Póstur sendur vegna lagningu forgangsakreinar við Miklubraut

Þessa dagana er verið að leggja forgangsakrein meðfram Miklubraut milli Grensásvegar og Kringlumýrarbrautar. Landssamtök hjólreiðamanna mælast eindregið til þess að Reykjavíkurborg leggi jafnframt fullgilda, aðgreinda  hjólreiðabraut¹ samhliða þessari framkvæmd.


Viðtakendur þessa bréfs:
 
Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi og formaður hjólreiðanefndar Rvkurborgar,
Ólafur Bjarnason, Samgönguskrifstofu Rvkurborgar,
Pálmi Freyr Randversson,Umhverfis- og samgöngusviði Rvkurborgar,
Jónas Snæbjörnsson, Vegagerð ríkisins
 
 
 
 

                        Reykjavík, 3. júní 2008

 

Hjólreiðabraut meðfram Miklubraut

 

 

Þessa dagana er verið að leggja forgangsakrein meðfram Miklubraut milli Grensásvegar og Kringlumýrarbrautar. Landssamtök hjólreiðamanna mælast eindregið til þess að Reykjavíkurborg leggi jafnframt fullgilda, aðgreinda  hjólreiðabraut¹ samhliða þessari framkvæmd.

Greinargerð.

 

Ekkert bendir til að hjólreiðar verði leifðar á forgangsakreinum þrátt fyrir ítrekaða beiðni hjólreiðasamtaka þar að lútandi. Mikil þörf er því á að bæta aðstöðu til hjólreiða meðfram stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins. Fullgildar, aðgreindar hjólreiðabrautir¹ kalla á breytta hönnun þverana við gatnamót frá því sem nú er. 

Lagningu fyrirhugaðrar forgangsakreinar fylgja breytingar við gatnamót. Vegna þess má telja skynsamlegt að leggja hjólreiðabraut samhliða lagningu forgangsakreinarinnar og ganga frá henni með þau sjónarmið í huga, sem fram koma í eftirfarandi skýringum.

Á það skal minnt hér, að Miklabraut er flokkuð sem þjóðvegur í þéttbýli, og samvæmt því er heimild í vegalögum um að ríkið komi að kostun þessarar framkvæmdar.

Landssamtök hjólreiðamanna óska eftir viðbrögðum og skriflegu svari viðtakenda bréfsins við þessari beiðni (bréflega eða með tölvupósti).

Kær kveðja með von um góð viðbrögð

F.h. Landssamtaka hjólreiðamanna

Magnús Bergsson

 

 Frekari skýringar:

 (¹) Með orðunum "fullgild hjólreiðabraut" er átt við þriggja metra breiða tvístefnuhjólreiðabraut. (1½+1½m) þar sem auðvelt er að halda 30 km meðalhraða. Slíkar brautir ætti að leggja meðfram öllum vegum og götum þar sem umferðarhraði vélknúinna ökutækja er eða fer yfir 60 km/klst eða þar sem umferðin fer yfir tiltekin fjölda ökutæja á sólarhring (sjá t.d. norska staðla).

Hjólreiðabrautin, sem hér er óskað eftir, þarf að vera aðskilin frá akandi og gangandi umferð. Við hönnun sé tekið mið af jafnræðisreglu allra hjólandi og akandi vegfarenda  t.d. við frágang á gatnamótum.  Umferð hjólreiðafólks á ekki að hindra með járngrindum, kantsteinum, hvössum brúnum eða mishæðum, heldur fari hún um beina og slétta braut  yfir gatnamót eins og umferð annarra ökutækja. Við gatnamót séu einnig sérstök umferðarljós fyrir hjólandi umferð með skynjurum og hnöppum sem gagn er að, sem og aðrar málaðar merkingar og skilti.  Taka verður mið af legu og hönnun hjólreiðabrautar svo að yfirborðsvatn safnist ekki fyrir á henni og frjósi þar eins og nú er víða títt á göngu- og útivistarstígum. Hjólreiðabrautin þarf að liggja sem næst hæðarplani akbrautarinnar, svo að notendur finni sem minnst fyrir hæðarmuninum. Í beygjum þarf brautin að halla inn í beygjuna.

Fullgild hjólreiðabraut á því að vera slysagildrulaus leið þar sem hjólreiðamaður á greiða leið allan ársins hring  og tekur þátt í samgöngum með sama hætti og eftir sömu kröfum og vélknúið ökutæki. Þá fyrst verða hjólreiðar fullgildur samgöngukostur og samkeppnishæfar við einkabíla.