Notið bjölluna en reiknið ekki með að nokkur heyri

moggiUmferð um hjóla- og göngustíga á höfuðborgarsvæðinu hefur þyngst til mikilla muna undanfarna daga, ekki síst fyrir tilstilli átaksins Hjólað í vinnuna. Eftir því sem næst verður komist hefur umferðin gengið að mestu stóráfallalaust þrátt fyrir að hjólafólki sem ferðast oft á 30-40 km hraða sé víðast ætlað að fara um sömu stíga og gangandi vegfarendum. Mörgum hefur þó eflaust reynst erfitt að átta sig á því hvaða umferðarreglur gilda á stígunum.


Fjölnir Björgvinsson, formaður Fjallahjólaklúbbsins, segir alls ekki skýrt hvaða reglur gildi á þeim stígum þar sem göngustígnum er skipt á milli hjólastíga og göngustíga með heilli línu (2+1). Ljóst sé að hjólastígurinn sé alltof mjór til að hjól geti mæst á honum en þar sem línan sé heil megi, samkvæmt umferðarlögum, ekki fara yfir hana.

Borgin hafi reyndar heitið því árið 2007 að afmá þessa skiptingu en tafir hafi orðið því. »Það hefur mjög oft legið við slysum þegar tveir hjólreiðamenn geta ekki mæst á stígnum,« segir Fjölnir. Hættan eykst til muna þegar gangandi vegfarandi bætist í spilið. Fjölnir tekur dæmi um hjólreiðamann A sem víkur til hægri og inn á göngustíg vegna hjólreiðamanns B sem kemur á móti. Um leið kemur gangandi vegfarandi á móti hjólreiðamanni A og sá gangandi telur sig þurfa að víkja fyrir hjólreiðamanni A með því að fara inn á hjólreiðastíginn og þar með í veg fyrir hjólreiðamann B. Fjölnir segir að sökum þess hve hjólreiðareinin sé mjó sé hún í raun ónothæf.

2+1 er hálfgerður bastarður

Stefán Agnar Finnsson, yfirverkfræðingur hjá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar, segir að 2+1 skiptingin sé hálfgerður bastarður og hætt sé að merkja göngustíga með þeim hætti. Þegar engin hjólarein er á stígunum teljist þeir einfaldlega vera göngustígar og hjólreiðamönnum sé heimilt að hjóla þar um. Þeir verði þó að hafa í huga að skv. umferðarlögum séu hjólreiðamenn einskonar gestir á göngustígum og verði að taka fullt tillit til gangandi vegfarenda. Merktir hjólastígar séu á hinn bóginn ætlaðir hjólreiðamönnum og þar séu gangandi vegfarendur gestir.

Einar Guðmundsson, sérfræðingur á forvarnarsviði Sjóvár, hvetur hjólreiðamenn til að nota bjölluna til að vara gangandi vegfarendur við. Hann bendir á að ef hjólreiðamaður hjólar eftir göngustíg og gangandi vegfarandi stígur í veg fyrir hjólið, sé ábyrgðin á tjóni á herðum hjólreiðamannsins. Fjölnir Björgvinsson hvetur hjólreiðamenn sömuleiðis til að nota bjöllu en bætir við að þar sem margir hlusti á útvarp eða ipod, sé best að gera ráð fyrir að göngufólkið hafi ekki heyrt í henni.

Morgunblaðið 11. maí 2010

 


Sjá einnig myndasyrpu hjá Fjallahjólaklúbbnum þar sem fjallað er um þessar merkingar.

Nýtt frá LHM

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.