Fundur með borginni vegna framkvæmdaleyfa

Nýlega áttu fulltrúar Hjólafærni og Landssamtaka hjólreiðamanna ágætan fund með fulltrúum Reykjavíkurborgar um afnot verktaka að borgarlandinu, einkum með áherslu á aðgengi hjólandi og gangandi vegfarenda.

Fundurinn var vinsamlegur og allir á einu máli að víða mætti betur fara, ekki síst þegar unnið er með þéttingu byggðar. Okkar óskir eru á þá leið að ævinlega skuli vera vel merkt hver sé að vinna verkið, hver sé eftirlitsaðili, hvenær verkinu ljúki og í stærri framkvæmdum sé sett fram kortlögð hjáleið og að gangandi og hjólandi vegfarendur séu settir í algjöran forgang þegar unnið er í þéttustu byggð borgarinnar.

Hér eru nokkrar myndir sem við höfðum með á fundinn sem dæmi um aðstæður sem ættu ekki að verða til í borgarlandinu – Borgarlandið Við hvetjum fólk til að láta Reykjavíkurborg vita af slæmri umgengni verktaka með því að hringja í þjónustuver borgarinnar í 411 11 11 eða með því að senda inn ábendingu á þessari slóð: https://reykjavik.is/abendingar Það sama á auðvitað við um önnur sveitarfélög og má láta þau vita með tölvupósti eða í síma.

Einnig megið þið gjarna miðla áfram til okkar hjá LHM og Hjólafærni inn í þetta skjal – Ábendingar vegna framkvæmda í kringum hjólastíga. Við gerum ráð fyrir að funda aftur með sömu aðilum í haust og skoða hvort aðstæður hafi lagast á þessum tíma.