreyfingarleysi er nú þegar eitt helsta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar sem og losun gróðurhúsalofttegunda og almenn orkusóun.

Það hefur sýnt sig í skemmti- og heilsuátaki ÍSÍ sem kallast “Hjólað í vinnuna” að ekki vantar vilja almennings til þess að nota reiðhjól til og frá vinnu. Margir gefast hins vegar upp að lokum vegna aðstöðuleysis.

Hér gildir það sama og með sundlaugarnar. Ef engar væru laugarnar þá stundaði enginn sund. Það vantar fyrst og fremst öruggar og greiðfærar samgönguleiðir, ekki síst milli sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu svo að fólk geti valið reiðhjól sem samgöngutæki. Þetta er eingöngu pólitískur vandi.

Hér er ekki pláss til að sýna fram á arðsemi hjólreiðabrauta í tölum. En fyrir þá sem hafa áhuga á slíku geta fundið ýmislegt í greinasafni á vef Landssamtaka hjólreiðamanna. www.hjol.org. .
Ég hvet Guðlaug Þór til að efna loforð sitt frá því á Umhverfisþinginu í nóvember s.l. og koma þessu mjög svo þarfa máli í höfn. Er ekki kominn tími til að stjórnvöld sýni ódýrasta, vistvænsta og heilbrigðasta ferðamáta sem völ er á einhvern skilning.

Magnús Bergsson
Stjórnarmaður í Landssamtökum hjólreiðamanna

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl