Albert Jakobsson hefur verið hjólandi frá því hann var 7 ára. Hann var atvinnuhjólreiðamaður 11 ára gamall þegar hann gerðist reiðhjólasendill og ferðast með böggla á milli Mjóstrætis og Suðurlandsbrautar. Það var með góðfúslegu leyfi foreldranna. Hann hefur frá því Hjólreiðafélag Reykjavíkur (HFR) var endurvakið árið 1980 gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir félagið og manna mest stuðlað að eflingu keppnishjólreiða á Íslandi. Hann hefur tekið þátt í stjórnarstörfum og þjálfun í HFR og varið meira og minna öllum sínum frítíma þar og verið öðrum mikil hvatning. Fyrstu árin var hann mjög ánægður ef 20-30 manns mættu á æfingar og mót. HFR hefur verið fremst í flokki að halda keppnir, komið á unglingastarfi og átt í samstarfi við nágranna okkar og hefur Albert verið leiðandi í þeirri vinnu.
Hjólreiðafélag Reykjavíkur er íþróttafélag innan Íþróttabandalags Reykjavíkur. Markmið HFR er að efla hjólreiðar sem íþrótt á Íslandi. Félagið stendur fyrir keppnum bæði á fjalla- og götuhjólum, auk þess sem á vegum félagsins eru stundaðar æfingar reglulega. Hjólreiðafélag Reykjavíkur er u.þ.b. 70 ára gamalt og hefur verið virkt af og til þann tíma. Félagið hefur staðið fyrir flestum hjólreiðakeppnum sem haldnar hafa verið hérlendis á þessum 70 árum og krýnir á hverju ári bæði Íslands- og bikarmeistara í bæði fjalla- og götuhjólreiðum.