Framtíðarsýn Miðgarðs - Magnús Jensson

 

Markmið Byggingarsamtakanna Miðgarðs er að fá reiti sem liggja miðsvæðis og vel við almennningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og byggja þar þétta, lágvaxna og vistvæna byggð þar sem aðrir samgöngumátar en bíllinn hafa forgang. Miðgarður stendur í viðræðum við Reykjavíkurborg um lóðavilyrði í Bryggjuhverfi vestur. Magnús Jensson arkitekt og formaður Miðgarðs mun kynna sýn samtakanna.

 

Sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu; lof og lausnir - Árni Davíðsson

Sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu; lof og lausnir

Undanfarin 10 ár má segja að það hafi verið lyft Grettistaki í aðstöðu fyrir hjólreiðar og aðra virka samgöngumáta á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem áður voru engar leiðir milli sveitarfélaga og hverfa nema stofnbrautir er nú komið stígakerfi sem teygir sig frá Mosfellsbæ í norðri að Hafnarfirði í suðri og frá Seltjarnarnesi í vestri að Heiðmörk í austri. Það er samt enn verk fyrir höndum að klára stofnstígakerfið. Bættu stígakerfi fylgja líka önnur vandamál sem tengjast því að notkun þess hefur stóraukist og meiri kröfur eru nú gerðar til þess enn menn gátu ímyndað sér. Auknar kröfur eru nú gerðar um að stígakerfið og þjónusta við það sé til jafns við gatnakerfið og að hægt sé að nota það árið um kring án hindrana. Í erindinu verður reynt að stikla á stóru í hvar vel hefur tekist og hvar megi bæta úr.

Samgönguspor - Daði Baldur Ottósson

Vinnustaðir spila mikilvægt hlutverk til að hvetja starfsmenn til að ferðast vistvænt til og frá vinnu. En hvernig fara vinnustaðir að því? Nú þegar hafa fjölmörg fyrirtæki og stofnanir innleitt samgöngustefnu og samgöngusamning. Hver eru áhrif þess að innleiða samgöngustefnu til að hvetja starfsmenn til að ferðast vistvænt, og hvað getum við gert betur en við gerum í dag.

Daði Baldur Ottósson, er samgönguverkfræðingur á EFLU verkfræðistofu.