Lagið La Bicicleta sem samið er og flutt af popstjörnunum Shakira and Carlos Vives frá Kólombíu vann tvenn verðlaun á Latin Grammy verðlaununum 2016. Það hlaut verðlaun fyrir plötu ársins og lag ársins.
Lagið blandar saman ýmsum tónlistarstefnum frá Kólombíu og Suður Ameríku eins og vallenato, pop, reggaeton og cumbia. Það hefur náð miklum vinsældum eftir að það var gefið út í sumar og t.d. er búið að horfa á það um 500 milljón skipti á Youtube þegar þetta er skrifað. Í texta lagsins koma reiðhjól við sögu og lagið og myndbandið vísar m.a. til hjólamenningar Kólombíumanna. Hjólreiðar eru vinsælar í Kólombíu og þetta land sem aðallega hefur verið þekkt fyrir kokain og glæpi í fjölmiðlum býr auðvitað yfir ríkri menningu í tónlist, dansi en einnig í hjólreiðum. Bæði höfuðborgin Bogota og borgin Medellin eru þekktar fyrir framsæknar lausnir í vistvænum samgöngum. Bogota var fyrsta borgin sem byrjaði með "Ciclovía", en þá er ákveðnum götum lokað fyrir bílaumferð en opnar fyrir aðrar samgöngur og skemmtanir á sunnudögum. Medellin var fyrsta borgin í Suður Ameríku sem tók upp hjólaleigukerfi, "EnCicla".
Við verðlaunaafhendinguna á sautjándu Latin Grammy hátíðinni sem fram fór í Las Vegas 17. nóvember sagði Carlos Vives. "Ég vil tileinka þessi verðlaun hjólreiðafólki og hjólreiðamennningu, sem er stolt allra Kólombíumanna. Það er hógvært fólk frá hógværum bæjum sem kasta miklum ljóma á landið okkar".
Við hjá LHM tökum auðvitað heilshugar undir þessi orð Carlosar og hlustum á lagið hér:
Byggt á frétt á vef Evrópsku hjólreiðasamtakanna ECF eftir Martin Tušl. LHM er aðildarfélag að ECF.