Í erindinu verður sagt frá verkefni sem VSÓ Ráðgjöf hefur tekið saman fyrir aðalskipulag Skútustaðahrepps um hjólaleið umhverfis Mývatn. Greint verður frá hvernig leiðin var teiknuð upp og skilgreind með hagsmunaaðilum. Farið verður yfir helstu þætti í tillögunni og greint frá forsendum, skipulagsviðmiðum og öryggissjónarmiðum í tengslum við verkefnið. Hugmynd um hjólastíg umhverfis Mývatn er ekki ný og þó hún hljómi nokkuð einföld er nauðsynlegt að huga vel að undirbúningi og öllu skipulagi til að veita áhugaverða örugga upplifun sem hægt er að markaðssetja.
Það má gera ráð fyrir að þeim verkefnum fari fjölgandi sem sveitarfélög og Vegagerð þurfa að sinna varðandi uppbyggingu öruggra og greiðra leiða fyrir hjólreiðafólk. Það módel og sú hugmyndavinna sem var sett saman í þessu verkefni á að geta nýst í skipulagi hjólastíga í dreifbýli fyrir fleiri sveitarfélög.
Fríða Björg Eðvarðsdóttir starfar sem landslagsarkitekt hjá VSÓ Ráðgjöf. Fríða lauk námi í skrúðgarðyrkju frá Garðyrkjuskóla ríkisins i og landslagsarkitektanámi frá háskólanum Guelph í Kanada. Fríða hefur áratuga reynslu af skipulagsmálum sveitarfélaga og spannar starfsferill hennar bæði ráðgjöf hjá opinberum aðilum og í einkageiranum. Jafnframt störfum sem landslagsarkitekt hefur Fríða lokið leiðsögunámi og unnið við ferðaþjónustu. Hjá VSÓ Ráðgjöf hefur Fríða sinnt verkefnum í skipulagsgerð, landslagsmótun og unnið að hugmyndum og módeli við greiningu og skipulag ferðamannavega.