Á stíg dauðans

frettabladid-110119stigurÞað er margt undarlegt sett á diskana í Suður-Ameríku, en ég smakkaði bara bólivískan naggrís sem var hvarvetna grillaður lifandi fyrir framan mann. Reyndar náði ég ekki að skilgreina ógeðslegt bragðið, því ég var of meðvituð um hvað í munninum var,“ segir Katrín Helga Skúladóttir, sem í vetur gerði víðreist um Suður-Ameríku með æskuvinkonu sinni Andreu Ósk Gunnarsdóttir. Katrín Helga er flugmælt á spænsku eftir ár sem skiptinemi í Argentínu, en þær Andrea Ósk höfðu fyrir margt löngu ákveðið að leggjast í ferðalög eftir stúdentspróf. Fyrsta kastið varð Katrín Helga samt að strjúka á sér magann ef hún varð svöng þar sem málleysið var algert á báða bóga hjá skiptinemafjölskyldunni.

„Sem skiptinemi ferðaðist ég lítið, en við veiðar á píranafiskum sá ég að ævintýrin biðu mín ef ég færi um Suður-Ameríku á eigin forsendum. Mannlíf og menning Búenos Aíres kveikti líka í mér, en þar gengur fólk um syngjandi og dansar tangó á götum úti,“ segir Katrín Helga.

Heimsálfureisa vinkvennanna hófst í Argentínu í september en þaðan héldu þær að Iguazu-fossunum á landamærum Argentínu, Brasilíu og Paragvæ.

"Brasilía geymir fegurstu strendur heims að mínu mati. Við Andrea ferðuðumst því blint upp strandlengjuna og spurðumst fyrir hjá heimamönnum hvert gaman væri að fara utan fjölsóttustu ferðamannastaða. Eftir það héldum við mest til á litlum paradísareyjum þar sem fáeinar hræður bjuggu og friðsæld og fegurð ríkti. Þannig spiluðum við hvern dag af fingrum fram og ákváðum lítið sem ekkert fram í tímann," segir Katrín Helga, sem aldrei bókaði gistingu fyrir fram og hvíldist því á mishuggulegum farfuglaheimilum.

"Frá Brasilíu tókum við fljótabát þvert yfir Amazon, en ferðin tók sex daga. Sú lífsreynsla reyndi mest á okkur, því þótt náttúran væri falleg var vistin á bátnum ekki mönnum bjóðandi og með því erfiðasta sem ég hef upplifað. Við Andrea vorum einu ferðamennirnir um borð og fæstir höfðu séð ljóshært fólk áður. Því var mikið um óvelkomna snertingu á hári okkar. Um nætur sváfum við í hengirúmum þétt við næsta mann, með hengirúm fyrir ofan okkur og neðan, og ógeðslegar flugur sitjandi sem fastast á okkur. Sex klósett áttu svo að þjóna 300 manns og ekki hægt að sturta niður, sem segir sitt um fnykinn um borð," segir Katrín Helga og fitjar upp á nefið, en eftir bátsferðina fóru þær stöllur til Bólivíu þar sem helsta aðdráttarafl ferðamanna er Dauðastígurinn svokallaði sem var lengi vel eini vegurinn á milli Amazon-svæðis Bólivíu og höfuðborgarinnar La Paz. Nú er hann hluti af þjóðgarði og búið að loka sem aðalvegi en árlega fórust um 300 manns á þessum alræmda stíg.

"Dauðastígurinn var byggður af paragvæskum föngum í stríði Bólivíu og Paragvæ. Hann er mest þriggja metra breiður og hvergi vegrið, og þegar rignir breytist hann í foruga rennibraut með lausum steinum. Í dag fara hann aðallega ferðamenn á reiðhjólum og við þar engir eftirbátar, þótt við vissum ekkert hvað við værum að fara út í. Leiðin var svo vægast sagt hrikaleg, alls 69 kílómetrar niður á við, en margir ferðamenn hafa lent á hjólum með bilaðar bremsur og farið fram af, eða hjólað of hratt og skrikað í möl þar sem 600 metra þverhnípi beið þeirra," segir Katrín Helga, reynslunni ríkari.

Eftir ævintýri Bólivíu héldu vinkonurnar til inkaborgarinnar Machu Picchu í Perú og lítils fiskibæjar í Úrúgvæ þar sem þær slökuðu á við ströndina áður en þær nutu lífs og argentískra nautasteika fyrir heimferð í Búenos Aíres.

"Þetta var mikil keyrsla og skemmtileg. Suður-Ameríkuþjóðir eru þó orðnar meðvitaðar um að vel má græða á ferðamönnum. Þá stoppaði stundum ævintýraþrána að við vorum ljóshærðar og tvítugar, en við lentum samt aldrei í verulegri hættu," segir Katrín Helga, sem steig aftur fæti á fósturjörðina 20. desember.

"Þá hefði dugað mér að vera heima í viku, en ég er strax byrjuð að safna fyrir Asíureisu með kærastanum."

thordis @frettabladid.is


Grein úr Allt / Fréttablaðinu 19 janúar 2011

frettabladid-110119stigur2

frettabladid-110119stigur3