Hjólreiðabrautir í vegalög

Kolbrún Halldórsdóttir fjallar í Morgunblaðinu um samgöngumál: "Þjóðhagslegur ávinningur af því að leggja góðar hjólreiðabrautir er ótvíræður og fjölgun þeirra sem velja vélarlausan farkost er því mikið hagsmunamál."

 

Sjá grein sem birtist í {japopup type="iframe" content="http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=828623" width="1000" height="600" }Morgunblaðinu 12. nóvember, 2004{/japopup}


Hjólreiðabrautir í vegalög

Á Alþingi bíður nú annarrar umræðu þingsályktunartillaga sem miðast að því að gera hjólreiðar að fullgildum kosti í samgöngumálum með því að koma ákvæðum um hjólreiðabrautir í vegalög. Sveitarfélög eins og Reykjavíkurborg hafa á undanförnum árum gert mikið átak í lagningu útivistar- og göngustíga. Það er þakkarvert því sýnilega hefur það aukið hjólreiðar í borginni. En slíkir stígar eru ekki hugsaðir út frá þörfum þess sem vill nota hjólið sem samgöngutæki.

Hjólreiðabrautir eru samgönguæðar

Í nágrannalöndum okkar byggja menn samgöngumannvirki með það í huga að hjólreiðamenn þurfi að eiga greiða leið um þau. Vinnureglur eru mismunandi milli landa en t.d. í Noregi er talið nauðsynlegt að leggja hjólreiðabrautir meðfram vegum sem taka við 18-20 þúsund bílum á sólarhring. Það sama gildir um vegi þar sem hámarkshraði er meiri en 60 km/klst og umferð ökutækja meiri en tvö þúsund bílar á sólarhring. Ef við yfirfærum þessa reglu á okkar aðstæður mætti búast við að leggja þyrfti hjólreiðabrautir meðfram helstu stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins, sem myndi þá gera hjólreiðafólki kleift að hjóla milli sveitarfélaganna á svæðinu. Slíkt er ekki hægt í dag nema með því að leggja sig í mikla hættu.
Hjólreiðabrautir eru ekki gangstéttir heldur samgönguæðar sem gerðar eru fyrir allt að 40 km hraða og lúta sömu lögmálum og akbrautir. Þær verða að vera greiðfærar, sýnilegar og öruggar svo almenningur líti á þær sem valkost gagnvart akvegum. Þar þurfa að ríkja samræmdar umferðarreglur og umferðarmerkingar svo að þeir sem nota jöfnum höndum akbrautir og hjólreiðabrautir þurfi ekki að fara eftir mismunandi reglum hvort heldur sem notaður er bíll eða reiðhjól. Þá þarf að ríkja fullt jafnræði milli hjólandi og akandi vegfarenda gagnvart hönnun umferðarmannvirkja. Líta verður á hjólreiðabrautir sem hluta af akvegakerfinu sem taki við hluta af daglegri umferð. Þá fá fleiri tækifæri til að ferðast með vistvænum, heilsusamlegum og ódýrum hætti.

Arðsemi hjólreiðabrauta

Aukin notkun reiðhjóla í samgöngum ætti að vera sjálfsagt mál í sveitarfélögum sem hafa innleitt Staðardagskrá 21 - dagskrá fyrir 21. öldina. Hjólreiðar eru líka órjúfanlegur hluti sjálfbærra samgangna, en Íslendingar hafa undirgengist slíka stefnu bæði á alþjóðavettvangi og líka á vettvangi Norðurlandanna. Með því að auka hlut reiðhjóla í umferðinni drögum við úr hávaða- og loftmengun og stuðlum að bættu heilsufari þjóðarinnar.
Því fleiri sem kjósa reiðhjólið því minna slit verður á akvegum og sé litið til þess hversu fáir eru í hverjum bíl má gera ráð fyrir að hver hjólreiðamaður fækki einkabílunum í umferðinni um einn, sem eykur aftur rými á akvegum fyrir þá sem í raun þurfa á bílum að halda. Þannig geta hjólreiðabrautir því aukið arðsemi akbrauta. Yfirvöld Kaupmannahafnarborgar hafa ákveðið að auka vægi hjólreiða úr 33% af heildarumferð í 40% á allra næstu árum. Á meðan hjólreiðamönnum hefur fjölgað þar um 21% hefur bílum aðeins fjölgað um 6% síðastliðin sex ár. Þannig má ná fram sparnaði í byggingu umferðarmannvirkja á landi sem er bæði dýrt og skynsamlegra að nýta undir annað.

Því betur sem staðið er að uppbyggingu hjólreiðabrauta, þeim mun betur nýtast þær undir farartæki sem ekki hafa náð fótfestu hér á landi vegna aðstöðuleysis. Má þar t.d. nefna rafmagnsreiðhjól sem henta fjölmörgum einstaklingum, s.s. eldra fólki og þeim sem vilja fá hjálp upp erfiðar brekkur. Vel gerðar hjólreiðabrautir henta vel til umferðarfræðslu. Almenn notkun barna og unglinga á þeim gæti því orðið góður grunnur fyrir ökunámið.

Heilsufarslegur ávinningur

Almenn notkun einkabíla á stóran þátt í því hreyfingarleysi sem í seinni tíð hefur skapað margvísleg heilsufarsleg vandamál. Ábyrgð stjórnvalda á að bjóða upp á aðra valkosti er því mikil. Í norskri skýrslu sem gefin er út af Transportøkonomisk institutte er niðurstaðan sú að arðsemi við gerð göngu- og hjólreiðabrauta er veruleg sé litið til heilbrigðisþátta. Í skýrslunni er varlega áætlað að hver nýr hjólreiðamaður spari samfélaginu 10 þúsund NOK á ári vegna heilsufarsávinnings. Í Odense í Danmörku, borg með um 120 þúsund íbúa, hefur verið unnið með markvissum hætti að því að auka hjólreiðar og ávinningurinn síðastliðin fjögur ár er 20% aukning hjólreiða og 33 milljónir DKK með bættu heilsufari almennings. Þetta átak er talið hafa bætt og lengt líf borgarbúa umtalsvert og dauðsföllum hjá aldursflokknum 15-49 ára hefur fækkað um 20%. Vakin er athygli á því að þessar tölur taka einungis til heilsufarsþátta.

Allir vinna

Þjóðhagslegur ávinningur af því að leggja góðar hjólreiðabrautir er ótvíræður og fjölgun þeirra sem velja vélarlausan farkost er því mikið hagsmunamál. Og þótt ekki sé hægt að gera ráð fyrir að vægi hjólreiða í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu verði það sama og í Kaupmannahöfn þá má segja að þótt þær verði ekki nema 10% af núverandi umferð, þá sé ávinningurinn mikill og vel í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði umhverfismála.
Kolbrún Halldórsdóttir fjallar um samgöngumál

Höfundur er þingmaður VG í Reykjavík.

 

 

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl