Athugasemdir LHM við orðalag í slysaskýrslu 2016

Í skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys á Íslandi árið 2016 gerir LHM nokkrar athugasemdir við orðalag í skýrslunni til að hægt sé að lagfæra orðalag í framtíðinni svo við lendum ekki í öðrum eins fréttaflutningi og síðast þegar slysaskýrsla var gefin út.

Í fyrsta lagi þar sem notað er annað orðalag um slys hjólandi en annarra vegfarenda í kafla 1.6.2 Tegundir alvarlegra slysa og banaslysa. Þar er sagt „Reiðhjólamaður fellur“ en um aðra vegfarendur er notað orðalag eins og „Fall af bifhjóli“, „Hliðarákeyrsla“ o.s.frv. Með þessu er reiðhjólamaðurinn settur fram sem gerandi en ef bifreið eða bifhjól á (oftast) í hlut er engin ákveðin gerandi en notað hlutlausara orðalag þar sem ekki er settur fram gerandi í slysinu.
 
Í öðru lagi í kafla 1.6.3 Valdar orsakir slysa með meiðslum þar sem segir að „Hjólreiðarmaður“ valdi slysi í 91 tilviki en með því orðalagi er reiðhjólamaður aftur settur fram sem gerandi en í öllum öðrum völdum orsökum er notað hlutlausara orðalag eins og „Svefn“, „Slæm færð“ o.s. frv. sem felur í sér að engin gerandi beri ábyrgð á slysinu. Þessi framsetning er meiðandi fyrir ökumenn reiðhjóla því gefið er í skyn að þeir séu eins stærsta orsök umferðarslysa. Þessa framsetningu hefur verið notað til að þyrla upp moldviðri í fjölmiðlum með röngum fréttaflutningi [1].
Að öllum líkindum eru flest þessi 91 tilvik fall af reiðhjóli og geta verið ýmsar orsakir fyrir því og má jafnvel efast um að orsök slyss sé nægjanlega vel rakin í lögregluskýrslum til að kveða ótvírætt á um orsakir slyss. Í lögregluskýrslum er tiltekið að hjólreiðamaður hefur fallið en það er sennilega sjaldnast leitað að holu, kanti, steinum og möl sem getur verið orsök falls. Nákvæmari greining Vegagerðarinnar á alvarlegum slysum virðist gefa mun sannari mynd af orsökum slysa [2]. Sænsk rannsókn bendir líka til þess að yfirborð vegar eða stígs eða önnur atriði skipti oft mestu máli fyrir þau slys þar sem fall verður af reiðhjóli[3].
 
LHM fer því fram á að þessu orðalagi verði breytt og notað frekar orðalag eins og „Fall af reiðhjóli“ ef við gefum okkur að flest þessara 91 tilvika sé einmitt vegna falls.
 
Bréf LHM með tengla á skýrslur: