Kári viðurkennir að einhjólin séu ekki hentug í vetrarfærð, en segir þau mjög góðan kost á sumrin. "Mitt hjól er svokallað borgareinhjól, en það eru til ótal gerðir af þessum hjólum; listaeinhjól eins og þú sérð í sirkusum og danssýningum, fjallaeinhjól og ég veit ekki hvað."
En er ekkert erfitt að komast leiðar sinnar á einhjólinu? "Þetta er auðveldara en að ganga og maður fer hraðar yfir, er svona á skokkhraða. Það er erfitt í fyrstu að halda jafnvæginu, en það kemur fljótt. En ég verð nú samt að viðurkenna að þetta er eiginlega svona varadekk; ég nota einhjólið aðallega þegar tvíhjólið klikkar."
Enginn formlegur félagsskapur einhjólaeigenda er til á landinu, en Kári segist þó hafa eignast vini út á það eitt að eiga slíkt hjól. "Ég var einu sinni á einhjólinu úti á götu, á gangstéttinni auðvitað, og á gangstéttinni hinu megin var annar náungi á einhjóli. Við hrópuðum báðir: HEY!, snarstoppuðum og heilsuðumst og erum nú orðnir ágætis félagar."
Birtist í Fréttablaðinu 15. des. 2010