Sjá frétt á mbl.is 1/6/2008: Ósabraut ekki fyrir bíla?
Ósabraut ekki fyrir bíla?
Hjólastígur verður lagður frá Ægisíðu í Elliðaárdalinn og hjólaumferð skilin frá göngustígnum, en það er sennilega stærsta einstaka aðgerð í hjólreiðamálum í Reykjavík frá upphafi, að sögn Gísla Marteins Baldurssonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Stígurinn kostar 300 milljónir og tengist meðal annars inn á Suðurgötu, þar sem gerðar verða akreinar í báðar áttir fyrir hjólreiðafólk.
Lagt er upp með að næsta „risaskref“ í grænu skrefunum verði að breyta Reykjavík í hjólaborg og fjölga hjólreiðamönnum. Til þess segir Gísli Marteinn að fjölga þurfi hjólastígum og sérmerktum akreinum á götum fyrir hjólreiðafólk. Og hann vill að hugsað verði fyrir þörfum hjólreiðafólks þegar gerðar séu nýjar götur, ný hverfi og opinberar byggingar. Þannig vill hann að samhliða Sundagöngum verði ráðist í Ósabraut, en hún verði hugsuð fyrir gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk.
Ósabraut er í aðalskipulagi, en þar er gert ráð fyrir bílaumferð. Gísli Marteinn vill breyta því og segir að það eigi að leggja jafnmikinn metnað í að greiða götu þeirra sem ganga og hjóla og þeirra sem eru á bíl. „Með Ósabraut værum við að tengja stíginn við Sæbrautina við Grafarvog, Úlfarsfell og ytri byggðir,“ segir hann. „Ég held að hraðbraut yfir þessa fallegu ósa sé barn síns tíma, enda léttum við á umferð í Ártúnsbrekku með Sundagöngum. Við höfum hinsvegar tækifæri þarna til að bæta lífsgæði íbúanna og sendum skilaboð um það hvernig við viljum þróa samgöngur í borginni.“