Svör og viðbrögð stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs við þeim athugasemdum og ábendingum sem bárust við auglýsta tillögu að Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs og umhverfisskýrsluna sem henni fylgdi bárust með bréfi dagsett 8. september 2010. Þetta er sameiginlegt bréf til allra umsagnaraðila þar sem brugðist er við efnisatriðum athugasemdanna og er svar þjóðgarðsins við athugasemdum LHM m.a. að finna í bréfinu.
Lykilatriði í umsögn LHM var að hjólreiðar og ganga eru umhverfislega séð sambærilegir ferðamátar.
LHM væri því þeirrar skoðunar að almenna reglan ætti að vera sú að umferð reiðhjóla sé heimiluð á sömu leiðum og umferð gangandi. Þar sem umferð gangandi er mikil og þar sem hætt getur verið á landspjöllum í brekkum má annaðhvort banna umferð reiðhjóla, beina henni eftir annarri leið eða fyrirskipa að hjólið sé leitt niður brekkuna. Líklega verður umferð reiðhjóla ekki mikil fyrst í stað. Ef reynslan sýnir að umferð reiðhjóla vex mikið má bregðast við því á seinni stigum ef vandamál koma upp.
Í tillögum þjóðgarðsins var regla um að fjarri skipulögðum tjaldsvæðum væri einungis fólki sem ferðast fótgangandi með allan farangur sinn heimilt að tjalda hefðbundnum göngutjöldum til einnar nætur. LHM mótmælti þessu og benti á að rétt væri að þessi heimild væri bundin við alla óvélknúna umferð svo sem reiðhjól, enda nánast ógjörningur að komast á milli skipulagðra tjaldsvæða á reiðhjóli eftir sumum leiðum.
Umsögnina má lesa í heild í tenglinum hér að ofan.
Í svari Vatnajökulþjóðgarðs var ekki fallist á sjónarmið LHM um að ferð með reiðhjól væri heimil allstaðar þar sem gangandi fólki væri heimil för en tillit var tekið til sjónarmiða LHM um að fólk á reihjóli megi tjalda eins og gangandi enda komast hjólreiðamenn ekki á milli skipulagðra tjaldsvæða á einum degi.
Í svarinu segir um hjólreiðar:
"Hjólreiðar
Almennar reglur um umferð reiðhjóla í tillögu að Stjórnunar- og verndaráætlun eru samhljóða ákvæðum reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 608/2008 en þar kemur skýrt fram að umferð reiðhjóla er heimil á vegum, bílastæðum og merktum reiðhjólaleiðum og á þeim göngustígum þar sem ekki gilda sérstök bönn. Hjólreiðamenn eru því bundnir við þessar leiðir og hafa ekki sama frelsi og göngufólk til að fara um að vild þar sem leiðir eru ekki merktar sérstaklega. Stjórn þjóðgarðsins er bundin af þessum ákvæðum reglugerðarinnar við mótun Stjórnunar- og verndaráætlunar."
Um tjöldun hjólreiðamanna segir í svarinu:
"Um þetta gildir 10. grein reglugerðar nr. 608/2008 þar sem segir: “Fjarri skipulögðum tjaldsvæðum er fólki sem ferðast fótgangandi með allan farangur sinn þó heimilt að tjalda hefðbundnum göngutjöldum til einnar nætur.” Þessi takmörkun hefur því verið í gildi í tvö ár. Stjórn þjóðgarðsins getur ekki farið framhjá þessu ákvæði í Stjórnunar- og verndaráætlun en mun fara fram á það við umhverfisráðuneytið að ákvæðið verði rýmkað. Á hinn bóginn telur stjórn þjóðgarðsins að heimild reglugerðarákvæðisins nái þó einnig til þeirra sem ferðast á reiðhjóli enda fara þeir fyrir eigin afli og fara svo hægt yfir að ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að þeir nái milli skipulagðra tjaldsvæða á einum degi."
Svar Vatnajökulsþjóðgarðs má lesa í heild í tenglinum hér að ofan.
Stjórnunar- og verndaráætlunin er á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs.