Vegna kostnaðar hyggst Landsnet leggja jarðstrenginn í sandinn en ekki meðfram þjóðveginum eins og Ölfus óskar eftir og gerir ekki ráð fyrir hjólreiðastíg.
„Lega jarðstrengsins verði nýtt fyrir hjólreiðastíg, óháð því hvort farið er um sandinn eða meðfram þjóðveginum,“ segir skipulagsnefndin og bendir á að í framtíðinni kunni skipulagi svæðisins að verða breytt. Þurfi þá að flytja jarðstrenginn verði það gert á kostnað Landsnets.
„Svæðið sem leggja á jarðstrenginn eftir yfir sandinn er á viðkvæmu svæði þar sem mikil hætta er á sandfoki. Undanfarin ár hefur verið unnið að landgræðslu á svæðinu og sandurinn bundinn til varnar sandfoki. Við framkvæmdina skal þess gætt að rof í jarðveg verði ekki til þess að sandfok geti aukist,“ segir skipulagsnefndin sem vill að skoðað verði að breyta rafmagnslínu í lofti frá Skötubót að Hafinu Bláa í jarðstreng.
Þetta mál verður athugað betur og frekari fréttir fluttar hér síðar.
Myndin hér að neðan sýnir þann radíus sem má hjóla út frá miðju Þorlákshafnar á um 6 mínútum en tengist ekki efni fréttarinnar að öðru leyti.