Reglnarugl á göngustígum

Grein eftir Magnús Bergsson sem birtist í Morgunblaðinu 28. júlí 2006. Fjallað um galla þess að skipta mjóan stíg með heildregna línu, og bara ræmu fyrir hjólreiðamenn.

Reglnarugl á göngustígum

Magnús BergssonEkki þarf oft að fara um göngustíga Reykjavikur, eða annarra sveitarfélaga, til að komast að því að þar ríkja fremur tilviljanakenndar umferðarreglur. Erfitt er að framfylgja hefðbundnum umferðarreglum. Þar eru margs konar vegfarendur sem fara um á mjög mismunandi hraða:  Hundar, lausir og í bandi, göngufólk, hlauparar, skokkarar, börn, eldri borgarar, fólk með barnavagna, á línuskautum og á reiðhjólum.  Í fyrstu mætti halda að það sé hið besta mál að fá sem mesta nýtingu göngustíga (og gangstétta). En göngustígar hafa ekki verið hannaðar með hjólreiðar í huga.  Því miður hefur það verið opinber stefna að hvetja hjólreiðafólk til að hjóla á göngustígum. Því er nú svo komið að flestir halda að hjólreiðamenn eigi að hjóla á göngustígum og gangstéttum.  Það þarf því oft að minna fólk á að hjólreiðamenn eiga samkvæmt umferðarlögum að hjóla á akbrautum. Þar eru þeir sýnilegir, þar eru samgöngur greiðar og þar gilda skýrar umferðarreglur. Hjólreiðamenn eru aðeins gestir á gangstéttum og mega t.d. ekki hjóla eftir gangbraut. Stjórnvöld hafa lagt mikla alúð við að bæta aðstöðu þeirra sem kjósa að fara ferða sinna á einkabílum. Nú er hins vegar öllum orðið ljóst að það hefur bitnað á öllum öðrum samgönguháttum. 
 
Fyrir u.þ.b. 15 árum fór Reykjavikurborg að merkja einstaka göngustíga með hjólareinum. (svonefndir1+2 stígar). Þessi ákvörðun var ekki vel ígrunduð því að með þessum framkvæmdum urðu allar umferðarreglur gangandi og hjólandi vegfarenda einungis ruglingslegri en áður. Reynslan hefur  sýnt að þessir 1+2 - stígar hafa ekki bætt öryggi vegfarenda, því að í stað þess að þar ríki einföld hægriregla gilda þar nú allt að 6 mismunandi umferðarreglur, eins og hér á eftir verður lýst. Þetta var ódýr en alröng tilraun til að koma til móts við óskir hjólreiðafólks sem bað um hjólreiðabrautir aðskildar frá göngustígum.
 

Óljósar umferðarreglur = minnkað umferðaröryggi

Dæmi um mismunandi umferðarreglur á göngustígum borgarinnar:

# Þegar hjólarein er ekki afmörkuð á göngustíg ríkir hefðbundin hægriregla og varúðarregla (eins og á akvegum).

# Hjólareinar eru svo mjóar, að hjólreiðamenn geta ekki mæst á þeim.  Ef hjólareinin er vinstra megin í ferðastefnu á að hjóla fram úr öðrum hjólreiðamanni honum á hægri hönd en gangandi vegfaranda er mætt vinstra megin. Ef hjólreiðamaður mætir eða hjólar fram úr öðrum hjólreiðamanni þarf hann vegna þrengsla á hjólastígnum að víkja til hægri út á göngustíginn.  Þetta veldur óvissri réttarstöðu hjólreiðamannsins ef slys verða.

# Þegar hjólareinin er hægra megin í ferðastefnu á hjólreiðamaður að halda sig sem lengst til hægri á stígnum.  Hann þarf hins vegar að víkja til vinstri og væntanlega út á göngustíginn þegar hann þarf að hjóla fram úr öðrum hjólreiðamanni.

# Á sama stígnum getur hjólareinin stundum verið hægra megin og annars staðar vinstra megin. Þar á milli er engin hjólarein eins og sjá má á Fossvogsstígnum.  Ástandið getur því verið mjög ruglingslegt og valdið öryggisleysi, einkum á meðan ekki hafa verið gefnar út neinar sérstakar umferðarreglur á stígum sem þannig er ástatt um.

# Á öðrum stígum getur hjólareinin birst og horfið eins og oft hefur gerst meðfram Sæbrautinni.  Hjólreiðamenn þurfa því ýmist að fara fram úr gangandi eða hjólandi umferð vinstra- eða hægra megin, allt eftir því hvort línan er til staðar eða ekki.  Þá er heldur ekki sama hvort gangandi eða hjólandi umferð er mætt, eins og áður segir.

# Þegar snjór liggur yfir stígum og merkingar eru huldar, ríkja óljósar umferðarreglur, enda ekki venjan að þar ríki staðfestar umferðarreglur.  Þeir sem muna hvorum megin hjólareinin er gætu verið á "röngum" stað í huga þess hjólreiðamanns eða göngumanns, sem þeir mæta og ætla að fylga hægri reglunni.

# Það orkar mjög tvímælis að merkja aðskilnaðarlínu með óbrotinni línu því að ljóst er, að tveir hjólreiðamenn geta ekki mæst eða verið samhliða á því þrönga svæði sem þeim er úthlutað. Það er lögbrot að fara yfir óbrotna linu.

# Ef slys verður, er skaðabótaskylda afar óljós og hætta á að hún verði dæmd eftir mismunandi sjónarmiðum þeirra, sem um málið fjalla.  Tryggingafélög dæma alltaf fyrst - væntanlega oftar en ekki - sér í hag

# Þau sveitarfélög sem merkt hafa stíga með 1+2 - línu hafa aldrei gefið út sérstakar umferðarreglur sem gilda á þessum stígum. Þau hafa hvorki haft umferðaröryggi í huga né heldur haft samráð við hagsmunaðaila.

Allt þetta reglnarugl getur ekki talist sérlega uppbyggjandi og ekki að furða þótt ruglið haldi áfram þegar fólk fer svo að aka bílum á vegum landsins

Í vetur sem leið féllst Reykjavíkurborg á beiðni Landssamtaka hjólreiðamanna að fjarlæga þessar línur sem afmarka hjólareinar á göngustígum. Verður það vonandi gert fyrir 40 ára afmæli "H-dagsins" 26. maí n.k. Í framhaldi af því mun borgin svo vonandi kynna í allt sumar hefðbundna hægrireglu á göngstígum um leið og hún hefst handa við lagningu nothæfra hjólreiðabrauta meðfram stofnbrautum borgarinnar.

Magnús Bergsson

 


Athugasemdir frá lesendum Morgunblaðsins


Sæll Magnús.

Ég las greinina þína í Mbl um "reglnarugl á göngustígum" og er þér hjartanlega sammála og þakka þér fyrir góða grein og ykkur hjólreiðamönnum fyrir það að línurnar verða fjarlægðar af göngustígunum.

Ég hjóla stundum og fer á línuskauta en geng mest.  Ég hef aldrei skilið skynsemina í því að hafa þessar sérstöku hjólabrautir merktar á göngustígana.

Mér finnst líka að hjólreiðamenn almennt eigi að vera tillitssamari þegar þeir taka fram úr gangandi fólki - þeir mega ekki koma á blússandi ferð - manni verður bylt við og maður gæti í sjokkinu stökkið fyrir hjólið og báðir stórslasast. Hjólreiðamenn hægjum á okkur og sýnum skynsemi og varúð á göngubrautum. Setjum öryggið í forgang og svo hafa menn bara gott af þeirri áreynslu sem fæst við að ná upp hraðanum aftur!

Það þarf að innræta fólki almenna reglu um göngustíga og að þar gilda í raun sömu reglur og í umferð á götum þ.e hægri umferð (og svo mega menn ekki vera með hundana lausa eða í löngu bandi!)

Sem sagt eina umferðarreglu á götum og göngubrautum og burt með rulg með reglur.

Kveðja, SJS yfirlæknir


Sæll Magnús. 

Ég reikna með að þú sért hjólamaðurinn sem ert með grein í Morgunblaðinu í dag og takk fyrir greinina - nú ef þú ert ekki sá aðili þá biðst ég forláts.

Erindið er að ég skrifaði grein í Fréttablaðið fyrir nokkrum árum (2003 eða 2004) sem hér fylgir og reyndar sendi ég hana líka til einhverrar nefndar á vegum borgarinnar sem á að fjalla um þessi mál.

Greinin kemur hér þér til fróðleiks:

Tilefni þessarar greinar er það fyrirkomulag sem er á sumum göngustígum borgarinnar að afmarka sérstaklega hluta göngu- og hjólastíga fyrir hjólandi vegfarendur.  Örugglega hefur hugsunin að baki þessa fyrirkomulags verið góð og trúlega reiknað með að umferðin yrði öruggari fyrir vikið.  Nýlega tók ég eftir að stofnuð hefur verið nefnd á vegum Reykjavíkurborgar sem á að skoða hvernig betur verði hægt að búa að hjólreiðamönnum og í því sambandi er nefnt hvort rétt sé að afmarka sérstaklega svæði fyrir hjólreiðafólk á göngustígum og gangstéttum.

Fyrir nokkrum árum notaði ég hjóla- og göngustíga mikið í Colorado í Bandaríkjunum nánar tiltekið í kringum þorpið Vail.  Fyrirkomulagið á þessum stígum fannst mér hreint til fyrirmyndar en þeir voru hins vegar ekki að finna upp hjólið heldur notuðu bara allar sömu reglur og gilda í almennri umferð fyrir vélknúin ökutæki.  Þarna gekk fólk og hjólaði hægra megin á stígunum og tók fram úr vinstra megin þ.e.a.s. ef engin umferð var á móti.  Á stígunum var miðjulína og þar gilti reglan um óbrotnar línur og brotnar eins og í umferðinni og einu sinni sá ég meira að segja skilti um blint horn framundan og annað um blindhæð

Mér kom þetta nokkuð skringilega fyrir sjónir í fyrstu en fljótlega var mér farið að líka afar vel við skipulagið.  Þarna gat ég allt í einu treyst því að sá sem kom á móti mér tæki ekki langan tíma í að ákveða sig hvoru megin hann ætlaði fram hjá mér þegar við mættumst.  Lengst var ég þó að venjast því þegar einhver byrjaði að kalla fyrir aftan mig og rétt á eftir hjólaði hann fram úr mér (vinstra megin) en eftir nokkur skipti fór ég að greina betur orðaskil og kallið var "to your left" sem mætti útleggjast "ég fer vinstra megin við þig" eða bara "vinstra megin".  Enn og aftur fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir slys og greiða fyrir umferð.

Það er ljóst að þegar afmarkaður er hluti göngustígar fyrir hjólreiðar og annar fyrir gangandi umferð þá er verið að vinna gegn þeirri umferðarreglu að hægri umferð sé notuð til að greiða fyrir umferð.  Einnig vakna margar spurningar um ágæti þessa fyrirkomulags eins og hvernig hjólreiðarmenn eiga að mætast á örmjórri hjólaakrein og eigum við að bæta við "í myrkri".

Einn flötur er á þessu máli sem mér finnst reyndar lang mikilvægastur en það eru uppeldisáhrifin á ungu vegfarendurna sem gjarna kynnast fyrst umferðinni sem einstaklingar á göngu- og hjólastígunum.  Hér er oft um að ræða mjög ung börn og hvers virði er að geta í tiltölulega vernduðu umhverfi þjálfað börnin í einföldustu umferðarreglunum sem þau þurfa hvort sem er seinna að kunna öll skil á svo þeim farnist vel.

Góðir Reykvíkingar við skulum líka taka upp hægri umferð á göngu- og hjólastígum borgarinnar og við það verður umferðin örugglega hættuminni og kemur til með að ganga greiðara fyrir sig.  Við skulum leggja af fyrirkomulag skiptingar milli hjólreiðafólks og gangandi á hjóla- og göngustígum og taka upp eðlilegar umgengnisreglur þar sem öllum er gert jafnhátt undir höfði og grunnreglur umferðarlaganna eru hafðar að leiðarljósi.
--
Kveðja

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.