Samgöngusamningar hvetja til vistvæns samgöngumáta

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og nokkrir starfsmenn ráðuneytisins skrifuðu í dag undir fyrstu samgöngusamningana sem ráðuneytið gerir við starfsmenn sína. Tilgangur þeirra er að hvetja til vistvæns samgöngumáta starfsmanna.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skrifaði undir fyrstu sex samningana og fleiri munu sigla í kjölfarið. Ráðherrann sagði við það tækifæri að með þessu væri ráðuneytið að leggja áherslu á að vera öðrum vinnustöðum fyrirmynd á þessu sviði.

Skrifað undir samgöngusamninga við starfsmenn samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.Í fyrstu grein samningsins eru starfsmenn hvattir til að nýta sér vistvænan samgöngumáta og er þar átt við að ganga, hjóla eða nýta almenningssamgöngur. Í annarri grein segir að þeir starfsmenn sem afsali sér rétti til að fá afnot af bílastæði á vegum ráðuneytisins eigi rétt á árlegum samgöngustuðningi í staðinn. Greitt verður andvirði árskorts í strætisvagna en starfsmönnum er frjálst að velja annan samgöngumáta.

Þá mun ráðuneytið bjóða starfsmönnum strætómiða og afnot af reiðhjóli til notkunar fyrir styttri ferðir vegna vinnu sinnar.

Í dag hófst átakið ,,Hjólað í vinnuna” og var ráðherrann í hópi þeirra sem hófu átakið formlega með hjólaferð sem byrjaði í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík.

Skrifað undir samgöngusamninga
Á myndinni eru frá vinstri: Sigurbergur Björnsson, Birna Hreiðarsdóttir, Kristján L. Möller, Marta Birna Baldursdóttir og Hermann Sæmundsson.

 


Frétt af vef Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins

Sjá einnig frétt á vísir.is