Ályktun umferðarráðs um hjólreiðar

Umferðarráð samþykkti eftirfarandi ályktun um hjólreiðar og gagnkvæma tillitssemi 14.maí

Umferðarráð vill minna á sívaxandi hóp fólks sem notar reiðhjól sem samgöngutæki og hjólar eftir götum eins og lög segja til um. Nú eru yfir 7000 þáttakendur í keppninni "Hjólað í vinnuna". Ökumenn bifreiða eru hvattir til að virða rétt þeirra og sýna tillitssemi. Reiðhjól eru ökutæki í umferðinni sem fara oftast hægar en bifreiðar. Ökumenn bifreiða þurfa að gefa reiðhjólafólki nægjanlegt rými þegar þeir taka framúr. Þar sem aðstæður á götum eru þröngar eiga bílstjórar að bíða með framúrakstur þar til það er öruggt. Hjólreiðamönnum ber að sýna annarri umferð fulla tillitssemi og hleypa hraðskreiðari umferð framúr, þegar það er óhætt. Ennfremur að virða forgangsrétt gangandi vegfarenda á gangstéttum og á blönduðum útivistarstígum.

Textinn er  kominn frá Landssamtökum hjólreiðamanna, og feitletrunin  bætt við við birtingu hér. Fulltrúi okkar sá að þegar stjórnin vildi álykta um bífhjóla væri ekki síður tækifæri til að benda á samskipti  bílstjóra og hjólreiðamanna, og undirstrika rétt hjólreiðamanna á götum og gagnsemi. En að sjálfsögðu eiga hjólreiðamenn líka að sýna tillitssemi. Umferðin er samstarf.

Hér fylgja allar ályktanir Umferðarráðs 14. maí í heild og í samhengi :

 

Álykanir 227. fundar Umferðarráðs 14. maí 2009

Vegna breyttra aðstæðna í efnahagsmálum hér á landi má búast við að fólk ferðist meira innanlands en utan á komandi sumri. Fyrir bragðið má búast við aukinni bílaumferð sem hefur mögulega hættu í för með sér. Á tveimur undanförnum árum hefur átt sér stað jákvæð þróun varðandi fækkun banaslysa í umferðinni, en aldrei hafa þau orðið færri tvö ár í röð á síðustu 40 árum. Fjöldi látinna í umferð á hverja 100.000 íbúa á þessu tímabili er hvergi lægri í Evrópu en á Íslandi. Vonandi tekst að halda áfram á sömu braut á þessu ári með aukinni vitund fólks um mikilvægi ýmissa öryggisþátta í akstri. Engu að síður hefur alvarlega slösuðum fjölgað síðustu árin. Helstu ástæður eru of mikill umferðarhraði, ölvunarakstur og vanræksla á notkun bílbelta. Til þess að sporna við þeirri þróun varar Umferðarráð við niðurskurði fjármagns til Umferðarstofu en afleiðingin af því er m.a. skert umferðarfræðsla til barna og umferðaráróður í fjölmiðlum. Þá hvetur Umferðarráð stjórnvöld til þess að auka umferðarlöggæslu á vegum landsins í sumar vegna aukinnar umferðar. Einnig hvetur Umferðarráð alla þá sem leið eiga um vegi landsins að leggja sitt að mörkum svo takast megi að fækka alvarlegum umferðarslysum.
Bifhjólum í umferð hér á landi hefur fjölgað gífurlega á undanförnum árum. Í árslok árið 2000 voru 2.278 bifhjól skráð hér á landi, en í lok síðasta árs voru þau 9.009. Alvarlega slösuðum bifhjólamönnum hefur einnig fjölgað mikið á sama tímabili. Því er það sameiginlegt viðfangsefni bifhjólamanna og ökumanna bifreiða að gefa auknu umferðaröryggi gaum. Báðir aðilar þurfa að hafa sívakandi athygli og sjái bílstjóri bifhjól þarf hann alltaf að vera sérstaklega vel á verði. Hann þarf alltaf að líta tvisvar til hliðar og fylgjast nákvæmlega með hreyfingum bifhjólsins. Á sama hátt er grundvallaratriði að ökumenn bifhjóla aki á löglegan hátt, séu í hlífðarfatnaði og fylgi hámarkshraðareglum. Með því gera þeir sitt til að auka öryggi í umferðinni.
Umferðarráð vill minna á sívaxandi hóp fólks sem notar reiðhjól sem samgöngutæki og hjólar eftir götum eins og lög segja til um. Nú eru yfir 7000 þáttakendur í keppninni "Hjólað í vinnuna". Ökumenn bifreiða eru hvattir til að virða rétt þeirra og sýna tillitssemi. Reiðhjól eru ökutæki í umferðinni sem fara oftast hægar en bifreiðar. Ökumenn bifreiða þurfa að gefa reiðhjólafólki nægjanlegt rými þegar þeir taka framúr. Þar sem aðstæður á götum eru þröngar eiga bílstjórar að bíða með framúrakstur þar til það er öruggt. Hjólreiðamönnum ber að sýna annarri umferð fulla tillitssemi og hleypa hraðskreiðari umferð framúr, þegar það er óhætt. Ennfremur að virða forgangsrétt gangandi vegfarenda á gangstéttum og blönduðum útivistarstígum.