„Reykjavík rankaði við sér fyrir fimm árum og fór að undibúa innviði borgarinnar og það er enginn vafi að það þarf að halda áfram á fullum dampi“ sagði Hjálmar Sveinsson m.a. í kynningu nýrrar hjólreiðaáætlunar. Hér er upptaka af því þegar Hjálmar Sveinsson, formaður Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur ásamt Þorsteini Hermannssyni og Ólöfu Kristjánsdóttur frá Mannvit kynntu nýja hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar 2015 - 2020.
Borgin leggur 350 milljónir árlega í framkvæmdir og núna er meira lögð áhersla á aðstæður hjólafólks, aðstæður við skóla, opinbera staði, merkingar og samræmingu hjólaleiða. Einnig verður gert átak í að kynna möguleika borgarbúa á hjólreiðum og til að auka hjólreiðar, t.d. til og frá skólum.
Hjólreiðaáætlun er skýrsla sem er gefin út af Umhverfis- og skipulagssviði og er ætlað að skapa umhverfi sem hvetur til hjólreiða þannig að Reykjavík verði betri hjólaborg. Skýrslan hefur verið kynnt í umhverfis- og skipulagsráði og borgarráði en ekki hlotið endanlega samþykkt. Hana má lesa hér: hjolaborgin.is
Ávarp borgarstjóra í kynningartexta fyrir Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar 2015 - 2020.
Hjólandi Reykjavík
Fjölbreyttar samgöngur eru mikilvægari í dag en þær hafa nokkurn tímann verið. Samgöngumátar á Íslandi eru fjölbreyttir og er það sveitarfélaganna og ríkisins að hvetja til þess að fólk ferðist í auknum mæli í strætó, gangandi — eða hjólandi. Hjólreiðar eru öðrum þræði umhverfismál en líka lýðheilsumál. Það er því best fyrir alla ef sem flestir hjóla.
Hjólreiðaáætlun var fyrst samþykkt í borgarstjórn 2. febrúar árið 2010. Hún er afrakstur mikillar vinnu allra flokka, starfsfólks umhverfis- og skipulagssviðs og síðast en ekki síst talsmanna og samtaka hjólreiðafólks. Tímamótasamstarf hefur líka tekist við Vegagerðina varðandi kostnaðarhlutdeild ríkisins í stofnstígum. Síðan hjólreiðaáætlun var samþykkt hefur verið unnið eftir henni með fjölgun hjólastíga, betri merkingum og öðru því sem miðar að því að auka hjólreiðar í Reykjavík. Í endurskoðaðri hjólreiðaáætlun sem hér er sett fram og gildir til ársins 2020 eru nokkur einföld mælanleg markmið. Það helsta er að hlutdeild hjólandi og gangandi árið 2020 verði a.m.k. 26% af öllum samgöngum og að hlutfall hjólaleiða af heildarsamgöngukerfinu verði 8%. Jafnframt verði árið 2020 hjólastæði, bæði hefðbundin og yfirbyggð við alla grunnskóla borgarinnar.
Að auki stefnum við að þónokkurri lagningu hjólastíga m.a. í Ártúnsholti, á Sundlaugavegi, Snorrabraut, Suðurgötu, Háaleitisbraut, Grensásvegi, Geirsgötu og Mýrargötu. Meðfram Bústaðavegi, Kringlumýrarbraut, Miklubraut, Hringbraut og Suðurlandsbraut. Sem sagt, meðfram helstu umferðaræðum og á stærstaatvinnusvæði borgarinnar. Að auki verður líka gert ráð fyrir hjólastígum við hönnun allra nýrra gatna á nýjum uppbyggingasvæðum og verður þá horft til þess að allir samgöngumátar fái sitt pláss, strætó, bílar, hjólreiðafólk og gangandi vegfarendur.
Það er mikilvægt að búið sé að endurskoða Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar. Þetta hefur verið ómetanlegur leiðarvísir í eflingu hjólreiða og uppbyggingu hjólreiðainnviða — og þótti nokkuð róttæk árið 2010 þegar hún var samþykkt fyrst. Nú höfum við skýrt markmiðin og aðgerðaráætlanirnar enn frekar þannig að Reykjavík verði fyrsta flokks hjólaborg. Undanfarin ár hefur nefnilega átt sér stað fremur hljóðlát bylting hjólreiða. Nú þegar eru um 9000 manns sem hjóla til og frá vinnu alla daga ársins og rétt tæplega 57 þúsund Reykvíkingar sem stunda hjólreiðar reglulega. Þessar tölur hafa verið að hækka hratt síðustu ár, og nú ætlum við að gera ennþá betur.