Hafsteinn Ægir Geirsson og María Ögn Guðmundsdóttir sigruðu í The Bluelagoon Challenge 2014
Frábær stemning var í The Blue Lagoon Challenge fjallahjólakeppninni sem fór fram í dag í 19. skipti. Veðrið lék við keppendur á Suðurnesjum í dag en hjólað var frá Hafnarfirði um Krýsuvíkurveg, inn Djúpavatnsleið, vestur Suðurstrandarveg og endað við Bláa lónið. Nýtt þátttakendamet var slegið er ríflega 600 keppendur fóru leiðina í dag sem er um 60 kílómetrar. Fjölmargir útlendingar lögðu leið sína til Íslands til að taka þátt í keppninni.
Aðstæður til keppni voru frábærar og lék veðrið við keppendur, hægur vindur og bjartviðri. Aðstæður í keppnisbrautinni voru góðar. Djúpavatnsleið var þó nokkuð grýtt á köflum en keppt var í rallý á veginum í morgun og reyndust sumar lausgrýttar brekkurnar mörgum keppendum erfiðar.
Keppnin gekk að langmestu leyti slysalaust fyrir sig þó var eitt viðbeinsbrot og nokkrir komu skrámaðir í mark.
Sigurvegari í karlaflokka var Hafsteinn Ægir Geirsson eftir harða baráttu við bræðurna Óskar og Ingvar Ómarssyni.
Í kvennaflokki sigraði María Ögn Guðmundsdóttir örugglega en Margrét Pálsdóttir og Kristrún Lilja Júlíusóttir böruðust um annað sætið, Margrét hafði betur.
Sú nýbreytni var í ár að halda keppnina síðdegis á laugardegi. Með því móti hafa keppendur Bláa lónið nánast útaf fyrir sig í lok keppninnar og myndaðist frábær stemning við verðlaunaafhendingu.
Nánari upplýsingar um keppnina á hfr.is og www.bluelagoonchallenge.com