Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkur kynnti LHM tillögur að hjóla- og gönguleið meðfram Laugavegi og Suðurlandsbraut frá Hlemmi að Sæbraut og óskaði eftir athugasemdum og þær má lesa hér: Athugasemdir LHM við hjólaleið meðfram Laugavegi og Suðurlandsbraut.
Hér má svo sjá kynningu á forhönnun leiðarinnar og teikningar sem sýna helstu breytingar t.d. göng undir Reykjaveg sem átti að gera leiðina mun flatari en sú framkvæmd er undanskilin í þessum áfanga amk. samkvæmt frétt á mbl.is.
Hjóla- og gönguleið meðfram Laugavegi og Suðurlandsbraut.
Í umsögn LHM segir meðal annars:
Samtökin eru hlynnt fyrirhuguðum framkvæmdum. Þær samræmast stefnu LHM og þeirri vitneskju sem við höfum um leiðir sem hjólreiðamenn velja sér. Þær eru og í samræmi við tillögur að hjólaleiðum á höfuðborgarsvæðinu sem LHM hefur verið að vinna að. Þar heitir ein leiðin „Suðurlandsbraut“ og nær frá Hlemmi að Elliðavogi um 3,8 km leið. Þau verk sem nefnt er í þeirri áætlun að þarf að gera eru að: „Uppfæra stíg , laga gatnamót, tengja“ sem eru þau verk sem hér eru lögð til en auk þess er hér gert ráð fyrir undirgöngum undir Reykjaveg.
Einnig látum við fylgja mynd sem sýnir hlutfallslega dreifingu þáttakenda á hjólaleiðum í Hjólað í vinnuna átakinu 2011. Eins og sést er þessi leið mjög fjölfarin og því vel til fundið að bæta aðstæður gangandi og hjólandi á þessari leið og aðskilja umferð þeirra, enda fer hún illa saman á þröngum stígum með þetta mikilli umferð.