Notkun stofnstíga hjólreiða - Elín Ríta Sveinbjörnsdóttir

Skilgreindar hafa verið lykilleiðir hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu sem hafa það markmið að fjölga hjólreiðafólki og bæta þjónustu við hjólreiðafólk. Lykilleiðirnar tengja saman sveitarfélög og hverfi og gera stofnstígakerfið að raunverulegum valkosti sem samgöngumáta svo að hægt sé að hjóla allan ársins hring.

Úttekt var gerð á stofnstígakerfinu og fjöldi og hraði hjólreiðamanna greindur. Talningar ásamt hraðamælingum úr níu teljurum á höfuðborgarsvæðinu voru skoðuð og teknar saman niðurstöður á fjölda hjólreiðamanna á dag, hverri klukkustund ásamt dreifingu hjólreiðamanna yfir sólarhringinn. Niðurstöðurnar sýna að mikill munur er á fjölda og hraða hjólreiðamanna eftir staðsetningu. Flestir hjóluðu fram hjá teljaranum við Nauthólsvík eða um 800 hjólreiðamenn á virkum degi í september. Áberandi var hærra hlutfall í fjölda hjólreiðamanna á virkum dögum en um helgar, ásamt því var umferð árdegis og síðdegis afgerandi í sólarhringsumferðinni. Draga má þá ályktun að stígarnir eru mikið notaðir sem samgöngustígar. Hraðast fara hjólreiðamenn við Nauthólsvík og Geirsnef þar sem 80% hjólreiðamanna hjóla yfir 25 km/klst hraða. Hjólað er á öllum stöðunum hraðar á virkum dögum en um helgar og lítill hraðamunur er á hjólreiðamönnum í september og yfir vetrarmánuðina á flest öllum talningastöðunum.

Útfærsla stíganna var kortlögð og var yfir 70% af stofnstígakerfinu sameiginlegir stígar þar sem hjólreiðamenn deila stíg með gangandi vegfarendum. Hjólreiðamönnum ber að víkja fyrir gangandi vegfarendum á göngustígum samkvæmt umferðarlögum. Samkvæmt drögum að hönnunarleiðbeiningum fyrir hjólreiðar á stofnleið ekki að vera sameiginlegur stígur með gangandi vegfarendum. Yfir 70% af stofnleiðum hjólreiða uppfylla því ekki kröfur leiðbeininganna eða um 90 km af stofnstígakerfinu.

Elín Ríta Sveinbjörnsdóttir varði meistararitgerð sína í skipulagsfræði við Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands fyrr á þessu ári, verkefnið nefnist ÖRUGGARI HJÓLALEIÐIR Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU - Notkun stofnstíga hjólreiða og flokkun þeirra. Megin markmið verkefnisins var að gera úttekt á notkun stofnstíga hjólreiða á höfuðborgarasvæðinu og greina fjölda og hraða hjólandi vegfarenda á stígunum.
 
Elín Ríta er byggingartæknifræðingur og skipulagsfræðingur hjá Eflu verkfræðistofu og vinnur á umferðar- og skipulagsviði stofunnar. Hennar helstu verkefni hafa verið á sviði umferðartækni, umferðarskipulags- og umferðaröryggismála.

 

Upptaka

 

Glærur

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Stuðningsaðilar ráðstefnunnar