Kröfur til hjólreiðamannvirkja – ábyrgð Vegagerðarinnar

Margrét Silja Þorkelsdóttir

er verkfræðingur á hönnunardeild Vegagerðarinnar. Hún ætlar að segja okkur frá aðkomu Vegagerðarinnar að uppbyggingu hjólreiðamannvirkja en hún mun einnig koma inná samanburð á aðstæðum til hjólreiða hérlendis og í Svíþjóð.

 

Kröfur til hjólreiðamannvirkja – ábyrgð Vegagerðarinnar

Vegagerðin er veghaldari þjóðvega en sveitarfélög veghaldari sveitarfélagsvega og flestra almennra stíga. Samkvæmt 27. gr. vegalaga er að höfðu samráði við sveitarfélög heimilt að veita ríkisfé til almennra hjólreiðastíga meðfram umferðarmestu þjóðvegunum. Í erindinu verður greint frá þátttöku Vegagerðarinnar í uppbyggingu hjólreiðastíga og fyrirhuguðum breytingum á styrkveitingum.

Hjólreiðar koma við sögu í stefnumiðum og/eða áhersluatriðum sem lögð verða til grundvallar fjórum af fimm markmiðum samgönguáætlunar. Hjólreiðar á þjóðvegum hafa aukist samhliða aukningu ferðamanna en greint verður frá mögulegum úrlausnum til þess að bæta aðgengi og öryggi hjólreiðamanna utan þéttbýlis.

Samkvæmt vegalögum skal ákveðnum hluta vegafjár varið til rannsókna og þróunar ár hvert.  Að minnsta kosti 18 verkefni tengd hjólreiðum hafa verið styrkt af sjóðnum sl. 8 ár og eru niðurstöðurnar m.a. kynntar á vef Vegagerðarinnar. Þar að auki vinnur stofnunin að ýmsum sérverkefnum en í erindinu verður greint frá skýrslu um kortlagningu á brestum í  lagaumhverfi hjólreiða.Að lokum verður rætt stuttlega um samanburð á aðstæðum til hjólreiða hérlendis og í Skandinavíu.