Deiliskipulag í Arnarnesi - Athugasemdir LHM

Garðabær auglýsti nú í sumar tillögu að deiliskipulagi íbúðarbyggðar í Arnarnesi. Deiliskipulagstillagan var sett fram á tveimur uppdráttum og í greinargerð. Greinargerðina má finna í auglýsingu Garðabæjar. Í tillögunni var m.a. gert ráð fyrir nýjum tengistíg sem er skilgreindur sem göngu- og hjólreiðastígur innan við hljóðmönina meðfram Hafnarfjarðarvegi. LHM gerði athugasemdir við tillöguna í bréfi 27. ágúst 2013.

Lógo GarðabæjarÍ athugasemdum LHM var minnt á leiðbeiningar um hönnun fyrir reiðhjól[1] sem Efla verkfræðistofa vann fyrir Reykjavíkurborg, einnig á veghönnunarreglur Vegagerðarinnar[2] sem fjalla m.a. um gerð stíga fyrir gangandi og hjólandi, og loks á reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289/1995[3].

Samtökin gerðu ekki athugasemdir við legu nýja stígsins en lögðu til:

  1. Að stígurinn yrði að lágmarki 3 eða 4 m. breiður eftir atvikum en í uppdrætti af sneiðingu í greinargerð er hann sýndur 2,5 m. breiður. Ef hann er 3. m. verði gert ráð fyrir að umferð gangandi og hjólandi sé ekki aðgreind enda leyfir mjórri stígur en 4 m. ekki aðgreinda umferð gangandi og hjólandi. Ef aðgreina á umferð gangandi og hjólandi verði stígurinn ekki mjórri en 4,5 m. og er þá 2,5 m. ætlaðir tvístefnu hjólastíg, 1,5 m. ætlaðir gangandi og öryggisaxlir eru 0,25 m. sitthvoru megin.
  2. Að gert yrði ráð fyrir því að stígurinn liggi í undirgöngum undir Arnarnesveg.
  3. Að stígurinn og tengingar stígsins við núverandi stígakerfi verði þannig úr garði gerð að stígsýn verði fullnægjandi (engin blindhorn eða blindbeygjur) og að stígamót norðan og sunnan við verði hönnuð með þeim hætti að umferð verði greið og skapi sem minnsta hættu á árekstrum við aðra vegfarendur. Sérstaklega þarf að huga að stígamótum við undirgöng undir Hafnarfjarðarveg sunnan við deiliskipulagssvæðið. Þau undirgöng eru einnig alltof þröng og þarf að huga að breikkun þeirra.

 

Afgreiðsla Garðabæjar á athugasemdum kom fram í bréfi. Þar kom fram að athugasemdir LHM verði teknir til athugunar við endanlega útfærslu og hönnun á tengistíg.

Auglýsing Garðabæjar.

Uppdráttur af deiliskipulaginu.

Bréf með athugasemdum LHM.

Svarbréf Garðabæjar.

[1] Hönnun fyrir reiðhjól. Leiðbeiningar. EFLA og Reykjavíkurborg maí 2011. http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/umhverfissvid/myndir/skyrlsur/Leidbeiningar_honnun_hjol.pdf
[2] Veghönnunarreglur - Kafli 02 Þversnið. http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/VhRg02_THversnid/$file/VhRg02_Thversnid_2011.pdf
[3] Reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289/1995. http://www.reglugerd.is/interpro/dkm/WebGuard.nsf/key2/289-1995